Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 23. október 1997, kl. 17:24:24 (821)

1997-10-23 17:24:24# 122. lþ. 16.11 fundur 36. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sjómannaafsláttur) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[17:24]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er sitthvað við þennan málflutning að athuga. Ég sagði að sjálfsögðu ekki að ekki væri hægt að gera breytingar á skattalögum þó þær hefðu áhrif inn í kjarasamninga. Mjög margt sem við gerum í formi breytinga á skattalögum eða ákvarðana um útgjöld í velferðarmálum hefur vissulega samhengi við kjarasamninga. Hér er ekki um sambærilega hluti við nánast neitt annað að ræða sem er þessi stóri þungi liður sem hefur verið hluti af kjörum sjómanna um áratuga skeið. Hann er ekki sambærilegur nema við fátt eitt annað sem ég gæti hugsað mér að taka dæmi af úr skattkerfinu. Ég endurtek og vísa til þess sem ég sagði um það mál.

Hv. þm. sneri hreinlega út úr fyrir mér og sagði að ég hefði verið að tala um að skattkerfið yrði of leiðinlegt ef ekki væru svona frádrættir í því. Það er rétt, já, ég tel hins vegar að áráttan um að hafa það algjörlega flatt sé misskilningur. Hvað er ég að tala um þar og hvernig kemur það inn á jafnaðarstefnu? Jú, ég er m.a. að tala um að það heyrast stundum þau sjónarmið að ekki megi taka tillit til eins eða neins og það eigi aldrei að skipta neinu máli hvernig aðstæður fólks eru, hvernig það vinnur, hvernig heimilisaðstæður það býr við o.s.frv. Uppi eru sjónarmið sem segja að ekki eigi að taka sérstaklega tillit til einstæðra mæðra eða barnafólks og skattleggja eigi alla jafnt. Þessi síbylja gekk t.d. yfir í umræðum um virðisaukaskattinn að ekki mætti taka sérstaklega á matvælum eða barnavörum eða öðru slíku. Ég er andvígur því grundvallarsjónarmiði. Ég tel að skattkerfið verði aldrei réttlátt nema menn þori að taka pólitískar ákvarðanir um vissar áherslur í því. Það er það sem ég er að segja. Sjómannafrádrátturinn er bara tiltekinn skattapólitísk áhersla og ekkert frábrugðin mörgu öðru sem gert er þar sem verið er að taka tillit til aðstæðna fólks og kjara o.s.frv. Ég er ekkert feiminn við að rökstyðja að slíkt sé ekki bara réttlætanlegt heldur beinlínis nauðsynlegt ef við ætlum að ná fram sanngjörnu skattkerfi.