Réttur tannsmiða og sjóntækjafræðinga

Miðvikudaginn 22. október 1997, kl. 14:40:23 (764)

1997-10-22 14:40:23# 122. lþ. 14.5 fundur 105. mál: #A réttur tannsmiða og sjóntækjafræðinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[14:40]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Fsp. hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur um lagabreytingar varðandi tannsmiði og sjóntækjafræðinga er hægt að svara í stuttu máli: Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um breytingar á starfsréttindum tannsmiða og sjóntækjafræðinga.

Varðandi sjóntækjafræðinga þá liggur fyrir að ekki nema lítill hluti íslenskra sjóntækjafræðinga hefur lært sjónmælingar. Ráðuneytinu er hins vegar kunnugt um að sjóntækjafræðingar stóðu í samráði við Nordisk Optikerråd fyrir námskeiði m.a. í sjónmælingum og tóku þeir sem luku námskeiðinu upp starfsheitið sjónfræðingar, að því loknu. Ráðuneytinu er ekki kunnugt um inntak námskeiðsins og kom ekki að framkvæmd þess á nokkurn hátt. Starfsheitið sjónfræðingur er ekki til varðandi íslenskar reglur en ráðuneytið mun í samráði við landlækni taka til skoðunar hvaða réttindi námskeið þetta getur veitt, verði beðið um það.

Varðandi tannsmiði, þá eru tannsmiðir ekki heilbrigðisstétt eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda og þarf því að breyta lögum ef svo á að verða. Eins og hv. þm. kom inn á er í vinnslu í ráðuneytinu frv. til laga um réttindi heilbrigðisstétta. Þar er um heildarlöggjöf að ræða og hún er nokkuð samkvæmt norrænni fyrirmynd. Frv. hefur verið í smíðum í hartnær tvö ár og ég vænti þess og stefni á að geta lagt það fyrir Alþingi, og þá verður endanlega tekin ákvörðun um réttindi heilbrigðisstétta almennt og er eðlilegt að slík heildarlöggjöf feli þá í sér ákvörðun um hvar þessar stéttir muni vistast og hvaða réttindi þær hafa. En frv. verður lagt fram á þessu þingi.