Öryggismál í skólum

Miðvikudaginn 22. október 1997, kl. 13:42:13 (741)

1997-10-22 13:42:13# 122. lþ. 14.1 fundur 46. mál: #A öryggismál í skólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SvG
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[13:42]

Svavar Gestsson:

Herra foreti. Ég vil þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að bera þessa fsp. fram og bæta því við að ég tel að það sé nauðsynlegt í umræðum um þessi mál í tilefni af flutningi grunnskólans til sveitarfélaganna rekstrarlega, að fara rækilega yfir skyldur, réttindi og ábyrgð aðila að því er varðar börn og hugsanleg óhöpp sem þau verða fyrir í skólum, á skólalóðum, í íþróttasölum eða með öðrum hætti á svæðum sem tengd eru skólum. Ég tel að þessi ábyrgð sé illa skilgreind nú. Og ég tel að það sé óheppilegt bæði fyrir kennara og aðra að þessi ábyrgð á börnunum sé jafnóskýr og raun ber vitni. Ég vil því draga það mál inn í þessa umræðu og að sest verði yfir það mjög rækilega að skilgreina þessa ábyrgð nákvæmlega, hvað er hvers í þessum efnum.