Öryggismál í skólum

Miðvikudaginn 22. október 1997, kl. 13:36:59 (740)

1997-10-22 13:36:59# 122. lþ. 14.1 fundur 46. mál: #A öryggismál í skólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[13:36]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Öryggismál skólabarna falla undir marga og aðeins að hluta undir menntmrn.

Í fyrri lið fsp. er spurt hvort ég muni beita mér fyrir því að fræðsla sem miðar að því að draga úr slysum á börnum í skólum verði hluti af námsefni grunnskólans. Um þessar mundir stendur yfir endurskoðun á aðalnámskrám grunn- og framhaldsskóla. Í þeirri vinnu skapast gott tækifæri til að endurskoða þau markmið grunnskólanáms sem lúta að slysavörnum, gera þau ákveðnari og skýrari ef með þarf og koma þeim þannig fyrir í skipulagi náms og kennslu að mestar líkur verði á árangri. Rétt er að taka fram að fræðsla sem stuðlar að forvörnum er þegar fyrir hendi í grunnskólum. Eitt skýrasta dæmið um slíka fræðslu er umferðarfræðsla fyrir börn og unglinga. Fræðsla um slysahættu og slysavarnir er hluti af heimilisfræðslukennslu og íþróttakennurum ber að gera nemendum grein fyrir slysahættu við íþróttaæfingar og haga kennslunni þannig að ekki sé hætta á meiðslum. Í náttúrufræðikennslu er þess gætt að nemendur hafi einungis skaðlaus efni og áhöld með höndum í tilraunum og í smíðakennslu er brýnt fyrir nemendum að umgangast vélar, eggjárn og efni af mikilli varúð. Þá má geta þess að þótt kennsla í skyndihjálp miðist við viðbrögð eftir að slys hefur orðið er stór hluti skyndihjálparkennslu í raun kennsla í slysavörnum. Ég tel því að þegar sé unnið að slysavörnum í grunnskólum og rétt sé að bíða nýrrar námskrár til að meta hvort þörf er á sérstöku námsefni í slysavörnum umfram það sem nú er notað í skólunum.

Í seinni lið fsp. er spurt hvort ég muni vinna að því að settar verði sérstakar reglur um öryggismál í skólum, svo sem þjálfun kennara og gæslumanna í skyndihjálp, neyðarbúnað og annað. Í þessu sambandi skal sérstaklega á það bent að eftir að grunnskólalög, nr. 66/1995, komu að fullu til framkvæmda með flutningi grunnskólans til sveitarfélaganna 1. ágúst 1996, fluttist sú ábyrgð á grunnskólahaldi sem áður var hjá menntmrn. til einstakra sveitarfélaga. Í 12. gr. laganna er tekið fram að eitt hlutverk skólanefnda sé að fylgjast með því að jafnan sé fyrir hendi fullnægjandi húsnæði og annar búnaður, þar með talin útivistar- og leiksvæði. Skólanefnd ásamt skólastjóra á að líta eftir því að uppfylltar séu kröfur laga og reglugerða um aðbúnað í skólum og á skólalóðum og þessir aðilar eiga að snúa sér til sveitarstjórnar ef þeir telja að öryggi skólabarna sé ekki fyllilega tryggt.

Svo sem áður er vikið að hljóta ákvæði byggingarlaga og laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglur sem settar eru á grundvelli þeirra laga að koma til sérstakrar skoðunar varðandi öryggi nemenda í skólum og þar með er vísað til hlutverks félmrn. annars vegar og umhvrn. hins vegar. Menntmrn. hafði forgöngu um að stefna saman hinum ýmsu aðilum sem öryggismál barna í skólum heyra undir og var slíkur fundur haldinn í ráðuneytinu 8. apríl 1997. En fundinn sátu fulltrúar menntmrn., umhvrn., félmrn. og Sambands íslenskra sveitarfélaga auk barnaslysavarnafulltrúa Slysavarnafélags Íslands. Niðurstaða þessa fundar varð sú að í lögum um leikskóla og grunnskóla væru ekki heimildir til að setja sérstakar reglur um öryggismál í skólum. Það vantaði þó ekki að lög og reglur tækju á öryggismálum barna og unglinga heldur væri vandinn fremur sá að þeim væri ekki nægilega vel fylgt eftir og margir aðilar ættu að sjá um eftirlit. Um þetta leyti var sérstakur vinnuhópur um öryggismál barna að störfum á vegum umhvrn. og í bréfi sem ég sendi umhvrh. 8. apríl sl. óskaði ég eftir því að sá vinnuhópur tæki öryggismál í skólum til sérstakrar skoðunar. Jafnframt lýsti ég því yfir að menntmrn. væri að sjálfsögðu reiðubúið til að taka þátt í aðgerðum til að koma í veg fyrir slys á börnum eftir því sem slík mál falla undir menntmrn.

Þá vil ég minna á að reglur um öryggi á sundstöðum og við kennslulaugar voru settar árið 1994 og kynntar hlutaðeigandi aðilum um land allt. Endurskoðun á reglum þessum er hafin og á að vera lokið um næstu áramót.

Loks skal bent á að í frv. til íþróttalaga sem ég lagði fram á Alþingi í vor er sérstakt ákvæði til að tryggja ótvíræða lagastoð fyrir reglur um öryggisatriði í íþróttamannvirkjum og þar er gert ráð fyrir að menntmrh. hafi forgöngu um að setja reglur um öryggisráðstafanir í íþróttamannvirkjum, þar á meðal eftirlit að því er varðar íþróttaáhöld og annan búnað. Slíkar reglur taki þá einnig til íþróttaaðstöðu í skólum.