Rafræn eignarskráning verðbréfa

Fimmtudaginn 23. október 1997, kl. 10:38:35 (776)

1997-10-23 10:38:35# 122. lþ. 16.2 fundur 149. mál: #A rafræn eignarskráning verðbréfa# frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[10:38]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga á þskj. 149, sem er 149. mál þingsins, um rafræna eignarskráningu verðbréfa. Frv. þetta er lagt fram aftur á þessu þingi með fáeinum breytingum en málið varð ekki útrætt á síðasta þingi.

Ég tel rétt í upphafi að gera grein í örstuttu máli fyrir hlutverki verðbréfamiðstöðvar. Í verðbréfamiðstöð fer fram stofnun verðbréfa og skráning réttinda yfir þeim, varsla þeirra á rafrænu formi, uppgjör viðskipta á milli þeirra stofnana sem hafa milligöngu um viðskipti og að síðustu útgreiðsla arðs af hlutabréfum og afborganir af skuldabréfum fyrir útgefnum verðbréfum.

Skráning í verðbréfamiðstöð er eina lögformlega skráningin á eignarhaldi þeirra verðbréfa sem þar eru skráð og kemur þannig í stað verðbréfanna sjálfra.

Lagafrv. um rafræna skráningu verðbréfa var samið með hliðsjón af kerfislýsingu og lögum um þetta efni í nágrannalöndunum. Leitað var helst í smiðju þeirra nágrannalanda okkar sem hafa lengsta reynslu af starfsemi verðbréfamiðstöðva, sérstaklega Danmerkur. Lög um rafræna skráningu verðbréfa voru sett í Danmörku árið 1981 og á síðasta ári var öllum ákvæðum er varða verðbréfaviðskipti þar safnað saman í einn lagabálk. Í Noregi voru sett lög um verðbréfamiðstöðvar árið 1985 og í Svíþjóð árið 1989.

Í frv. er ekki gert ráð fyrir að veittur sé einkaréttur á starfseminni heldur er gerð tillaga um að sett verði almenn lög um rafræna skráningu verðbréfa. Skilyrði til útgáfu leyfisins eru að starfsemin sé rekin af hlutafélagi, hlutafé sé að lágmarki 65 millj. kr. og að fyrir liggi fullnægjandi rekstraráætlun, svo og öryggis- og skipulagslýsing. Enn fremur þarf verðbréfamiðstöð að hlíta ákvæðum um ábyrgðarsjóð. Viðskrh. veitir verðbréfamiðstöðvum starfsleyfi.

Einungis reikningsstofnanir geta stundað eignarskráningu í verðbréfamiðstöðvum. Reikningsstofnanir eru Seðlabanki Íslands, viðskiptabankar og sparisjóðir, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu sem hafa heimildir til fjárvörslu og lánastofnanir aðrar en viðskiptabankar og sparisjóðir. Reikningsstofnanir verða að gera aðildarsamning við verðbréfamiðstöð, þar sem nánar er kveðið á um réttindi og skyldur vegna aðildar að eignarskráningu í verðbréfamiðstöð.

Gert er ráð fyrir að bankaeftirlit Seðlabankans hafi eftirlit með starfsemi verðbréfamiðstöðva og geti svipt aðila rétti til eignarskráningar í verðbréfamiðstöð ef viðkomandi hefur brotið ítrekað gegn ákvæðum laganna eða ef háttsemi viðkomandi er ekki að öllu leyti eðlileg, traust eða heilbrigð. Þá er gert ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð um starfsemina, þar sem m.a. sé heimilt að ákveða nánari reglur um grundvöll og framkvæmd eignarskráningar.

Í frv. er gert ráð fyrir að þagnarskylda hvíli á verðbréfamiðstöð um þá starfsemi sem þar fer fram.

Í frv. er kveðið á um skaðabótaskyldu verðbréfamiðstöðva. Verðbréfamiðstöð er skaðabótaskyld fyrir tjóni sem rakið verður til mistaka af hennar hálfu í tengslum við tilkynningar um skráningu, breytingar eða afmáningu réttinda á reikningi miðstöðvarinnar, þrátt fyrir að orsök tjónsins verði rakin til óhappaatvika. Verðbréfamiðstöð er þó hvorki skaðabótaskyld vegna glataðra viðskiptatækifæra hlutaðeigandi aðila né vegna óviðráðanlegra ytri atvika.

Í frv. er gert ráð fyrir að komið verði á fót ábyrgðarsjóði sem nemi aldrei lægri fjárhæð en 650 millj. kr. Samanlagðar skaðabætur fyrir bótaskylt tjón sem rakið er til sömu mistaka geta ekki numið hærri fjárhæð en sem nemur helmingi ábyrgðarsjóðs, eða 325 millj. kr. Ekki eru sett ákvæði í frumvarpsdrögin um fyrirkomulag ábyrgðarsjóðsins en aðilum gefinn kostur á að leysa það mál á sem hagkvæmastan hátt án þess að vikið sé frá þeirri lágmarksfjárhæð sem gerð er krafa um. Þannig getur ábyrgðarsjóðurinn verið í formi ábyrgðaryfirlýsinga eigenda verðbréfamiðstöðva eða í öðru formi, t.d. starfsábyrgðartrygginga eða að stofnaður verði sérstakur sjóður.

Viðskrn. hefur unnið að þessu máli með fjmrn., Seðlabanka Íslands, Verðbréfaþingi Íslands, Húsnæðisstofnun, viðskiptabönkum, sparisjóðum, verðbréfafyrirtækjum og lífeyrissjóðum. Í júní sl. var stofnað undirbúningsfélag Verðbréfaskráningar Íslands hf. Undirbúningsfélagið er að 4/7 í eigu viðskiptabanka, sparisjóða, verðbréfafyrirtækja og annarra lánastofnana en ríkissjóður, lífeyrissjóðir og hlutafélög skráð á Verðbréfaþingi Íslands eiga 1/7 hver. Fjármálaráðherra mun fara með hlut ríkisins.

Undirbúningsfélagið er móta starf sitt um þessar mundir. Framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn og er nú unnið að endurskoðun hugbúnaðarlýsingar áður en hafist verður handa við gerð hugbúnaðar. Vera kann að hentugt þyki að breyta þeirri hugbúnaðarlýsingu sem fram kemur í grg. með frv. í nokkrum atriðum. Til dæmis hefur verið rætt um að í stað þess að netta greiðslur á milli reikningsstofnana í lok dags, eins og gert er ráð fyrir í hugbúnaðarlýsingunni, verði greiðslur færðar á milli reikningsstofnana jafnóðum.

Herra forseti. Mál þetta hefur áður verið lagt hér fram og á því langan aðdraganda. Margar nefndir sérfræðinga á verðbréfamarkaði hafa unnið að málinu, kynnisferðir verið farnar í erlendar verðbréfamiðstöðvar og hagkvæmnisathuganir og kerfislýsingar unnar. Nú hillir loks undir að þetta framfaraspor á íslenskum verðbréfamarkaði verði stigið. Rafræn skráning eignarhalds á verðbréfum er forsenda fyrir því að íslenskur verðbréfamarkaður sé samkeppnisfær og geti tekið þátt í hinni hröðu uppbyggingu alþjóðlegs markaðar með verðbréf. Jafnframt þykir einsýnt að tilkoma verðbréfamiðstöðvar muni spara ríkissjóði og öðrum aðilum á verðbréfamarkaði stórfé.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu óska ég þess að frv. verði vísað til efh.- og viðskn.