Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 22. október 1997, kl. 15:33:57 (772)

1997-10-22 15:33:57# 122. lþ. 15.9 fundur 36. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sjómannaafsláttur) frv., Flm. PHB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[15:33]

Flm. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, sem er á þskj. 36.

Frv. þetta var flutt á síðasta þingi en varð ekki útrætt.

Herra forseti. Sjómannaafslátturinn er brot á jafnræðisreglunni, þ.e. að allir borgarar landsins standi jafnir fyrir lögum. Ein stétt fólks greiðir ekki skatta eins og aðrar stéttir með sömu tekjur. Í frétt í Degi í gær var haft eftir Kristjáni Ragnarssyni, formanni Landssambands ísl. útvegsmanna, með leyfi forseta:

,,Menn gefa gjafir og þeir geta tekið þær aftur. Það er hins vegar ekki hægt að láta þriðja aðila borga fyrir sig gjafir sínar. Þannig að sjómannaafslátturinn er okkur algjörlega óviðkomandi. Hann er mál ríkisins og sjómanna.``

Í sömu frétt segir enn fremur, með leyfi forseta: ,,Helgi Laxdal, formaður Vélstjórafélags Íslands, segir að það sé í sjálfu sér í lagi þótt sjómannaafslátturinn verði afnuminn svo framarlega sem sjómönnum verði bætt það upp í launum.`` Enn fremur segir Guðjón A. Kristjánsson, formaður Farmanna- og fiskimannasambandsins að sjómenn muni berjast gegn afnámi sjómannaafsláttarins.

Herra forseti. Þegar afnema á forréttindi, þá berjast þeir sem forréttindanna hafa notið að sjálfsögðu gegn þeim ráðstöfunum. Það er ósköp eðlilegt. Þetta á við um annað frv. sem ég hef flutt um eignarskatt á lífeyrissjóði, sem hafa ekki greitt eignarskatt, eignarskatt á Öryrkjabandalagið sem ekki hefur greitt eignarskatt, á meðan allir aðrir verða að borga eignarskatt. Þetta átti við þegar fjármagnstekjuskatturinn var lagður á vexti. Þá börðust þeir sem höfðu notið skattfrelsis vaxta gegn því þó að verið væri að lækka verulega skatta á aðrar fjármagnstekjur sem eru nákvæmlega sama eðlis. Sama yrði uppi á borðinu ef ákveðið yrði að breyta skattkerfinu þannig að það næði til allra landsmanna en ekki einungis til þess þriðjungs landsmanna sem í dag borgar skatta. En það er svo hugmynd að láta skattinn verða flatan, 17% á allar tekjur.

Sama ætti við ef gerð yrði tilraun til þess að afnema skattfrelsi starfsmanna utanríkisþjónustunnar og starfsmanna alþjóðastofnana sem njóta skattfrelsis ekki bara í tekjuskatti, heldur í mörgum öðrum sköttum eins og virðisaukaskatti og öðrum neyslusköttum. Ofangreind viðbrögð sjómanna og útgerðarmanna eru því ósköp eðlileg í þessu ljósi.

Herra forseti. Verði frv. þetta að lögum verður að telja eðlilegt að kjarasamningar sjómanna og útgerðarmanna verði endurskoðaðir og þá má jafnvel líta svo á að með lögfestingu frv. séu kjarasamningar þessir lausir þar sem forsendum þeirra hafi verið breytt. Nauðsynlegt er því að aðilar þeirra kjarasamninga sem um ræðir taki efni þeirra til endurskoðunar út frá þessum breyttu forsendum. Vegna þess arna er lagt til í frv. að aðlögunartími verði mjög rýmilegur, þ.e. að sjómannaafslátturinn verði algjörlega óbreyttur út árið 1998, þ.e. allt næsta ár, síðan verði hann tveir þriðju af núverandi sjómannaafslætti árið 1999, einn þriðji árið 2000 og það er ekki fyrr en árið 2001 að hann verður algjörlega aflagður samkvæmt þessu frv. Það ætti að gefa þeim aðilum sem það varðar tíma til þess að ganga frá samningum sín á milli.

Herra forseti. Á 115. löggjafarþingi, 1990--1991, var flutt stjfrv. sem m.a. átti að takmarka sjómannaafsláttinn við þá daga sem sjómaðurinn er á sjó. Með því frv. fylgdi greinargerð sem ég ætla að rekja lítils háttar. Þar er mjög góð söguleg lýsing á tilurð sjómannaafsláttarins en upphaf hans má rekja allt til ársins 1954. Hann er sem sagt búinn að vera í gildi í 43 ár.

Þar kemur fram m.a. að það séu fjögur atriði sem sjómannaafsláttur hafi verið rökstuddur með. Það er kostnaður sjómanna vegna hlífðarfata umfram aðra launþega, í öðru lagi að þeir sjái sér sjálfir fyrir fæði, í þriðja lagi kostnaður vegna langrar fjarvistar frá heimili og í fjórða lagi var þetta hugsað sem sérstök launahækkun til sjómanna í tengslum við kjarasamninga. Þessi rök voru vafasöm í upphafi og þau hafa rýrnað í tímans rás.

Það er algengast í dag að vinnuveitandi beri kostnað af því ef starfið gerir kröfu til sérstaks hlífðarfatnaðar og um fæðiskostnaðinn gildir í grundvallaratriðum það sama fyrir utan að það má benda á að þetta er kostnaður sem fjöldi annarra launþega býr við og þarf að borga sjálfur. Rökin fyrir fjarveru frá heimili eru að því leyti brostin þar sem fjöldi aðila sem er ekki fjarri heimili sínu umfram annað fólk fær sjómannaafslátt þannig að skattlagningin hefur verið víkkuð út í áranna rás.

Á sínum tíma voru þessar ívilnanir í sambandi við kjarasamninga rökstuddar með tilvísun til þess að það var tímabundið ástand, þ.e. skortur á sjómönnum. Fólk fékkst ekki til að vinna á sjó. Þá voru rökin þau að það þyrfti að veita skattfrelsi til þess að menn væru tilbúnir til að vinna þessa vinnu. Þetta á alls ekki við í dag. Það er allt, allt önnur staða í dag heldur en var á þessum árum og má jafnvel segja að eftirspurn eftir plássum á sjó, alla vega sumum, er mjög mikil.

Í greinargerðinni frá 1990 kemur fram að það megi skoða sjómannaafsláttinn sem niðurgreiðslu á útgerðarkostnaði frekar en sem ívilnun til sjómanna þó að hann hafi óneitanlega áhrif á starfskjör þeirra. Það er ljóst að fjöldi fyrirtækja hér á landi mundi gjarnan vilja hafa skattafslátt fyrir starfsmenn sína. Ég nefni t.d. hugbúnaðarfyrirtæki. Þau vildu gjarnan að forritararnir nytu sjómannaafsláttar eða forritunarafsláttar. Það yrði miklu auðveldara að ráða fólk til starfa ef þannig væri í pottinn búið þannig að það má líta svo á að sjómannaafslátturinn sé í raun styrkur til fyrirtækisins sem ræður starfsmanninn.

Nú búum við enn sem komið er við of stóran flota og við erum að reyna að takmarka sóknina í auðlindina, sem eru fiskimiðin í kringum landið. Á sama tíma er ríkisvaldið að niðurgreiða þann rekstur sem að þessu stendur, þ.e. að örva menn til að ganga í auðlindina. Þetta er ákveðin mótsögn. Þetta kom fram í þessari greinargerð með frv. frá 1990.

Eitt af markmiðum skattalaga fyrir utan það að afla ríkissjóði tekna er tekjujöfnun og það má meira að segja segja að íslenska skattkerfið sé alveg sérstaklega mikið tekjujafnandi þar sem það gefur ekki ríkissjóði einum sér nema 5% af tekjum allra landsmanna. Sveitarfélögin fá 12%. Það virðist vera meginmarkmið íslenska skattkerfisins að jafna tekjur og þá er það mjög undarlegt að ein stétt manna njóti skattfrelsis, þ.e. þeirra tekjur séu ekki jafnaðar eins og annarra.

Nú njóta allir borgarar velferðarkerfisins óháð tekjum, þ.e. nokkurn veginn jafnt, má reikna með, alla vega í byrjun. En menn borga mjög mismunandi fyrir það. Þeir sem hafa háar tekjur borga miklu meira til velferðarkerfisins en þeir sem hafa lágar tekjur. En þetta á ekki við um sjómenn. Þeir geta haft umtalsverðar tekjur án þess að greiða af þeim háa skatta. Þannig greiðir fiskverkakona með 125 þús. kr. tekjur á mánuði sömu staðgreiðslu og sjómaður eða beitingamaður með 167 þús. kr. á mánuði eða 24 þús. kr. á mánuði. Sjómaður með 42 þús. kr. hærri laun en fiskverkakonan borgar þannig sömu skatta og hún. Á ári eru þetta 240 þús. kr. sem fiskverkakonan borgar meira í skatta eða sem svarar tvennum mánaðarlaunum hennar.

Á það hefur verið bent að sjómenn greiði skatta af fæðispeningum en þeir sem fara í viðskiptaferðir fái skattfrjálsa dagpeninga fyrir fæði og uppihaldi. Nú eru fæðispeningar sjómanna mjög háir. Sennilega er þetta dýrasta fæði á landinu þar sem matsveinninn er með hlut og oft með mjög há laun. En hér gætu sjómenn og útgerðarmenn að sjálfsögðu tekið upp dagpeningakerfi nákvæmlega eins og aðrar stéttir og það yrði mér að meinalausu vegna þess að ég vil að allir menn séu jafnir fyrir lögum.

Það er svo aftur önnur saga að það er orðið brýnt að taka á vandamáli með dagpeningana því að það er greinilegt að dagpeningakerfið er ákveðin skattasmuga. Menn hafa komið tekjum undan í dagpeningakerfinu og það er ljóst að það þarf að endurskoða reglur um dagpeninga og ég væri alveg til í það. En það er líka forréttindakerfi eins og við erum hér að tala um.

[15:45]

Herra forseti. 98% af þeim sem greiddu í Lífeyrissjóð sjómanna á árinu 1995 voru karlar þannig að það má segja að sjómannaafslátturinn sé forréttindi karla umfram konur og það merkilega er að þeir sem vinna í þeirri keðju að gera fiskinn að markaðsvöru, þ.e. fólkið í frystihúsunum, eru að meginhluta til konur og þær njóta ekki skattafsláttar og þær eru með miklu lægri laun en sjómenn þannig að sjómannaafslátturinn eða þetta brot á skattalögunum eykur launamun milli þessara tveggja hópa sem hvorir tveggja eru að vinna að því að búa til markaðsvöruna fisk.

Nýverið hefur kvótinn verið aukinn og það eru góðar horfur fram undan um að kvótinn muni verða aukinn og þá er einmitt lag að afnema sjómannaafsláttinn en hann hefur hækkað tekjur sjómanna um 7,1% að meðaltali.

Í töflu sem fylgir greinargerð með frv. kemur fram sem dæmi að venjulegur launþegi sem er með 200 þús. kr. á mánuði borgar 54.600 í skatt á meðan sjómaður með sömu tekjur borgar ekki nema 34.400 í skatt, þ.e. 20 þús. kr. minna. Í frv. er lagt til að þessi munur verði eyddur upp á þremur árum, þ.e. árið 1999 og árið 2000 þannig að sjómaðurinn muni borga sama skatt og venjulegur launþegi í ársbyrjun 2001.

Herra forseti. Launamunur er eflaust óvíða jafnmikill og hjá sjómönnum. Við heyrum oft sögur af sjómönnum sem eru með milljón fyrir túr o.s.frv. og skipstjórum sem eru með 2 millj. og það er gefin mjög röng mynd af raunverulegum tekjum sjómanna sem eru að meðaltali miklu lægri og sumir sjómenn eru ekkert með mjög há laun, alls ekki. Ég er alls ekki að halda því fram. Hins vegar eru þau fyrirtæki sem greiða hæst launin í landinu, þ.e. 20 þau efstu sem tróna á þeim lista eru útgerðarfyrirtæki vegna þess að sjómenn, þ.e. þeirra starfsmenn, eru með mjög há laun. Þarna eru mestu hátekjumenn þjóðarinnar og þeir ættu að sjá sóma sinn í því að taka þátt í byrðum velferðarkerfisins.

Það er ljóst að á bak við tekjur sjómanna er iðulega geysimikil vinna og miklar vökur. En það á við um aðrar stéttir þjóðfélagsins líka og á meðan skattkerfið er þannig að það er hugsað til tekjujöfnunar án tillits til þess sem veldur tekjumuninum, þ.e. menntunar, erfiðis, óhreininda, fjarvista o.s.frv. þá er óeðlilegt að ein stétt manna njóti forréttinda umfram aðrar. Ég hef hins vegar margoft bent á að það kynni að vera rétt að taka upp skattkerfi sem væri flatt þannig að fólk með tvöfalt hærri tekjur borgi tvöfalt hærri skatt en ekki meira en það. Sú hugmynd mundi eflaust hugnast sjómönnum mjög vel þannig að ég geri ráð fyrir að þeir tækju undir með mér með þá breytingu.

Herra forseti. Það sem er mikilvægast í þessu máli er að ekki sé um að ræða mismunun borgaranna fyrir skattalögum eða öðrum lögum. Mismunun á ekki að líða. Menn eiga að nota skattalögin til þess sem þau eru ætluð en ekki hafa skattalögin þannig að vissar stéttir borgi ekki skatta eða ekki sömu skatta og aðrir.

Að lokinni umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og efh.- og viðskn.