Hollustuhættir

Fimmtudaginn 23. október 1997, kl. 11:14:00 (779)

1997-10-23 11:14:00# 122. lþ. 16.3 fundur 194. mál: #A hollustuhættir# (heildarlög) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[11:14]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þetta frv. er viðamikið og tæplega hægt að ætlast til þess að það sé rætt nema mjög yfirborðslega við umræðuna af því að það er svo stutt síðan því var dreift. Hæstv. umhvrh. kom að máli við mig sem formann þingflokks míns í gær og fór þess á leit að málið gæti komið fyrir með venjulegum hætti, þó með þetta stuttum fyrirvara. Við ákváðum að fallast á það vegna þess að auðvitað eru rök fyrir því að nefndin fái að fara yfir málið dálítið rækilega en ég endurtek að hún verður að fara rækilega yfir málið. Það er mikið mál á ferðinni og mér finnst að í greinargerð frv. og í ræðu hæstv. ráðherra sé gert mjög mikið úr því að þetta séu meira og minna tæknilegar lagfæringar en það eru mjög róttækar tæknilegar lagfæringar. Það er verið að breyta í mjög stórum stíl þeirri löggjöf sem hefur gilt að því er varðar hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit frá 1980 sem byggðist á gömlu löggjöfinni frá 1970 að öðru leyti en því að umdæmunum var fækkað mjög verulega í lögunum sem sett voru 1980. Hér er gerð enn tillaga um að fækka umdæmunum niður í 10 þannig að kallað er á gríðarlega vandaða yfirferð af hálfu hv. umhvn. Fyrir utan þetta tekur svo frv. á hinum viðkvæmu pólitísku deilumálum sem hafa verið uppi í kringum Hollustuverndina á undanförnum árum, sérstaklega að því er varðar úrskurðarnefndirnar og meðferð mála hjá úrskurðarnefndinni og valdsvið úrskurðarnefndarinnar andspænis valdsviði ráðherrans. Það hefur verið geysilega umdeilt mál og ég kvaddi mér ekki síst hljóðs til þess að halda því til haga sem ég ræddi við ráðherrann í gær að við áskiljum okkur rétt til þess að fá sérstaka umræðu í þinginu um síðustu úrskurði sem fallið hafa á þessu sviði, mengunarvarna- og hollustueftirlit og starfsleyfamál sem komu fram í fjölmiðlum fyrir nokkru að frumkvæði hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar sem er nú fjarverandi og ég er að nota tækifærið hér til þess að áskilja honum rétt til þess þegar hann kemur hér til starfa aftur til umræðna um þessi mál og ég skildi hæstv. ráðherra svo í gær þegar við töluðum um málin að hann féllist á það fyrir sitt leyti.

Herra forseti. Mikið er sett af lögum í þessari stofnun og þau standast yfirleitt lítt tímans tönn, verr og verr. Það er alltaf verið að breyta lögunum, alltaf er verið að skipta um lög. Staðreyndin er hins vegar sú að þau lög sem verið er að breyta hafa staðið sig alveg ótrúlega vel, lögin frá 1980, og ég vek athygli á því að um þau náðist mjög víðtæk sátt á Alþingi. Ég held að ég muni það rétt að það hafi verið aðallega einn þingmaður sem af einhverjum ástæðum lagðist gegn lagafrv. árið 1980--1981. Það var hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson. Að öðru leyti náðist um málið mjög víðtæk sátt þó að í frv. eins og það var þá fælist mjög róttæk kerfisbreyting er verið var að breyta heilbrigðiseftirlitinu í víðtækt hollustueftirlit. Þá var hugsunin sú að hvers konar hollustueftirlit yrði á vegum þessarar einu stofnunar. Þannig var við það miðað að þar væru geislavarnir og þar væru fleiri slíkar stofnanir og ég man ekki betur en í bráðabirgðaákvæði frv. 1980 hafi t.d. verið gert ráð fyrir því að áfengisvarnir yrðu fluttar undir þessa stofnun líka sem hluti af hinu almenna hollustueftirliti í landinu, áfengisvarnir og tóbaksvarnir. Ég segi fyrir mig að ég sakna þess dálítið úr hugsuninni um þessi mál að menn skuli sjóða þau niður með þeim hætti sem hér er gert í staðinn fyrir að láta þau ná yfir allt sviðið, þá eru menn að ýta undir það að til verði stofnun undir svo að segja hvert einasta eiturefni og hvern einasta heilbrigðisvanda í staðinn fyrir að reyna að horfa á þetta samþætt eins og meiningin var með lögunum sem sett voru 1980 en hlutu númerið 50/1981.

Ég vek athygli á þessu, herra forseti, og ég vil inna eftir því og nefna það, ekki síst fyrir þá ágætu þingmenn úr hv. iðnn. sem heiðra okkur með nærveru sinni, sem ég hygg að sé svo sem einn eða tveir í salnum, að hugað verði að því hvort verksvið Hollustuverndarinnar á að vera jafntakmarkað og gert er ráð fyrir að þessu leytinu til.

Það er óskapleg veiki í öllum forstöðumönnum stofnana hjá ríkinu, sérstaklega undirstofnana. Þeir verða að vera sjálfstæð stofnun og búa til lög í kringum sjálfa sig. Það er óskapleg ásókn í það og þeir vilja heita forstjórar í sinni stofnun með sín lög og sínar reglur og beint samband við ráðherrann sinn og ekki hafa neinn millilið af neinu tagi í þeim efnum. Það er alltaf látið undan þessum í kerfinu og síðan er endalaust verið að unga út stofnunum. Það eru a.m.k. ein eða tvær stofnanir á hverju þingi sem eru búnar til af því að þessir embættismenn vilja búa til stofnun í kringum sjálfa sig. Nú er t.d. á þessu þingi meiningin að búa til örnefnastofnun. Kannski verður á næsta þingi búin til nafnorðastofnun Íslands og þannig koll af kolli. Eins var það með geislavarnir. Af hverju máttu þær ekki vera undir Hollustuverndinni? Bara af því að menn fengu allt í einu þá hugljómun að þær yrðu að vera sjálfstæð stofnun með sérstökum lögum og sérstökum forstjóra og allt það.

Ég sakna þeirrar almennu hugsunar í þessu frv. sem var í upphaflegu lögunum þegar þau voru sett 1980.

Í þriðja lagi vek ég athygli á svæðisskiptingunni sem er í 11. gr. frv., mér finnst það ágæt ábending um svæðisskiptingu en ég spyr: Er hún ekki óþarflega afgerandi vegna þess að gert er ráð fyrir því að svæðisskiptingin sé eftir kjördæmum? Nú spái ég því án þess að ég viti nokkurn hlut um það að kannski verði ekki mjög margir áratugir enn sem núverandi kjördæmaskipting stendur. Þess vegna finnst mér umhugsunarefni hvort það á að vera að búa til svæðisafmarkanir á grundvelli kjördæmaafmarkana eins og er núna í stjórnarskránni, sérstaklega þegar þess er gætt að mörkin á milli kjördæma eru að breytast. Við sjáum að Kjalarnes verður hluti af Reykjavík eða Reykjavík af Kjalarnesi eftir því hvernig menn vilja orða það. Ef ég man rétt er talað um að Flatey, sem er núna hluti af Vestfjörðum, verði hluti af Stykkishólmi og þar með af Vesturlandskjördæmi, að Reykhólahreppur, sem er hin gamla Austur-Barðastrandarsýsla, verði í stjórnsýslulegri samvinnu við Vesturland, að Bæjarhreppur í Strandasýslu verði þannig í stjórnsýslusamvinnu við Norðurland vestra og þannig koll af kolli. Allt er þetta fljótandi. Ég tel alveg sjálfsagt að fækka þessum nefndum og mér finnst spurning hvort á ekki að hafa orðalagið í síðari hluta 5. gr. opnara en hér er gert ráð fyrir að því er varðar möguleikana á því að sveitarstjórnir óski eftir því að tilheyra öðru umdæmi, þá verði fallist á það vegna þess að yfirleitt er þetta af praktískum ástæðum, samgönguástæðum eins og í tilfelli Reykhólahrepps og eins Bæjarhrepps í Strandasýslu sem er mjög erfitt fyrir okkur að líta á sem hluta af venjulegu stjórnsýsluumdæmi Vestfjarða eins og það hefur verið að þróast samgöngulega.

Í fjórða lagi ætlaði ég síðan, herra forseti, að nefna breytinguna á úrskurðarvaldinu sem fram kemur í 31. og 32. gr. frv. Þar er um að ræða gríðarlega mikla breytingu og henni er lýst þannig í frumvarpsgreinargerðinni á bls. 16, með leyfi forseta:

,,Lögð er til í 2. mgr. 31. gr. sú breyting á úrskurðarnefnd sem starfar samkvæmt lögunum að í henni skuli eiga sæti þrír lögfræðingar sem uppfylli starfgengisskilyrði héraðsdómara. Jafnframt er lagt til í 3. mgr. að úrskurðir nefndarinnar séu fullnaðarúrskurðir innan stjórnsýslunnar. Lagt er til að Hollustuvernd ríkisins verði ekki úrskurðaraðili eins og gildandi lög gera ráð fyrir, en samkvæmt þeim skal vísa málum til stjórnar stofnunarinnar áður en þau fara til úrskurðarnefndar.`` Síðan segir í tölul. 27, með leyfi forseta, á bls. 16:

,,Til þess að taka af allan vafa um að úrskurðarnefndinni sé ekki ætlað að úrskurða í málum sem ráðherra afgreiðir er sérstaklega tekið fram í 2. málsl. 1. mgr. 31. gr. um hvaða mál sé að ræða.``

Í 2. málsl. 1. mgr. 31. gr. er það takmarkað mjög verulega sem úrskurðarnefndinni er ætlað að fjalla um vegna þess að undan henni eru teknar allar ákvarðanir ráðherra. Það er svo einfalt. Úrskurðarnefndin yrði með þessum hugmyndum algerlega svipt því að fjalla um þau mál þar sem ráðherra hefur sérstakt úrskurðarvald skv. 32. gr. og hún hefði engin önnur mál en þau sem eru þar fyrir utan.

Ég segi eins og er, herra forseti, ég verð að viðurkenna að ég treysti mér ekki til þess að kveða upp dóm um þetta fyrirkomulag á þessu stigi. Ég hef ekki haft aðstöðu til þess að lesa bakgögn málsins eða ræða við fólk út af því. Hins vegar finnst mér mjög nauðsynlegt að hv. umhvn. fari einmitt mjög rækilega yfir þetta vegna þess að það hefur verið mjög umdeilt mál hvernig umhvrh. og umhvrn. hefur haldið á málinu. Ég vil áskilja okkur allan rétt til þess að halda fram þeim sjónarmiðum sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur gert í þessum málum, þ.e. þeim sjónarmiðum að réttur almennings til að gera athugasemdir við starfsleyfi eða annað þess háttar sé algerlega ótvíræður og hvergi fyrir borð borinn.

Ég hefði viljað fara fram á við hæstv. ráðherra og hv. umhvn. að fjallað yrði um málið sérstaklega því að þetta er úrslitamál. Staðreyndin er sú að þessi starfsleyfamál eru úrslitamál um alla tilveru okkar að verða meira og minna. Þegar gömlu lögin voru sett og fyrstu reglugerðirnar um mengunarvarnir voru settar upp úr 1970 á grundvelli laganna um eiturefni og hættuleg efni, afskaplega frumstæð lagasmíð, var það þannig að það voru mjög fáir sem töldu að þær ákvarðanir skiptu mjög miklu máli. Fyrstu mengunarvarnareglugerðirnar voru ekki settar t.d. í Straumsvík fyrr en eftir 1970 þó að fyrirtækið tæki til starfa 1966. Það var svo ótrúlegt að engin löggjöf var til fyrr en mönnum tókst að krækja reglugerð inn á lög um eiturefni og hættuleg efni.

Nú er heimurinn allur annar. Nú snýst öll umræða í landinu og í heiminum á næstu árum um umhverfismál og hún gerir það ekki vegna þess að við af einhverri sérvisku viljum anda að okkur hreinu lofti, heldur er það vegna þess að það liggur fyrir að ef við ekki gætum okkar í þessum efnum, munu lífskjör í heiminum versna mjög veurlega strax upp úr næstu aldamótum, m.a. vegna vaxandi hlýnunar andrúmsloftsins og fleiri ástæðum. Þess vegna er svo gríðarlega mikilvægt að löggjöf í þessum málum sé vönduð, traust og örugg og almenningur geti treyst því að faglega sé farið með kröfur hans, óskir og hugmyndir en menn láti ekki pólitíska dynti af neinu tagi ráða ákvörðunum sínum. Það er háskalegt til þess að vita ef við lentum í því við þessar aðstæður að menn létu iðnaðarhagsmuni bera framtíðarhagsmuni umhverfisins ofurliði og þess vegna verður að vera um að ræða vandaða og trausta stofnun þar sem almenningur getur síðan komið á framfæri klögumálum mínum eftir því sem ástæða er til.

Síðan vek ég aðeins athygli á því, herra forseti, undir það síðasta hjá mér að í 2. gr. segir að lögin taki til alls sem er um að ræða í þessu landi, efnahagslögsögunnar og farkosta sem ferðast undir íslenskum fána. Það vekur athygli á því að það sem menn kjósa að praktísera undir öðrum fánum, hentifánum, héðan og þaðan eins og m.a. er þekkt af skipum sem eru gerð út af Íslendingum eru alveg undanþegin þessum lögum ef þau eru sett upp með þessum hætti. Nú er ég ekki að segja að hægt sé að hafa þetta mikið öðruvísi en það er samt mikið umhugsunarefni að við erum kannski með tugi, hundruð íslenskra sjómanna á farkostum sem eru á hentifánum sem lúta þar með engum þeim reglum sem að öðru leyti er verið að setja þannig að útgerðarmenn og eigendur farskipa og fiskiskipa geti af hentiástæðum losað sig við allar þær kvaðir sem er um að ræða með því að setja skipið sitt undir annan fána. Við getum ímyndað okkur að við hefðum þetta svona hér í landinu, að það væri þannig að menn fengju heimild til þess að búa til utanlögsögufyrirtæki sem yrðu stofnuð undir einhverjum öðrum fána og sjá þá allir hvað það væri fjarstætt. En þetta er svona með skipin og það er dálítið umhugsunarvert að við skulum vera í þeirri stöðu sem siglinga- og fiskveiðiþjóð að við ráðum við ekkert við það. Menn geta bara smellt upp einhverjum allt öðrum fána á skipið hjá sér og þar með eru þeir lausir við að fylgja þeim reglum sem verið er að setja um hollustuhætti, um öryggi á skipunum og heilbrigðishætti yfirleitt.

Að lokum vek ég athygli á þessu tvennu sem mér finnst mikilvægast. Það er það að annars vegar er um að ræða róttæka stjórnkerfisbreytingu. Hins vegar er um að ræða breytingu á meðferð úrskurðarvalds. Það eru aðalmálin, það eru tvær meginstoðir frv. Ég hugsa að ráðherrann leggi mjög mikla áherslu á málið að því er varðar úrskurðarvaldið og meðferð þeirra mála, þar fáum við fljóta afgreiðslu, þá ætlar hann að taka hitt með í leiðinni. Ég held að ekki sé hægt fyrir þingið að hespa svona mál í gegn nema gefinn sé mánuður fyrir umhvn. og hún liggi yfir þessu í mánuð og hlé verði á þingstörfum að öðru leyti á meðan. Málið er þannig vaxið að ekki er nokkur hemja að hespa það af þannig að ég hvet til þess að menn vandi sig við meðferð málsins og endurtek athugasemdir mínar um leið og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguræðuna og þakka líka fyrir ágæta greinargerð umhvrn. um málið.