Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 22. október 1997, kl. 15:59:52 (775)

1997-10-22 15:59:52# 122. lþ. 15.9 fundur 36. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sjómannaafsláttur) frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[15:59]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru dæmigerð viðbrögð þegar þessi mál koma til umræðu. Ég vil bara ítreka það sem ég sagði áðan, að mér finnst mjög mikilvægt að þetta verði ekki til þess að skerða kjör íslenskra sjómanna. Þess vegna talaði ég um nauðsynlegan aðlögunartíma og að allir aðilar málsins kæmu að þessu og framkvæmdu þetta þannig að tekjuskerðing yrði ekki niðurstaðan. Ég vil aftur minna á að þetta er ekki í fyrsta skipti sem tekið hefur verið sérlega á einhverjum þætti í skattkerfinu. Ég minni á það sem ég sagði áðan um sérstakan skattafslátt fyrir giftar konur sem unnu utan heimilis. Ég minnist þess ekki að það hafi orðið mjög hávær mótmæli við því eða alvarlegar áhyggjur af því að giftar konur sem ynnu utan heimilis yrðu fyrir tekjuskerðingu. En það var kannski vegna þess að það var ekki síst að frumkvæði kvenréttindakvenna að sá afsláttur var afnuminn af því að þær töldu að þetta væri mismunun sem hefði óréttlæti í för með sér. Þess vegna styð ég þetta mál. Þetta er mismunun. Þetta er óréttlæti og það á ekki að líðast. Ég get hins vegar tekið undir það sem hv. þm. sagði, að brýn nauðsyn er á að skattkerfið verði endurskoðað í heild og reynt að ganga svo frá að það sé sem réttlátast og sanngjarnast og dreifi byrðunum réttlátar.