Aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 17:13:07 (728)

1997-10-21 17:13:07# 122. lþ. 13.11 fundur 4. mál: #A aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun# þál., Flm. SJóh
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[17:13]

Flm. (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Ég flyt hér með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni till. til þál. um aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun og framboði ofbeldisefnis. Við fluttum hliðstæða tillögu á síðasta þingi sem ekki náði fram að ganga og viljum því endurvekja þessa tillögu hér.

Það líður nú varla ein einasta vika svo að ekki sé í fréttum einhver fólskuleg ofbeldisverk sem hafa verið unnin á saklausu fólki, oftar en ekki algjörlega óviðbúnu. Þótt farið sé ofan í allan málavexti lið fyrir lið kemur ekkert fram sem gæti hafa verið tilefni árásarinnar. Sérstaka athygli vekur tíðni þess óhugnaðar sem virðist vera æ algengari, þ.e. að sparkað sé í liggjandi mann. Það hafa nokkrir menn sem voru kunnir fyrir að hafa svolítið gaman af svokölluðum slagsmálum sem áður tíðkuðust í sambandi við sveitaböll á Íslandi lýst því að þetta fór fram eftir ákveðnu ritúali. Það byrjaði með því að menn fóru úr jakkanum, skóku hnefana um stund hvor framan í annan og svo byrjuðu átökin sem raunar fóru fram eftir nokkuð föstum reglum svo það var sjaldgæft að nokkur slasaðist í þessum svokölluðu slagsmálum. Það þótti mikil óhæfa reyndar að slasa mótherjann í slíkum átökum. En nú gilda að því er virðist engar slíkar hömlur og oft á tíðum virðist leikurinn fyrst og fremst vera til þess gerður að meiða.

Því miður er það svo að þó að fréttir fjölmiðlanna fjalli fyrst og fremst um unglinga eða fullorðið fólk, þá verður þessarar auknu hörku í handalögmálum ekki síður vart hjá börnum og hafa margir kennarar haft af því þungar áhyggjur og reynt að grípa til ýmissa aðgerða til að sporna við þessari þróun. En betur má ef duga skal.

[17:15]

Fjölmargar rannsóknir sem hafa verið gerðar á undanförnum árum hafa sýnt svo ekki verður um villst að alls konar ofbeldi í þjóðfélaginu hefur aukist í réttu hlutfalli við það ofbeldisefni sem er á boðstólum og hafa margar athyglisverðar niðurstöður komið út úr þeim rannsóknum. Vil ég vitna í niðstöður svokallaðrar Eisenhower-nefndar, með leyfi hæstv. forseta:

Ef litið er til skammtímaáhrifa sjónvarpsofbeldis kom tvennt í ljós. Annars vegar læra áhorfendur hvernig á að beita ofbeldi með því að horfa á ofbeldi í sjónvarpi. Hins vegar aukast líkurnar á því að einstaklingur beiti ofbeldi ef þeim sem beitir ofbeldi í sjónvarpi er umbunað fyrir ódæðisverkið.

Einnig var hægt að rýna í hugsanleg langtímaáhrif sjónvarpsofbeldis. Þar kom fram í fyrsta lagi að þeir einstaklingar sem horfðu á ofbeldi í sjónvarpi í ríkum mæli væru líklegri en aðrir til að telja að ofbeldi væri eðlilegur hlutur í tilveru fólks. Í öðru lagi fólk verður smám saman ónæmara gagnvart raunverulegu ofbeldi og í þriðja lagi verður ofbeldi talin leið til að útkljá deilumál milli manna í stað þess að grípa til skynsamlegrar rökræðu til lausnar ágreiningsmála.

Um allan heim hefur orðið vart þeirrar þróunar sem við höfum áhyggjur af og auðvitað flókið mál að reyna að sporna við henni. Ofbeldisefni býðst börnum og unglingum í ýmsu formi. Þau sem hafa slakastan félagslegan bakgrunn hópast oft saman utan skólatíma og horfa á slíkt efni og reyna að yfirbjóða hvert annað með því að vera nógu köld, láta ekki neinn sjá að þetta fái neitt á þau. Svo gerist það smám saman sem segir í Eisenhower-skýrslunni, að þau fara að líta svo á að ofbeldi sé eðlilegur hluti af tilverunni. Það er vandséð hvernig hægt er að koma í veg fyrir að þau börn og unglingar sem síst mega við því komist yfir síkt efni í einhverju formi. En við flutningsmenn tillögunnar trúum því samt að hægt sé að draga úr ofbeldisdýrkun og framboði ofbeldisefnis og höfum sett fram framkvæmdaáætlun í sjö liðum sem hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:

1. Setja má strangar reglur um sýningartíma efnis sem bannað er börnum.

2. Banna ætti auglýsingar á efni sem ekki er leyft til sýningar fyrir alla aldurshópa nema seint í kvölddagskrá sjónvarpsstöðva. Einnig á undan efni í kvikmyndahúsum sem leyft er til sýningar fyrir alla.

3. Aðgöngumiðar að kvikmyndum og útleiga á myndböndum sem sýna ofbeldisefni gæti borið viðbótargjald sem síðan mætti verja til fræðslu- og forvarnastarfs á viðkomandi sviði.

4. Stórefla þarf kvikmyndaskoðun og bæta aðstöðu barnaverndaryfirvalda og löggæslu til eftirlits, sbr. 9. gr. laga um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum, nr. 47/1995.

5. Framfylgja þarf ströngum reglum um að kvikmyndir séu ekki sýndar eða myndbönd leigð út eða afhent öðrum en þeim sem aldur hafa til að horfa á viðkomandi efni.

6. Framfylgja þarf ströngum reglum um aðgang að leiktækjum sem byggjast á ofbeldisefni.

7. Beina þarf fræðslustarfi að foreldrum jafnt sem börnum þar sem hvatt er til þess að virða aldurstakmörk og takmarka áhorf að ofbeldismyndum eða aðgang að öðru ofbeldisefni o.s.frv.

Ég vil einkum leggja áherslu á 7. lið um fræðsluna. Það þarf að upplýsa foreldra um hættuna sem er því fylgjandi að börnin þeirra horfi á slíkt efni. Um mikilvægi þess að foreldrar fylgist með því hvaða efni börnin þeirra eru að horfa á og að það skiptir máli að börnin séu ekki ein eða með jafnöldrum að meðtaka slíkt efni skýringalaust heldur ef slíkt efni er skoðað þá sé það skoðað með gagnrýni með uppalendum og unglingunum sýnt fram á hve fjarri raunveruleikanum það er og hversu mikil fjarstæða það er að ofbeldi geti aflað einstaklingnum þeirrar viðurkenningar í samfélaginu sem hann hefur ekki getað öðlast með öðrum hætti.

Ég minni á að nú þegar verið er að endurskoða námskrá fyrir grunnskóla og framhaldsskóla er lag til að koma þeim mikilvæga þætti inn í sem samskiptanámið er og ætla því stað í námsferlinu. Í tengslum við það er hægt að bjóða upp á vandað námsefni þar sem nemendum er í raun kennt að velja og hafna en á slíku er mikil þörf fyrir þá einstaklinga sem eru að hefja æviskeið sitt í fjölmiðlavæddum heimi nútímans. Það má hugsa sér að þau fari í gegnum t.d. ofbeldisefni með kennara sínum og þeim sé sýnt fram á hve fjarri veruleikanum slíkt efni er.

Það hefur lengi verið eitt mikilvægasta hlutverk skólans að byggja fólk upp svo það verði hæfara til að takast á við lífið og velja og hafna. En mikilvægi þess hlutverks skólans hefur svo sannarlega vaxið á undanförnum árum.