Aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 17:54:48 (734)

1997-10-21 17:54:48# 122. lþ. 13.11 fundur 4. mál: #A aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[17:54]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki miklu við þetta að bæta og er innilega sammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Ég held að þessir ,,allir`` séu afskaplega sterkt afl og það er gott að vekja umræðu um það. Ég tek líka undir að saman höfum við staðið að því þessir flokkar, Alþfl. reyndar og Alþb., þ.e. lesist jafnaðarmenn, hafa átt frumkvæði að því að koma embætti umboðsmanns barna á laggir. En þess vegna nefni ég þetta hér og sé til þess sérstaka ástæðu og ekkert skrýtið að þingmaðurinn skuli ekki vita um tilurð tillögunnar, að samband alþýðuflokkskvenna sem vann öflugt starf í stefnumörkun í málefnum barna eins og svo margt annað, stefnumörkun í málefnum fjölskyldunnar, konunnar í samfélaginu o.s.frv. Það var þetta ágæta samband og konurnar í mínum flokki báru slík mál inn á flokksþing og úr þeim brunni var sótt ýmislegt efni sem flutt var hingað inn á þing. Í þann brunn voru sóttar tillögur um aðgerðir í málefnum barna. Sumt af því hefur orðið að veruleika eins og umboðsmaður barna þó það ætti eftir að fara þessa krókaleið. Þess vegna er mér sérstök ánægja að því að rifja það upp og segja frá því að öflugt starf kvennahreyfingar innan flokka getur oft skilað sér inn á Alþingi jafnvel þó enginn viti um þann fjarlæga og þögula hóp sem þar kom að verki. Þess vegna nefni ég þetta hér í dag.