Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 23. október 1997, kl. 17:26:57 (822)

1997-10-23 17:26:57# 122. lþ. 16.11 fundur 36. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sjómannaafsláttur) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[17:26]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Vegna þess að hv. flm. hafði orð á því áðan að sjómannaafslátturinn væri atlaga að konum í frystihúsum, þá langar mig aðeins til að tala frekar um þann þátt sem snýr annars vegar að landfrystingunni og hins vegar að sjófrystingunni eða vinnslunni úti á sjó. Mér finnst í raun mjög slæmt að flm. skuli vera að reyna að etja saman annars vegar fiskverkafólki í landi og hins vegar fiskverkafólki á sjó. Það er enginn, held ég, innan þessara stétta sem hefur hug á því að vera í slag út af þessum sjómannaafslætti og ég hef ekki heyrt það frá fiskverkafólki almennt að það sjái eftir þeim afslætti sem sjómenn fá fyrir sams konar vinnu úti á sjó.

Það eru í rauninni allt aðrar ástæður sem liggja að baki því að fiskvinnslan er að flytja út á sjó. Það hefur aðeins komið fram hjá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni að það er fyrst og fremst nýting fjárfestingarinnar sem hefur orðið til þess að vinnslan er að flytjast út á sjó. Fjárfestingin í skipinu nýtist miklu betur með því að vinna afla um borð, ekki bara að veiða hann. Vélakostur skipsins nýtist nánast allan sólarhringinn, vinnuaflið nýtist 12--14 stundir á sólarhring, vinnustundir verða fleiri og minni frátafir hjá fólki sem vinnur úti í sjó en fólki sem vinnur í landi og það er af mörgum ástæðum. En meginástæðan mundi ég samt segja að væri sú að nýting aflaheimilda er allt önnur á frystiskipum úti á sjó en þegar þarf að kaupa allan afla inn í frystihúsin og reyna með einhverju móti að koma honum í vinnsluhæft eða markaðshæft ástand.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að um borð í fullvinnsluskipum geta útgerðarmenn nánast framleitt allt í pakkningar sem falla að samningum sem gerðir hafa verið við söluaðila. Það er jafnvel verið að framleiða í réttar stærðir og öðrum fiski er hent fyrir borð. Allur fiskur sem ekki nýtist og er ekki talinn verðmæti í augum útgerðarmanna í dag má henda samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða. Því miður var það samþykkt á hinu háa Alþingi fyrir einu og hálfu ári að henda mætti öllum afla sem ekki er talinn verðmæti í augum útgerðarmanna. Að sjálfsögðu var hugmyndin ekki sú að menn mættu henda hverju sem væri heldur væri um skemmdan fisk að ræða eða tegundir sem ekki teldust verðmætar. Eigi að síður vitum við að fiski er hent sem ekki nýtist í flökun, t.d. ef flakið er skemmt öðrum megin. Við vitum að ef fiskurinn er of smár í vinnsluna er honum hent. Við vitum að þær tegundir sem menn hafa komið með í land, allt fram að þessu og voru seldar með einhverju verði inn í frystihúsin, voru unnar og reynt að koma á markað en það er ekki gert í dag. Nú er kvótinn einfaldlega nýttur 100% og jafnvel meira inn í þá vinnslu sem kemur útgerðinni best og með því móti er verið að ná fram algjörri hámarksnýtingu á aflaheimildunum sem er algjörlega vonlaust þegar vinnslan fer fram í frystihúsum í landi. Því held ég að þegar verið er að leggja saman annars vegar sjómannaafsláttinn og hins vegar þá tilhneigingu að fara með vinnsluna út á sjó, þá sé það mikill misskilningur hjá hv. flm. að það sé vegna sjómannaafsláttarins. Það er eingöngu út af nýtingu aflaheimildanna og nýtingu fjárfestingarinnar og það hefur ekkert með sjómannaafsláttinn að gera.

[17:30]