Málefni skipasmíðaiðnaðarins

Miðvikudaginn 22. október 1997, kl. 14:16:19 (756)

1997-10-22 14:16:19# 122. lþ. 14.4 fundur 169. mál: #A málefni skipasmíðaiðnaðarins# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[14:16]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég held að niðurlæging skipasmíðaiðnaðarins og sinnuleysi stjórnvalda um málefni hans síðustu 10--15 árin hafi verið einhver af stærri mistökum sem gerð hafa verið í íslenskri atvinnusögu á seinni árum. Auðvitað var sorglegt að sjá hvernig íslenskum skipasmíðaiðnaði var látið blæða út á sama tíma og bullandi ríkisstyrkir voru til samkeppnisaðilanna í nágrannalöndunum.

Upptalning hæstv. ráðherra á því sem gert hafði verið undanfarin ár, aðallega í tíð forvera hans, breytti svo sem ekki miklu. Við munum eftir Appeldore-skýrslunni og þeirri annars þó merku niðurstöðu hennar að íslenskur skipasmíðaiðnaður væri bærilega samkeppnisfær þegar ríkisstyrkir væru undan teknir. En upp á síðkastið hefur lítið gerst enda hæstv. ráðherra aðallega verið upptekinn við annað eins og kunnugt er.

Varðandi jákvæð áhrif af stóriðjuframkvæmdum á skipasmíðafyrirtækin er það afar tvíbent. Áhrifin sem fyrirtækin sem lengst liggja frá höfuðborgarsvæðinu kannast aðallega við er samkeppni um hæfa járniðnaðarmenn og launaskrið sem leitar út í fyrirtækin án þess að þau fái þó nokkuð af þeim verkefnum sem stóriðjuframkvæmdunum á suðausturhorninu tengjast en það hefur ekki orðið öllum þeirra til mikillar blessunar.

Ég endurtek spurningu mína um það hvers vegna fulltrúum iðnaðarins hefur ekki verið tryggt sæti í hinni svokölluðu smíðanefnd. Mér er ljóst að sú spurning á kannski frekar að beinast að hæstv. sjútvrh. Ég geri ráð fyrir að hæstv. iðnrh. hafi reynt að fylgja þessu máli eftir fyrir hönd iðnaðarins. Hefur hann einhverjar upplýsingar fram að færa um það af hverju hæstv. sjútvrh. hefur ekki veitt fulltrúum iðnaðarins sæti í undirbúningsnefndinni?.

Mér sýnist niðurstaðan því miður ekki stefna í að verða nógu góð. Ég las áðan út úr orðum hæstv. iðnrh. að það stæði þrátt fyrir allt ekkert annað til en alútboð á þessu verkefni. Það væri ekki á dagskrá að gera þetta að sérstöku þróunarverkefni og skipta því upp í einstaka verkþætti þannig að samstarf skipasmíðastöðvanna um það gæti náð fram að ganga. Það er undir hælinn lagt ef ekki verður boðið út án nokkurra takmarkana á öllu Evrópska efnahagssvæðinu hvernig því reiðir af.

Varðandi ríkisstyrkina er rétt að hafa í huga að þó svo þeir séu vonandi á útleið, t.d. í fiskiskipunum, munu áhrifin m.a. af fjárfestingarstyrkjunum verða langvarandi og gera samkeppnisstöðuna ójafna langt inn í framtíðina.