Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 22. október 1997, kl. 15:49:57 (773)

1997-10-22 15:49:57# 122. lþ. 15.9 fundur 36. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sjómannaafsláttur) frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[15:49]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég kem upp í ræðustól til að lýsa því yfir að ég er samþykk efni þessa frv. og ég vil þakka hv. þm. fyrir að bera það inn á Alþingi. Til þess þarf nú nokkurn kjark reyndar og ég vil þakka þingmanninum einnig fyrir prýðilega upplýsandi greinargerð sem rifjar málið mjög vel upp fyrir samkundunni. Það er athyglisvert að flestar þær upplýsingar sem þar koma fram eru teknar einmitt upp úr greinargerð sem fylgdi stjfrv. frá 115. löggjafarþingi. Það mun þá væntanlega hafa verið flutt af þáv. hæstv. fjmrh. Ólafi Ragnari Grímssyni. Ég vona að ég fari rétt með. Altjent var það þáv. fjmrh., en ég sat ekki á þingi þá og heldur ekki hv. 1. flm.

Það fór þá eins og oftar þegar þessi mál höfðu verið rædd, ef ég man rétt, það upphófust mikil mótmæli og aðgerðir gegn því að þetta mál væri afgreitt á þennan máta. Þetta er, eins og hv. þm. hefur gert grein fyrir, ákveðin mismunun sem særir réttlætiskennd margra. Það er auðvitað ýmsar slíkar mismunanir að finna í okkar lögum og ekki síst í skattalögunum. Sumar eru réttlættar á ákveðinn hátt sem er hægt að fallast á. En þessi mismunun minnir talsvert á ákveðinn afslátt sem giftar konur höfðu um árabil. Þær þurftu ekki að borga skatt nema af helmingi sinna tekna sem þær öfluðu sér með vinnu utan heimilisins og það var réttlætt með því sem svo sannarlega er rétt, að það hefur ákveðin útgjöld í för með sér fyrir heimilið, svo og, trúi ég, að þarna hafi verið um aðgerð að ræða sem átti að gera konum frekar kleift að vinna utan heimilis vegna þess að það var þörf fyrir þeirra hendur við vinnu utan heimilis. Það var því verið að laða þær til vinnu út af heimilunum. Ýmsir hafa talið að það hafi verið keppikefli kvenréttindakvenna, en svo er reyndar ekki. Það var þjóðfélagið sem krafðist vinnu kvennanna og hafði t.d. þessa aðgerð til þess. Og það var fyrst og fremst fyrir áeggjan kvenréttindakvenna sem þessi afsláttur var afnuminn. Hann var tekinn af á 8. áratugnum ef ég man rétt og það var einmitt með tilvísan til kvenfrelsissjónarmiða og með tilvísan til þess að þarna væri um mismunun að ræða og þær vildu vera fullgildir skattþegnar að öllu leyti og hafa sömu skyldur og sama rétt.

Ég þarf út af fyrir sig ekki að bæta miklu við það sem hv. 1. flm. skýrði frá í sinni ... (Gripið fram í.) Hv. flm., hann er einn og það er nú eitt af því sem er kannski merkilegt við þetta frv., að hann skuli standa aleinn að því. Ég hygg að það séu ýmsir sem eru sömu skoðunar og hann en vilja kannski ekki láta það koma skýrt fram vegna þess að þessar skoðanir eru gjarnan túlkaðar sem árás á sjómannastéttina sem er alrangt að mínu mati. Ég hygg að menn gerðu rétt í því að skoða t.d. þær ástæður sem voru lagðar til grundvallar því að afnema afsláttinn sem giftar konur höfðu um árabil. Það má alveg rökstyðja afnám sjómannaafsláttarins með sömu eða svipuðum rökum.

Það kemur margt merkilegt fram í þessari greinargerð sem ég vona að hv. þingmenn kynni sér vel. Hann er mjög sláandi þessi samanburður sem gerður er þar á launum og skattgreiðslum þeirra sem vinna í sjávarútvegi eftir því hvort þeir kallast sjómenn eða t.d. fiskverkakonur. Ég tek undir það sem hér kemur fram um að það má segja að sjómannaafslátturinn sé forréttindi karla og vinni gegn launajafnrétti karla og kvenna, þar sem yfirgnæfandi fjöldi starfsfólks í fiskvinnslunni eru konur. Það er það mikill munur á launum sjómanna og fiskvinnslufólks þó að að sumu leyti sé um sömu störf að ræða, þegar komið er t.d. út á frystitogarana, og sjómannaafslátturinn eykur enn frekar á þann mun. Ég tek undir þær röksemdir sem komu fram í greinargerðinni, en ég vil taka sérstaklega fram að auðvitað verður að taka tillit til þess að sjómannaafslátturinn hefur verið lengi í gildi svo sem kemur fram í greinargerðinni. Og sjómenn sem hafa notið þessa afsláttar í allan þennan tíma munu að sjálfsögðu verja sína hagsmuni og hafa sannarlega ástæðu til þess og útgerðarmenn sjálfsagt ekki síður því að það er rétt að þetta eru í rauninni niðurgreiðslur á kostnaði útgerðarmanna. Það væri mjög illa farið ef niðurfelling sjómannaafsláttarins bitnaði á sjómönnum og þess vegna er mjög mikilvægt að ekki verði kannski um skyndilega niðurfellingu að ræða heldur yrði tekið á þessu sameiginlega, þ.e. ríkisvaldið sem hefur forræði í þessum skattamálum og útgerðarmenn og sjómenn, það verði sem sagt ákveðinn aðlögunartími sem kæmi þannig út að kjör sjómanna yrðu ekki skert þegar afslátturinn væri felldur niður.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta, herra forseti, en ég vona að þetta verði rætt og fjallað um það í nefndinni ítarlega og leitað allra raka í þessu máli.