Hlutafélög

Fimmtudaginn 23. október 1997, kl. 12:25:08 (789)

1997-10-23 12:25:08# 122. lþ. 16.4 fundur 147. mál: #A hlutafélög# (EES-reglur) frv., 148. mál: #A einkahlutafélög# (EES-reglur) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[12:25]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þær breytingar sem verið er leggja til á löggjöfinni um hlutafélög og einkahlutafélög teljast nú kannski ekki til stórtíðinda. Það er þó ein breyting sem þar er á ferðinni og varðar hina rafrænu skráningu bréfa sem er allrar athygli verð og ástæða til að gefa gaum að. Það er búið að ræða heilmikið um það á undanförnum missirum að koma því máli fram. Efh.- og viðskn. hefur farið yfir það mál og átt fundi með þeim er málið varðar. Loksins er frv. komið inn í þingið sem vonandi er í brúklegu og afgreiðsluhæfu formi eftir að yfir það hefur verið farið þannig að það framtíðarfyrirkomulag nái fram að ganga að hægt sé að láta þau bréf ganga manna á milli án þess að eyða skógum heimsins í hvert einasta skipti eða standa í öllum þeim handvirku áritunum sem núverandi fyrirkomulagi fylgja. Ég hef svo sem ekkert nema gott um það að segja.

Að öðru leyti eru þessi frv. angi af þeirri stöðu sem komin er upp í okkar lagasetningu og rétti, að við tökum við fyrirmælunum að verulegu leyti að utan. Það gerist nú æ algengara að við þurfum að gera breytingar á löggjöf okkar vegna þess að breytingar hafa verið gerðar á hinum evrópska rétti sem við höfum tekið upp eða að athugasemdir hafa verið gerðar við það hvernig við höfum búið um einhver einstök ákvæði hans í okkar löggjöf eða þá við höfum alls ekki gert það enn þá.

Herra forseti. Í tengslum við þetta mál núna hef ég verið að velta því fyrir mér hvort ekki hefði mátt reyna að finna einfaldara form á þessum samskiptum þó ekki væri nema vegna þess hvað þetta er hundleiðinlegt, að vera endalaust að taka upp íslensku löggjöfina og gera á henni breytingar sem við sjáum enga ástæðu til og enginn hefur minnst á eða haft frumkvæði að hér heima heldur eingöngu vegna þess að skrifræðið í Brussel verður að hafa sinn gang. Fyrir utan það að þetta er nú svona og svona þegar það kemur hingað inn hvernig að þessu hefur verið unnið. Oftast er um mjög hráar þýðingar úr erlendum málum að ræða, á mismunandi fallegri íslensku. Ég gæti t.d. skemmt mér við að lesa upp úr 3. og 4. gr. þessa frv. á þskj. 147 og spurt síðan hæstv. forseta eða aðra góða menn að því, sem hafa góðan smekk fyrir íslensku máli, hvort þeim þyki þetta fallegt. En það er kannski ekki ástæða til þess. Ég vísa mönnum á að líta yfir það hvort þeim finnist þetta fallegur texti þar sem verið er að tala um ,,sérstök vandkvæði er tengjast ákvörðuninni`` og rugla með aðferð og aðferðir í eintölu og fleirtölu fram og til baka sem er alls ekki samkvæmt íslenskum málvenjum heldur greinilega um hráar þýðingar að ræða. Nei, en spurningin væri sú, herra forseti, og ég varpa því fram til umhugsunar og skoðunar og mætti vel gerast af hálfu viðskrn. eins og annarra, því að sjálfsagt verður nú viðskiptalöggjöfin fyrirferðarmikil í þessum efnum á komandi árum, hvort unnt hefði verið eða væri að fá fram þá skipan mála í sambandi við það þegar við erum að staðfesta hinn evrópska rétt að einhvers konar lágmarksgrundvöllur nægði okkur í vissum tilvikum.

Herra forseti. Það mætti spyrja sem svo: Ef við eða einstök aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sem í hlut eiga taka upp í sína löggjöf ramma- og réttarákvæði sem tryggja mönnum fullnægjandi stöðu þá eru þau ekki endilega skyld eða neydd til að taka upp hvert einasta smáatriði, ef svo ber undir, svo fremi sem það þýði þá ekki lakari réttarstöðu eða skerta stöðu eins eða neins.

[12:30]

Við sjáum að löggjöfin er oft á tíðum mjög smámunasöm, afar nákvæm, fer út í einstök atriði með þeim hætti að erfitt er að hugsa sér að það geti nokkurn tímann varðað nokkurn mann nokkru máli hér uppi á Íslandi. Þá væri spurningin: Ef lögfest væru með einfaldara sniði grundvallaratriðin og allt það sem tryggir rétt málsaðila með fullnægjandi hætti þá hefðu ríkin svigrúm til þess að vera ekki að standa endalaust í sparðatíningi inn í sína löggjöf. Það þyrfti ekki að hafa nein áhrif á réttarstöðuna því fyrir lægi að mönnum væri tryggður allur sá réttur sem hin evrópska löggjöf fæli í sér þó svo að fullnægjandi gæti verið að lögfesta lagaramma eða mikilvægustu grundvallaratriði í einstökum tilvikum. Það væri hægt að hugsa sér að þetta gæti gert lífið aðeins einfaldara á komandi árum ef tenging okkar við hinn evrópska rétt verður svipuð og nú er, ef hún rofnar ekki.

Herra forseti. Þetta eru nú vangaveltur út frá þeirri sálarkvöl sem maður líður við að horfa upp á þær aðstæður sem hér eru dögum oftar í lagasetningunni og verða. Við erum endalaust að taka við sendibréfum frá Brussel um að nú þurfi að breyta þessu eða hinu svona eða hinsegin í íslenskri löggjöf án þess að maður sjái oft að það hafi mikla praktíska þýðingu hér.

Það getur vel verið að til þess að ná einhverju slíku fram, ef það er þá á annað borð mögulegt, þá þurfi að taka upp samninga að einhverju leyti, fá heimildir fyrir því að einstök aðildarríki gætu ef svo ber undir haft fullgildingarprósessinn eitthvað einfaldari af sinni hálfu. En mér fyndist það að minnsta kosti tilraunarinnar virði að fara yfir það hvort einhver slík lausn væri finnanleg til að einfalda samskipti okkar við hinn evrópska rétt að þessu leyti, koma í veg fyrir að íslenska lagasafnið þurfi að bólgna út af alls konar sparðatíningi og smáatriðaupptalningu sem vandséð er að hafi nokkurt gildi hér, og ef þetta mætti einnig verða til að fækka eitthvað þeim tilvikum sem við þurfum að taka upp okkar löggjöf eins og í því sem hér um ræðir.