Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 23. október 1997, kl. 16:09:25 (803)

1997-10-23 16:09:25# 122. lþ. 16.11 fundur 36. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sjómannaafsláttur) frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[16:09]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég skal fúslega viðurkenna að athugasemd mín í andsvari áðan um persónuafslátt hafi verið óheppileg, enda ekki sambærilegt það skattleysi sem forseti Íslands nýtur og það skattleysi sem hefur nú verið upplýst að sendiráðsfólk njóti og fólk sem starfar fyrir Þróunarsamvinnustofnunina. Munurinn er kannski sá að það fólk er í þjónustu ríkisins. Það fær laun sín greidd frá ríkinu og það er sami vinnuveitandi sem er þar með að greiða niður eða tryggja þeim hærri laun með þessu móti. Þar með er ég ekki að segja að það sé góð latína enda er ég þeirrar skoðunar að fólk eigi almennt að fá laun við hæfi og greiða skatta af öllum sínum launum.

Ég vil bara enn og einu sinni taka það fram að í mínum huga beinist sú skoðun, sem ég hef sett fram, ekki gegn sjómönnum á einn eða neinn hátt. Aðalgagnrýnisatriðið er í mínum huga að ríkið er með þessu fyrirkomulagi að greiða niður laun fyrir atvinnurekendurna. Það eru þeir sem eiga að tryggja sjómönnum þau laun sem þeir eiga skilið og greiða þá niður fæðiskostnað fyrir þessa starfsmenn sína ef þeir ná þar samkomulagi um. Ég vona að ég þurfi ekki að segja þetta einu sinni enn. Það er þá frekar hægt að tala um aðför eða atlögu að útgerðarmönnum en að sjómönnum.