Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 23. október 1997, kl. 15:43:18 (796)

1997-10-23 15:43:18# 122. lþ. 16.11 fundur 36. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sjómannaafsláttur) frv., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[15:43]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi hlunnindi alþingismanna get ég alveg tekið undir það og ég væri alveg til í það með hv. þm. að fara í gegnum þau mál öllsömul, þ.e. hlunnindi opinberra starfsmanna og annarra af ókeypis mat og öðru slíku. Þetta er að sjálfsögðu skattskylt og á að vera það.

Varðandi það hvort ég sé að ráðast á sjómannastéttina talaði enginn um að það væri verið að ráðast á eiginkonur eins og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir benti á þegar helmingur af tekjum þeirra var allt í einu skattskyldur um árið. Það talaði enginn um að vera að ráðast á þann hóp manna. Og það talaði heldur enginn um að vera að ráðast á aðalsmenn fyrir hundruðum ára þegar forréttindi þeirra voru afnumin. Það er ekki verið að ráðast á stéttir þegar verið er að afnema forréttindi. Það er verið að gera þær jafnar öðrum, það er allt og sumt.

Varðandi það að sjómenn eyði 25% af orku sinni í að stíga ölduna, þetta er það sem landkrabbinn er nú að gera í líkamsræktarstöðvunum og borga fyrir offjár þannig að það kann kannski að snúa öfugt við. (Gripið fram í.) En þetta er einmitt dæmi um það hvað menn geta haldið að sé slæmt sem er aðalvandamálið í dag.

Varðandi langan vinnudag og mikið erfiði og að vökulögin séu brotin eins og hv. þm. nefndi, sem er náttúrlega lögbrot, þá er það þannig einu sinni að skattkerfið á Íslandi er til þess að jafna laun. Margir Íslendingar vinna mikið og margir Íslendingar leggja mikið á sig og þurfa að borga mikla skatta og njóta einskis skattfrelsis. Á meðan við erum með skattkerfi, sem er ætlað að jafna laun, eiga menn líka að borga skatta sem hafa há laun, jafnt sjómenn sem aðrir. En ég er alveg til í að skoða það að taka upp flatan tekjuskatt. Ég nefndi það í framsögu minni.