Áburðarverksmiðjan hf.

Miðvikudaginn 22. október 1997, kl. 14:34:02 (762)

1997-10-22 14:34:02# 122. lþ. 14.3 fundur 79. mál: #A Áburðarverksmiðjan hf.# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[14:34]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Mér er eiginlega ekki alveg ljóst hvað hv. fyrirspyrjandi vill að gert verði í málinu enda er kannski ekki mitt að krefja hann um afstöðu til þess í sjálfu sér. En hann talar um að framtíð verksmiðjunnar sé enn þá fullkomlega óljós. Ég hef gert grein fyrir því sem ég legg til og hef lagt upp við stjórn fyrirtækisins og honum er auðvitað alveg jafnljóst og mér og fráfarandi forstjóra að við sjáum ekki til eilífðar í þessu efni. Við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér og við vitum líka að þessi verksmiðja er afar lítil í samanburði við þær verksmiðjur sem hún er að keppa við. Hún hefur ekki mikinn sveigjanleika til þess að keppa í verði við stóra framleiðendur sem gætu komið hér inn á markaðinn erlendis frá og það er auðvitað líka vitað að þó að bændur hafi sýnt verksmiðjunni áhuga og telji að hún hafi þjónað vel þá eru þeir líka viðkvæmir fyrir verðsamkeppni í þessu sambandi því þeir þurfa að leggja mikla áherslu á að rekstur þeirra sé sem hagkvæmastur og aðföng séu eins ódýr og kostur er.

Auðvitað verður reynt að selja fyrirtækið ef við teljum að það sé söluvara, því það er yfirlýst stefna þess landbrh. sem nú fer með mál verksmiðjunnar að það eigi að reyna að selja fyrirtækið og koma því í hendur einkaaðila sem gætu vonandi rekið fyrirtækið ekki síður og kannski betur en opinberir aðilar. Það er ekki nýtt í því efni, það liggur fyrir, þó svo reynslan hafi sýnt okkur að eins og fyrirtækið er nú þá fáum við ekki fyrir það á markaði það sem við teljum að sé þess virði.

Varðandi afstöðu núverandi framkvæmdastjóra þá verður hann að tala fyrir sig sjálfur. Ég get ekki og vil ekki gera honum upp skoðanir. Ég hef átt við hann viðræður og veit nokkuð um hver hans vilji er í þessu sambandi og leyfi mér að vitna til (Forseti hringir.) Morgunblaðsins aftur. Þetta er ein setning áður en ég lýk máli mínu, þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Vilji eigandans um áframhaldandi rekstur hér fer ekki saman við það sem ég teldi æskilegt að gera og ég tel því rétt að ég hverfi af vettvangi.``

Ég held því að það sé nokkuð ljóst að hann er þá ekki sammála því sem kemur fram í bréfi mínu til stjórnarinnar frá 11. september og að öðru leyti get ég ekki talað fyrir þann ágæta mann.