Aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 17:44:07 (731)

1997-10-21 17:44:07# 122. lþ. 13.11 fundur 4. mál: #A aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[17:44]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir undirtektir undir þessa tillögu og bæta nokkrum orðum við það sem hv. þm. fjallaði um og ég vil segja til viðbótar um þetta mál.

Í fyrsta lagi er rétt að fram komi að tillagan komst á það stig í meðferð Alþingis í fyrra að málið var sent út til umsagnar og um það bárust allmargar umsagnir. Ég hygg að það sé ekki hallað réttu máli þó að sagt sé að þær hafa nánast án undantekninga verið jákvæðar. Það komu vissulega fram ýmsar ábendingar í þeim umsögnum um hluti sem þyrfti að athuga og betur mættu fara. Eitt var talið mikilvægara en annað o.s.frv. Reyndar leiddi ein umsögn til þess að við flutningsmenn gerðum lítils háttar breytingu á tillögugreininni til að undirstrika það að með orðinu ofbeldi eða undir hugtakið ofbeldi í þessu samhengi félli hvers kyns ofbeldi, þar með talið og ekki síður kynferðisofbeldi ef það væri sýnt í einhverju formi.

Vissulega hafa jákvæðir hlutir gerst í þessum málum á undanförnum árum. Það er tekið fram í greinargerð að að sjálfsögðu beri að fagna því að embætti umboðsmanns barna komst á laggirnar eftir mikla og einarða baráttu ákveðinna aðila fyrir því. Þar má vel nefna nafn Guðrúnar Helgadóttur, þáverandi og reyndar núverandi hv. alþm. sem flutti það mál fyrst inn í sali Alþingis.

Tilkoma Barnaverndarstofu er sömuleiðis að sjálfsögðu af hinu góða þar sem vonandi verður unnt að efla starf sem lýtur að öllu þessu tengdu, barnavernd almennt og málefni barna, en þá kemur líka vissulega að því sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir nefndi að það þarf að sjá fyrir nægjanlegum fjármunum til þess að sú starfsemi geti eflst og orðið jafnkraftmikil og við viljum sjá hana.

Hér hafa einnig verið gerðar nokkrar úrbætur hvað löggjöf snertir og má nefna breytingu á lögum um bann við ofbeldisefni og ofbeldiskvikmyndum sem gerðar voru á síðasta þingi að ég hygg. En betur má ef duga skal og það sem tillagan felur í sér umfram einstök atriði af þessu tagi, sem vissulega má nefna til, er ekki síst sú hugsun að með samræmdri áætlun um aðgerðir verði allir laðaðir saman til virkrar þátttöku í þessu efni. Slíkar samræmdar aðgerðir eða framkvæmdaáætlanir hafa mjög víða gefið góða raun. Mætti nefna þar áætlun um aðgerðir til að auka öryggi í umferðinni og draga úr umferðarslysum sem er að stíga sín fyrstu skref hér á landi en hefur á hinum Norðurlöndunum t.d. lengi verið notuð sem aðferð til að ná árangri.

Ég hygg, herra forseti, að um það sé ekki deilt að ástandið hafi versnað í þessum efnum, a.m.k. hér á landi hin síðari ár. Það eru nánast borðleggjandi sannanir fyrir því að tilefnislaust, gróft ofbeldi hefur orðið algengara, að skeytingarleysi um það að aðrir verði fyrir ofbeldi hefur vaxið og afskiptaleysi jafnvel þannig að fjöldi manna standi aðgerðarlaus hjá og horfi á að menn séu beittir ofbeldi. Frásagnir af slíku gerast því miður æ algengari.

Að lokum kem ég aðeins inn á það sem ég hef reyndar áður nefnt í þessu sambandi og það er sú þróun og þær breytingar sem eru að verða og tengjast m.a. tækni, eða tækniframförum mundum við sjálfsagt vilja segja, í okkar samfélagi þar sem eru ótrúlegir hlutir að gerast hvað varðar nánast takmarkalausa möguleika til framleiðslu myndefnis, gerðar tölvuleikja og til að beinlínis skapa óraunverulegan heim, sýndarveruleikaheim, sem getur orðið með ólíkindum eðlilegur. Það má nærri geta að fyrir þá sem glíma við það að þroska stig ævi sinnar þegar mörkin milli veruleika og ímyndunar eru oft óljós skapar þetta viðbótarhættur sem ástæða er til að hafa áhyggjur af. Það er með öllu óvíst að við höfum séð nema toppinn á ísjakanum hvað það snertir, herra forseti, enn sem komið er hvaða áhrif þessar ,,tækniframfarir`` geta átt eftir að hafa á mannlegt samfélag.

Að öðru leyti þakka ég fyrir umræðuna.