Áburðarverksmiðjan hf.

Miðvikudaginn 22. október 1997, kl. 14:31:50 (761)

1997-10-22 14:31:50# 122. lþ. 14.3 fundur 79. mál: #A Áburðarverksmiðjan hf.# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[14:31]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Framsfl. hefur tekið upp þá stefnu að þegar talað er um vanda Áburðarverksmiðjunnar þá er talað um rafgreiningu á vetni og þegar talað er um menntamál þá er þjóðinni kennt um vandann. Það eru mjög snjallar aðferðir til þess að skjóta sér undan alvarlegri umræðu um málin. Það er ekki hægt að leysa vanda Áburðarverksmiðjunnar með því að ákveða að fara út í stórfellda rafgreiningu á vetni. Það er alveg augljóst mál og það veit hv. síðasti ræðumaður eins vel og ég og jafnvel miklu betur. Staðreyndin er sú og það alvarlega í málinu varðandi Áburðarverksmiðjuna er að tekin hefur verið ákvörðun um að fresta því að taka ákvörðun um framtíð verksmiðjunnar. Það er það eina sem liggur fyrir.

Hæstv. ráðherra sagði ekkert annað áðan en það að búið er að ákveða að fresta um sinn sölutilraunum á verksmiðjunni. Á meðan blæðir verksmiðjunni út. Á meðan streymir út úr verksmiðjunni sú þekking sem hv. síðasti ræðumaður var að tala um áðan. Á meðan gerist það að forstjóri verksmiðjunnar, sem hefur náð miklum árangri í rekstri hennar og er virtur rekstrarmaður og sérfræðingur á sínu sviði, hefur sagt upp störfum, ekki vegna þess að hann sé óánægður með það að ríkið haldi áfram rekstri fyrirtækisins heldur vegna þess að fyrirtækið er áfram í fullkominni óvissu. Þannig að ákvörðun forstjórans að segja upp í Áburðarverksmiðjunni er fyrst og fremst yfirlýsing um vantraust á vinnubrögð ráðherrans í þessu máli eins og þau hafa verið.

Það er líka alvarlegt umhugsunarefni að ríkið skuli ekki taka á móti þeim vilja sem birtist t.d. af hálfu Reykjavíkurborgar í því að reyna að halda þessari starfsemi áfram. Hér er um að ræða 100 manna vinnustað. Hér er um að ræða stærri vinnustað en t.d. nemur stækkun stórverksmiðjanna sem Framsfl. er alltaf að hreykja sér af. Á sama tíma og menn eru að opna þessar viðbætur við stórverksmiðjurnar er þessi verksmiðja að lognast út af. Það er alvarlegur hlutur og það er hörmuleg niðurstaða ef svo fer. Ég mun áfram fylgjast með þessu máli en ég óttast að því sé illa borgið í höndunum á núverandi ríkisstjórn.