Málefni skipasmíðaiðnaðarins

Miðvikudaginn 22. október 1997, kl. 14:13:39 (754)

1997-10-22 14:13:39# 122. lþ. 14.4 fundur 169. mál: #A málefni skipasmíðaiðnaðarins# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., GE
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[14:13]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Hér er hreyft ákaflega mikilvægu máli því gengið hefur verið að því sem vísu að ríkisstyrkir ESB til skipasmíða heyrðu sögunni til. Það er gífurlega mikilvægt að sá vöxtur, sem nú er í málmiðnaði, viðhaldi og endurnýjun mannafla, er hafinn í kjölfar stöðugrar fækkunar í málmiðnaðargreinunum eins og verið hefur undanfarin ár. Því er ástæða til að þakka hv. þm. fyrir þessa fyrirspurn. En ég hvet ráðherra til að setja á stofn starfshóp til ráðleggingar um hvernig bregðast skuli við þeim nýju upplýsingum sem hér eru ræddar. Þó svo gefnar hafi verið skýringar á því hvernig nú þegar hafi verið brugðist við, þá tel ég það ekki nóg og ráðlegg að skipaður verði nýr starfshópur. Einnig þarf að hefja undirbúning að stálskipasmíðum að nýju á Íslandi. Það er vegna þess að stór hluti fiskiskipaflotans er orðinn mjög gamall og má segja úr sér gengin sem sannast best á því að við erum ekki með fiskveiðiflota með kælitönkum.