Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 23. október 1997, kl. 16:37:07 (809)

1997-10-23 16:37:07# 122. lþ. 16.11 fundur 36. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sjómannaafsláttur) frv., Flm. PHB
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[16:37]

Flm. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa ágætu umræðu sem hér hefur átt sér stað. Hér hafa komið fram mjög mörg sjónarmið, bæði með og kannski aðallega á móti, en það er eðlilegt að það heyrist meira í þeim sem eru á móti máli.

Hv. þm. Guðrún Helgadóttir bar saman hlutabréfakaup og hlunnindi vegna þeirra og þann vilja ríkisvaldsins að örva hlutabréfakaup með skattaívilnunum. Þetta var gert á sínum tíma. Það var mjög meðvituð stefna að örva hlutabréfamarkaðinn með því að veita skattaívilnanir á hlutabréfakaupum. En það kom líka sjómönnum til góða. Það er fjöldi sjómanna sem betur fer sem hefur keypt hlutabréf og notið þessa afsláttar líka þannig að þetta kom öllum Íslendingum til góða sem á annað borð kærðu sig um að kaupa hlutabréf. Þetta hefur lyft hlutabréfamarkaðnum mjög og hann er orðinn mjög öflugur og hefur dælt peningum í stórum stíl út á hinar dreifðu byggðir landsins. Nú er ekki lengur þörf á þessu þannig að þessi afsláttur er að deyja út og verður látinn deyja út á næstu árum.

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson kom inn á fæðishlunnindi, þingmanna aðallega, og til þess að fyrirbyggja misskilning vil ég að það komi fram að við borgum fyrir okkar mat hérna, en kannski allt of lítið. Og það sem við borgum of lítið er skattskylt samkvæmt íslenskum skattalögum. Það á að borga af því skatt. Skattstjóri hefur hins vegar ekki tekið á því máli. Það er skattskylt nákvæmlega eins og bifreiðahlunnindi eru skattskyld, eins og öll önnur hlunnindi eru skattskyld, laxveiðihlunnindi o.s.frv.

Þannig að þetta er skattskylt, þessu hefur ekki verið framfylgt en mætti gjarnan vera það vegna þess að ef við hv. þm. ættum að borga 1.000 kr., eins og kom fram hjá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni að þetta kostaði hérna niðri, þá mundum við hugsanlega ekki borða hér. Við mundum fara á veitingastaðina hér allt í kring og borða. Þetta er veruleg skekking á samkeppnisstöðu þeirra aðila gagnvart opinberum aðilum og mjög alvarlegt mál í sjálfu sér. Ég er alveg til í að taka á því máli eins og mörgu öðru.

Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson gat þess líka að sjómenn hér fyrr á öldum hefðu borgað spítalagjöld og þar á meðal forfeður mínir því að þeir voru sumir hverjir sjómenn. Ég sé ekki að það komi neitt málinu við að sjómenn í dag sem eru allt annað fólk eigi að njóta skattfríðinda vegna þess að sjómenn fyrri tíðar voru yfirskattaðir af einhverjum ástæðum. Það kemur ekki inn í þetta mál.

Enn fremur gat hv. þm. þess að hér væru stunduð mjög mikil skattsvik og ég ætla að vona að hann hafi mismælt sig þegar hann sagði að ég þekkti það bæði sem atvinnurekandi og launþegi. Hann hafi ekki verið að ætla að ég hafi verið að stunda skattsvik. Hins vegar hef ég að sjálfsögðu rekist á það mjög víða eins og aðrir landsmenn að það eru í gangi skattsvik. Það er eins og ég hef komið inn á að hluta til vegna þess að tekjujöfnun skattkerfisins er allt of öflug. Það er verið að jafna tekjurnar allt of mikið. Ég hef margoft bent á það og ég ætla að vona að ég fái hv. þm. í lið með mér til að laga það atriði, helst að taka upp flatan skatt.

Herra forseti. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir var á móti þessari tillögu en hún kom eiginlega inn á það að það eru útgerðarmenn sem borga þennan skatt eða njóta skattafsláttar því að hún spurði hvort ég teldi að það tækist að manna skipin ef þetta yrði samþykkt. Bíðum nú við. Hver er það sem þarf að manna skipin? Það eru útgerðarmennirnir. Og ef ekki tekst að manna skipin vegna þess að það er búið að fella niður sjómannaafsláttinn, þá þýðir það að laun sjómanna eru ekki nógu há. Það þýðir að ríkisvaldið er að styðja útgerðina. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir kom einmitt með þau rök að með þessum sjómannaafslætti væri ríkisvaldið að styðja útgerðina en ekki sjómenn og það er hárrétt athugað hjá henni.

Formaður LÍÚ hefur lýst yfir að útgerðin muni aldrei borga þetta. Þeir hafa svo sem sagt ýmislegt um það að þeir muni aldrei borga eitt eða neitt og þeir hafa líka lýst yfir í nýlegum kjaraviðræðum að þeim dytti ekki í hug að gangast inn á kröfur sjómanna. Eiga þá sjómenn hreinlega að lyppast niður og segja: Herra formaður LÍÚ. Við gefumst upp af því að þú ert búinn að lýsa því yfir að þú munir ekki borga þetta. Mér dettur það ekki í hug. Mér dettur heldur ekki í hug að löggjafarvaldið lyppist niður þó að hv. formaður LÍÚ lýsi því yfir að hann ætli ekki að borga þetta.

Varðandi það sem sumir hv. þm. komu inn á að í frv. ættu að vera ákvæði um að útgerðin ætti að borga þetta, þá hefur það ekki þótt góð lenska á Íslandi að grípa inn í kjarasamninga með lögum og að sjálfsögðu eiga menn að semja um þetta. Það er ætlaður langur aðlögunartími til þess einmitt að mönnum gefist tækifæri til að semja um það. Það er ætlaður mjög langur aðlögunartími, óvenjulangur.

Varðandi það atriði sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kom inn á að þetta væri atlaga að hinum dreifðu byggðum, þá er það mjög flókið mál og þyrfti að skoða mjög nákvæmlega vegna þess að sjómannaafslátturinn hefur valdið því að frysting í frystitogurum hefur allt aðra samkeppnisstöðu heldur en frysting í landi. Og ef menn skoða hlutfall frystingar í frystitogurum, þá hefur það vaxið mjög hratt á undanförnum árum. Þar vinnur fólk sem nýtur sjómannaafsláttar, nýtur skattfríðinda meðan annað fólk vinnur í frystihúsunum í hinum dreifðu byggðum og nýtur ekki þessa afsláttar sem þýðir að það er hagkvæmara fyrir atvinnurekendur að láta vinna þessa vinnu úti á sjó. Og í heildarkeðjunni er það hagkvæmara að láta vinna úti á sjó heldur en í landi. Endanleg skattlagning á fiskafurðum er lægri úti á sjó heldur en í landi þannig að sjómannaafslátturinn er atlaga að hinum dreifðu byggðum landsins. Hann er atlaga að frystihúsunum sem eru að gefast upp hvert á fætur öðru úti um allt land og atlaga að því fólki sem vinnur í frystihúsunum, aðallega konum, þannig að það er ekki svo einfalt að segja að afnám sjómannaafsláttar yrði atlaga að hinum dreifðu byggðum. Það kynni kannski að vera að frystingin færi þá í minna mæli út á sjó ef fólkið sem þar vinnur við að frysta fisk nyti ekki skattafsláttar þannig að þetta er ekki alveg einfalt.

Svo má líka spyrja: Hefur flóttinn frá hinum dreifðu byggðum, sem ég hef lýst yfir að ég hafi miklar áhyggjur af, stöðvast? Ónei. Hann heldur áfram með fullum og auknum þunga þrátt fyrir sjómannaafsláttinn.

Herra forseti. Hér hefur verið nefndur langur vinnudagur, mikið erfiði og fjarvistir frá heimilum og það er alveg hárrétt. En það eru mjög margir Íslendingar sem vinna langan vinnudag og eru fjarri heimilum sínum. Ég nefni það fólk sem sent er um allan heim til að selja fisk og aðrar afurðir og vinnur mjög mikið og merkilegt starf og þá á ég við markaðsfólkið okkar. Það er fjarri heimilum sínum lon og don. Margir Íslendingar vinna langan vinnudag, óhemjulangan vinnudag, kannski allt of langan vinnudag og hafa háar tekjur og eru skattaðir alveg í botn. Það dettur engum í hug að veita þeim skattafslátt út af því að þeir vinna mikið.

[16:45]

Margir hafa lagt í langa menntun og fá há laun þess vegna og þeir eru skattaðir alveg undir drep. Svo er líka fólk sem vinnur uppi á hálendinu fjarri heimilum sínum í langan tíma í myrkri og snjó nákvæmlega eins og sjómenn. Þar eru atvinnurekendur sem verða að borga sæmileg laun til þess að fá fólk upp á hálendið nákvæmlega eins og á að gerast með sjómenn. Það eru atvinnurekendur, útgerðarmenn, sem eiga að borga þau laun svo að þeir fáist til að fara út á sjó, þ.e. að hægt sé að manna skipin.

Við erum með skattkerfi sem er aðallega tekjujöfnunarkerfi. Ég hef nefnt það áður að skattkerfið virðist vera aðallega hugsað til þess að jafna tekjur. Á meðan svo er finnst mér að allir Íslendingar, sem hafi háar tekjur, eigi að taka þátt í þeim leik, ekki að undanskilja vissar stéttir sem eru reyndar með mjög há laun.

Eins og komið hefur fram hjá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni eru meðaltekjur sjómanna um 300 þús. kr. á mánuði. Það eru ágætislaun, mjög góð laun, en þetta eru meðaltekjur. Svo heyrir maður af útgerðarfyrirtækjum sem eru með meðallaun upp á 6--7 millj. á ári og þá er skrifstofufólkið líka talið með þannig að sjómennirnir eru sumir hverjir með afar há laun. Þetta vitum við og mér finnst það allt í lagi. En þeir eiga líka að borga skatta eins og aðrir sem hafa afar há laun. Þetta er erfið vinna og hún er stunduð fjarri heimilum og þessir menn eiga að taka þátt í byrðum þjóðfélagsins eins og aðrir sem hafa háar tekjur og hafa breið bök. Á meðan við höfum svona mikla tekjujöfnun í kerfinu eiga allir að taka þátt í því.

Á það hefur verið minnt nokkrum sinnum að það sé spurning í hvaða röð eigi að taka hlutina. Þannig megi ekki taka sjómannaafsláttinn af því að það er ekki búið að taka á einhverju öðru eins og dagpeningum, sem ég hef nefnt að sé ákveðin meinsemd, fæðispeningunum, sem ég hef líka nefnt að sé ákveðin meinsemd, og alls konar hlunnindum sem menn njóta. Ef menn notuðu þetta ætíð sem rök, þá væri ekki hægt að taka á einu einasta máli af því að við verðum að byrja einhvers staðar.

Það sem veldur því að ég tek á sjómannastéttinni sérstaklega er að þetta er sérstaklega merkt í lögum. Þetta er eina ákvæðið í lögum fyrir utan það sem nefnt hefur verið, forseti Íslands, sem ég er líka á móti að njóti skattfríðinda. Það á bara að hækka launin hans nægilega mikið þannig að hann geti borgað skatta af þeim og haft sömu tekjur eftir.

Svo er það sendiráðsfólkið sem ég gat sérstaklega um í framsögu minni að væri meiri háttar vandamál. Það er búið að mynda ákveðna forréttindastétt um allan heim sem enginn veit af. Starfsmenn alþjóðastofnana, sem njóta skattfríðinda, ekki bara af tekjuskatti heldur líka bensíngjaldi, virðisaukaskatti o.s.frv. þannig að þar eru forréttindi sem þarf að afnema. Við getum því miður ekki gert það ein.

Í öðru frv. sem ég flutti um eignarskatt eru þeir undanskildir vegna þess að við höfum skrifað undir ákveðinn samning, Vínarsamning, sem gerir ráð fyrir og skuldbindur þjóðir til að veita þessum aðilum skattfríðindi. En sjómenn og forseti Íslands eru þeir aðilar sem njóta skattfríðinda og sjómenn eru eina stéttin sem nýtur skattfríðinda samkvæmt lögum og það er mjög eðlilegt að menn taki á þeim vanda þar.

Herra forseti. Hvenær sem á að afnema forréttindi kallar það alltaf á viðbrögð þeirra aðila sem hafa notið forréttindanna. Það er mjög eðlilegur hlutur og mjög náttúrulegur og mannlegur. Enginn sem nýtur forréttinda segir: Mér finnst óeðlilegt að við njótum forréttinda, við viljum afnema þau. Nei, menn berjast alltaf fyrir forréttindum og það er einmitt það sem hér hefur komið fram að menn vilja viðhalda þessum forréttindum hvað sem það kostar og raular og tautar.

Menn hafa haft skattforréttindi í gegnum tíðina, aðallinn í eina tíð o.s.frv. þannig að það kostar alltaf átök að afnema forréttindi og sumir kalla afnám forréttinda jafnvel árás á þá sem njóta forréttindanna. Það hefur verið nefnt mörgum sinnum í dag að þetta sé árás á sjómannastéttina. Þetta er ekkert árás á sjómannastéttina. Það er bara verið að segja við þessa menn: Þið eigið að borga skatta og skyldur eins og annað fólk í landinu. Það er ekkert annað. Þið njótið velferðarkerfisins eins og allir aðrir. Þið njótið skattafsláttar vegna hlutabréfakaupa o.s.frv. og þið eigið að borga skatta og skyldur eins og aðrir. Það eiga ekki að vera forréttindi í lögum. Lög eiga ekki að gilda bara fyrir suma en ekki aðra. Það er meginpunkturinn í þessu og það er meginástæðan fyrir því að hér er farið út í þetta mál að skattalögin séu algild og allir séu jafnir fyrir lögum. (Gripið fram í: Af hverju byrjar þú þá ekki á forsetanum?) Ég var meðflm. á því frv. fyrir nokkrum árum, fyrir tveimur þingum að ég tel, með hv. þáv. þm. Ólafi Hannibalssyni og ég væri alveg til í það að flytja það aftur.

Ég tel óeðlilegt að skattaívilnanir séu í kerfinu. Það er óeðlilegt að ekki séu allir jafnir fyrir lögum.