Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 23. október 1997, kl. 17:21:30 (820)

1997-10-23 17:21:30# 122. lþ. 16.11 fundur 36. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sjómannaafsláttur) frv., Flm. PHB
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[17:21]

Flm. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég vil enn og aftur þakka fyrir þá miklu umræðu sem hefur átt sér stað og nú hafa bæst við fleiri ræðumenn. Dæmið sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson kom með um 400 þús. kr. túrinn sem stóð í 5--6 vikur og gaf að mér heyrðist 320 kr. á tímann --- það er eitthvað bogið við það vegna þess að ef maður tekur 400 þús. kr. og deilir í með 6 vikum þá eru það 66 þús. kr. á viku. Ef maður deildir því svo á 7 daga þá eru það 9.500 kr. á dag sem þessi túr hefur gefið. Og ef maður deilir því á 14 tíma þá eru það 680 kr. á tímann. Það sem hugsanlega liggur að baki þessu dæmi er það að menn hafa verið að reikna álög fyrir næturvinnu og vaktavinnu og fengið þannig 320 kr., öðruvísi kemst ég ekki að því.

Varðandi það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði, að þetta hefði áhrif á kjarasamninga og ekki mætti breyta lögunum vegna þess að það hefði áhrif á kjarasamninga, þá er með þeim rökum aldrei hægt að afnema þessi forréttindi. Vegna þess að það eru alltaf einhverjir kjarasamningar í gildi og alltaf hefur einhver áhrif einhvers staðar. Í þessu frv. var einmitt reynt að taka tillit til þess með því að hafa aðlögunartímann óvenjulangan. Allt árið 1998 á sjómannaafslátturinn að vera óbreyttur samkvæmt þessu frv. Þá fyrst skerðist hann niður í tvo þriðju og síðan í einn þriðja. Það er því ekki fyrr en árið 2001 sem þessi forréttindi sjómanna verða að fullu afnumin.

Hv. þm. kom með alveg furðulega niðurstöðu. Hann sagði að skattalögin yrðu svo leiðinleg eða flatneskjuleg ef þau væru eins fyrir alla borgara landsins. Það væri svo sorglegt að hafa þetta svona allt eins fyrir alla einstaklinga. Það væri bara skemmtilegt að hafa undanþágur, frávik og því um líkt. Sér er nú hver jafnaðarmaðurinn, ég segi ekki annað. Hann vill kannski búa til sérstakar skattareglur fyrir þingmenn. Ég ætla að biðja hann endilega að hafa mig í huga þegar kemur að því að semja um skattfrádrætti einhverra góðvina sinna eða einhverra sem hann vildi hygla sérstaklega eða leiðrétta kjör þeirra vegna einhverra ástæðna.

Þetta er náttúrlega alveg fráleitt. Auðvitað eiga allir borgararnir að vera jafnir fyrir lögunum. Annað er fráleitt. Að fara að búa til skattalög sem taka tillit til hins og þessa að geðþótta einhverra annarra er náttúrlega alveg út í hött. Ég ætla að vona að þetta sé ekki stefna jafnaðarmanna almennt.