Réttur tannsmiða og sjóntækjafræðinga

Miðvikudaginn 22. október 1997, kl. 14:36:52 (763)

1997-10-22 14:36:52# 122. lþ. 14.5 fundur 105. mál: #A réttur tannsmiða og sjóntækjafræðinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[14:36]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Fyrir nokkrum árum, einum þrem, fjórum árum, var hér heilmikil umræða um réttindi tannsmiða og baráttu þeirra fyrir því að fá að vinna sjálfstætt og gera sína samninga við Tryggingastofnun ríkisins. Tannsmiðir leituðu þá til fyrrv. heilbrrh., Guðmundar Árna Stefánssonar, og óskuðu eftir því að þeir fengju réttindi í samræmi við það nám sem þeir hefðu stundað og mættu vinna í munnholi sjúklings og gera sjálfstæða samninga við Tryggingastofnun ríkisins.

Tryggingastofnun ríkisins gerði slíka samninga við tannsmíðameistara um smíði gervitanna sem Tannlæknafélag Íslands fékk lagt á lögbann sem staðfest var með héraðsdómi 1. júní 1993. En 1994 felldi hins vegar Hæstiréttur lögbannið úr gildi. Samkeppnisstofnun hefur nú nýverið, ekki fyrir löngu síðan, skilað áliti þess efnis að það brjóti í bága við samkeppnislög ef Tryggingastofnun ríkisins ekki geri samninga við tannsmiði.

Við höfum rætt þeirra mál og réttindi á þingi áður og m.a. var hér lögð fram fsp. á þinginu sem starfaði 1995--1996, 120. löggjafarþingi. Þá lagði hv. þm. Össur Skarphéðinsson fsp. fyrir hæstv. heilbrrh. þess efnis hvort það stæði fyrir dyrum að ráðherra mundi beita sér fyrir lagabreytingum til að taka af tvímæli um að tannsmiðir hafi rétt til að starfa sjálfstætt. Hæstv. ráðherra sagði þá að verið væri að skoða það mál og verið væri að vinna að heildarendurskoðun á réttindamálum heilbrigðisstétta og þar yrðu réttindamál stoðstétta eins og tannsmiða skoðuð og þær menntunarkröfur sem til þeirra yrðu gerðar. Þetta var sem sagt fyrir tveimur árum. Síðan þá hafa tannsmiðir haldið áfram baráttu sinni og fengið stuðning, m.a. frá Samtökum iðnaðarins sem telja þetta vera iðnaðarstétt sem eigi að starfa samkvæmt iðnaðarlögum nr. 42/1978. En engin svör eða úrbætur hafa hins vegar komið frá ráðuneytinu.

Það sama má segja um réttindi sjóntækjafræðinga sem fá ekki að vinna í samræmi við þau réttindi sem þeir hafa eftir nám sitt. Þeir hafa eins og tannsmiðir sótt eftir breytingum, þ.e. að hæstv. ráðherra leggi hér fyrir okkur breytingar sem tryggja réttindi þeirra í samræmi við nám.

Ég hef því, virðulegi forseti, lagt fram fsp. á þskj. 105 til hæstv. ráðherra: Eru fyrirhugaðar breytingar í réttindamálum þessara stétta?