Aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 17:21:48 (729)

1997-10-21 17:21:48# 122. lþ. 13.11 fundur 4. mál: #A aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[17:21]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef svo sem ekki mörgu við að mæta þá ágætu framsöguræðu sem meðflutningsmaður minn að þessari tillögu flutti áðan. Ég vil aðeins leggja áherslu á nokkur atriði í þessu sambandi sem meira eru almenns eðlis en hitt.

Í fyrsta lagi mikilvægi þess sem kom reyndar ágætlega fram í framsöguræðu áðan að ná um þetta viðfangsefni góðu samstarfi allra aðila sem að því þurfa að koma, fræðsluyfirvalda og foreldra ekki síst og leggja áherslu á mikilvægi fræðslunnar í þessu sambandi en að sjálfsögðu þurfa einnig yfirvöld að koma til sögunnar og reglur þurfa að mínu mati að vera fyrir hendi sem unnt er að fá fólk til samstarfs um að virða. Þetta þarf með öðrum orðum að haldast í hendur. Skynsamlegar reglur sem sæmileg sátt er um í samfélaginu hvað varðar t.d. aldurstakmörk og annað slíkt og síðan almennur skilningur og vilji á því meðal foreldra, uppalenda og annarra sem hafa með málefni barna og unglinga að gera að eftir slíkum reglum sé farið.

Oft er talað þannig að ekki þýði annað en að gefast upp ef svo er komið að að einhverju leyti eru umtalsverð frávik frá því að reglum sem menn hafa ákveðið að setja sér í samfélaginu sé framfylgt. Taka mætti sem dæmi reglur um útivistartíma barna og unglinga sem allir vita að oft eru brögð að að ekki sé framfylgt. En ég held að í slíkum tilvikum beri a.m.k. fyrst að skoða vandlega þann möguleika að auka áróður fyrir því að eftir þeim reglum sé farið og halda uppi fræðslu og kynningu í því sambandi svo lengi sem menn á annað borð telja þær reglur skynsamlegar og að þær þjóni jákvæðum félagslegum eða samfélagslegum markmiðum.

Ég held að það svið sem við erum hér að ræða um, þ.e. aukið framboð af hvers kyns ofbeldisefni, og í raun og veru dýrkun á ofbeldi í samfélagi okkar sé mál sem eigi eftir að verða mjög mikið til umfjöllunar á komandi missirum og árum. Þess sér nú mjög víða stað að menn hafa vaxandi áhyggjur af þessum þáttum og öðru sem því tengist. Menn hafa kannski flotið sofandi að feigðarósi í þessum efnum. Lítið hefur verið aðhafst á sama tíma og ýmsar samverkandi ástæður hafa valdið því að ofbeldi og framboð á ofbeldisefni og ofbeldisdýrkun hafa verið að gegnsýra mannlegt samfélag. Þar ber margt til. Afþreyingarþörfin, tæknin og fleira leggst þar á eitt.

Þess vegna ber að fagna aukinni umræðu um þessi mál í samfélaginu, um ofbeldið og orsakir þess, hvað beri að gera sem ég hygg að flestir vilji til að sporna við því. Auðvitað heyrist stundum borin upp spurningin ,,hvort``, hvort það eigi að vera að velta þessu fyrir sér eða hafa áhyggjur af þessu. En ætli það séu samt ekki færri sem afgreiða málið þannig. Hinir eru fleiri sem velta því fyrir sér hvað sé raunhæft að gera til að reyna að hafa áhrif í þessum efnum.

Ég veit ekki, herra forseti, hvort ég ætti að vekja athygli á því að með tillögunni fylgir nýtt fskj. sem ekki var með í fyrri útgáfu, þ.e. þegar tillagan var lögð fram á síðasta þingi. Það er umsögn ágæts blaðamanns hér í landi um nýjan tölvuleik. Ef menn fletta upp á bls. 4 í tillögunni og sjá þar fskj. I gefur að líta umsögn um þennan nýja tölvuleik sem gefin eru hin hástemmdustu lýsingarorð. Þar er fjallað um út á hvað leikurinn gangi. Nú kann að vera að blaðamaðurinn hafi sest upp á skáldafákinn og sem góður stílisti noti hann kraftmikið orðalag þegar hann er að lýsa því sem þarna fer fram en ég hygg að fleirum en mér þyki athyglisvert að heyra hvernig þessum leik sem talinn er frábær og er það vafalaust tæknilega er lýst í umsögninni. Með leyfi forseta, er þar m.a. fjallað um þann hluta leiksins sem við sögu koma persónur sem hér eru nefndar leðurklæddir kvendjöflar. Ég leyfi mér að lesa og tek fram að hér er verið að lýsa því sem fram fer í leiknum:

,,Dýflissunni þarf að stjórna með harðri hendi [það er leikandinn sem er gerandinn í þessu tilviki og á að stjórna dýflissunni] og rétt að löðrunga þjónana reglulega, sérstaklega ef þeir eru ekki að vinna af krafti. Sumir kunna því reyndar hið besta, til að mynda leðurklæddir kvendjöflar sem emja af gleði og færast allar í aukana. Þó verður að gæta þess að vera ekki of laus höndin og varast að berja til bana aðstoðarfólkið, sérstaklega púkana sem kosta því meira sem fleiri eru keyptir. Gott er að taka einhverja eina skepnu og pynta í pyntingaherberginu því þá vinna aðrar sama kyns betur á meðan. Yfirdjöfullinn, þ.e. sá sem leikur, verður líka að taka tillit til guða heimsins og fórna reglulega einhverjum starfsmanna sinna.

Ef tekst að handsama einhverja hetjuna er sjálfsagt að koma henni í fangelsi og síðan á pyntingabekkinn til að reyna að snúa henni til hins illa. Það tekst ekki alltaf en hafa má gaman af veinum og hrópum þeirra á bekknum. Ef hetjurnar svelta til bana í dýflissunni breytast þær í beinagrindur og ganga til liðs við yfirdjöfulinn, en ef líkin eru dregin í kirkjugarð breytast þær í vampírur sem eru góður liðsauki.``

Rétt er að taka fram að leikurinn mun byggjast á því að leikandinn eða gerandinn bregður sér í hlutverk hins illa öfugt við það sem gjarnan er í leikjunum að menn leika hetjurnar og tölvan sér um að leika hlutverk glæpamannanna, óþokkanna eða hinna illu afla. Ætli fleirum en mér fari ekki svo að eftir að lesa þennan texta að þeir hrökkvi við og spyrji sig hvort þetta sé það sem við sættum okkur við að börn og unglingar séu að sýsla við eða leika sér að í tölvunum á heimilunum.

Herra forseti. Þetta mál teygir anga sína víðar en áður var. Það má segja að það séu fæst svið mannlegs lífs eða mannlegra athafna nú um stundir sem eru ekki að einhverju leyti undir það seld að ofbeldisefni eigi þar greiðan aðgang. Hér áður fyrr var um margt einfaldara að setja reglur og framfylgja reglum sem miðuðu að því að takmarka aðgengi barna og unglinga að slíku efni og verja þau fyrir ljótleika tilverunnar ef svo má að orði komast. En að minnsta kosti í gerviheiminum sem fylgir nútímatækni er slíkt erfitt vægast sagt ef ekki ógerlegt í vissum tilvikum. En spurningin er eftir sem áður þessi sama: Sættum við okkur við það? Viljum við baráttulaust gefast upp fyrir því að sívaxandi flóð af hvers kyns ofbeldi og ofbeldistengdum hlutum í máli og myndum eða athöfnum gegnsýri allt daglegt líf okkar og heim? Það er ekki skoðun okkar flutningsmanna og við teljum að hér sé hægt að koma ýmsum vörnum við ef vilji er fyrir hendi og er a.m.k. tilraunarinnar virði að gera svo.

[17:30]

Um orsakasamhengi og sannanir ætla ég ekki að fara mörgum orðum. Ég gæti vísað til þess sem ég sagði um það efni í framsöguræðu fyrir sömu tillögu í fyrra og einnig til gagna í fylgiskjölum. Ég held að hér það eigi við, sem svo víða áður, að spurning er um það að svo miklu leyti sem þar er vafi á ferðum hver eigi að njóta vafans. Það eru algeng viðbrögð að skorast undan því að grípa til aðgerða eða taka á málum og bera því við að ekki hafi verið sannað vísindalega og með óyggjandi hætti að þetta eða hitt hafi hinar eða þessar afleiðingar. Allir þekkja sorglegan drátt sem varð á því að menn tækju á mengun og vaxandi umhverfisspjöllum víða um heim með því að bera fyrir sig að það væri nú kannski ekki sannað að beinlínis þessi eða hin starfsemin, þetta eða hitt efnið, þessi eða hinn mengunarvaldurinn væri sökudólgurinn og það þyrfti að rannsaka betur og til þess þyrfti tíma og á meðan var ekkert gert. Mér finnst við að mörgu leyti vera í sambærilegri stöðu hér. Það er ekki vísindalega sannað þannig að auðvelt sé að festa hönd á því að svo og svo mikið framboð af ofbeldisefni eða svo og svo mikið áhorf barna og unglinga eða annarra, sem mótstöðulitlir eru, á gróft ofbeldisefni hafi tiltekin áhrif. Það eru sterkar líkur sem benda til orsakasamhengis en spurningin er sú: Ætlum við að nota vafann á þann hátt að aðhafast ekkert og viljum við láta börnin okkar njóta vafans eða grípa til þeirra ráðstafana þó ekki væri nema í varúðarskyni sem við teljum skynsamlegt að gera í þessum efnum?

Í öllu falli, herra forseti, er mikil þörf á því að þessi mál séu tekin til umfjöllunar og umræðu í samfélaginu. Vissulega veit ég að svo er víða. Ég get sagt frá því að eftir að þessi tillaga kom fram á þingi á sl. vetri varð ég var við umtalsverð viðbrögð og fékk m.a. óskir um að mæta víða á fundi í foreldrafélögum í skólum og víðar þar sem menn höfðu áhuga á að taka þessi mál fyrir. Ég leyfi mér þess vegna að trúa því að í raun sé ekki ástæða til að óttast um áhugaleysi foreldra eða annarra uppalenda hvað það varðar að taka þátt í aðgerðum á þessu sviði ef stjórnvöld, Alþingi, ríkisstjórn og aðrir aðilar ganga á undan með góðu fordæmi og því frumkvæði sem ég er sannfærður um að nauðsynlegt er að slíkir aðilar hafi en í góðu samstarfi að sjálfsögðu við þá sem sinna uppeldis- og fræðslumálum og síðast en ekki síst almenning í landinu, foreldra og annarra sem koma að uppeldi barna.