Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 23. október 1997, kl. 16:55:31 (812)

1997-10-23 16:55:31# 122. lþ. 16.11 fundur 36. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sjómannaafsláttur) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[16:55]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég tala um að kostnaður sem fellur til í túrnum éti upp öll launin þannig að ekkert sé eftir þegar sjómaðurinn kemur í land þýðir það í raun að hann á ekki til hnífs né skeiðar fyrir sitt fólk í landi. Hann á vonandi í flestum tilfellum fjölskyldu í landi, konu og börn sem gert er ráð fyrir að geti lifað af þessum launum líka. Ég þekki mörg tilfelli þess að launin hafa ekki hrokkið til neinnar framfærslu í landi og þá er náttúrlega illa farið. Sjómenn eiga börn og konur og það þarf að hugsa um þær og þá fjölskyldu sem bíður þannig að ég held að hv. þm. eigi ekki að einfalda þessa hluti. Þetta er mjög flókið samspil sjómanna, fjölskyldna og tekjur þeirra eru í flestum tilfellum allt of lágar.