Hollustuhættir

Fimmtudaginn 23. október 1997, kl. 12:18:05 (787)

1997-10-23 12:18:05# 122. lþ. 16.3 fundur 194. mál: #A hollustuhættir# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[12:18]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki miklu við að bæta. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að mér finnst sjálfsagt að nefndin skoði hvort hægt er að breyta samsetningu þessarar nefndar. Ég held að það væri nú samt óskynsamlegt, eins og kom fram í máli, ég held hv. 8. þm. Reykv., að fella út fulltrúa atvinnulífsins úr nefndinni eða þessum samráðshópi, hollustuháttaráði, heldur skoða þá hvort ráðið mætti ekki vera sjö manna eins og fimm manna en það læt ég nefndinni eftir að skoða og vona ég að eiga við hana samráð um það.

Með fulltrúa frá öðrum stofnunum þá eru örugglega fjölmörg dæmi um að slíkt sé til og það er ekki eitthvað sem endilega þarf að varast í þessu tilviki og má minna á að hér er um nokkurs konar samráðsnefnd að ræða en ekki stjórn stofnunarinnar, þannig að þá er það ekki spurning um að draga saman sjónarmið frekar en að vera beinlínis stjórnvald í þeim skilningi heldur samráðshópur. Ég hef út af fyrir sig ekki frekari athugasemdir við það og læt nefndinni eftir að skoða það mál frekar og vænti hins besta samstarfs við hana um framgang málsins.