Utandagskrárumræða um gjaldskrárbreytingar Pósts og síma

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 15:12:08 (827)

1997-11-03 15:12:08# 122. lþ. 17.91 fundur 69#B utandagskrárumræða um gjaldskrárbreytingar Pósts og síma# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[15:12]

Svavar Gestsson:

Virðulegur forseti. Hér háttar mjög sérkennilega til í sambandi við þetta mál. Það er um það að ræða sem heitir stjórnarkreppa á venjulegu máli þegar það gerist að hæstv. forsrh. telur óhjákvæmilegt að setja ofan í við einn af undirmönnum sínum jafneftirminnilega og áberandi og hann gerði fyrir nokkrum dögum. Þess vegna er það eðlilegur hlutur að mál af þessu tagi sé rætt strax og þing kemur saman aftur eftir viku hlé. Ég vil taka fram að það er mín skoðun að það sé réttur þingmanns að óska eftir því að fá hálftíma umræðu, þegar óskað er eftir því, jafnvel þó ráðherra fallist ekki á það. Samkvæmt þingsköpunum dugir að viðkomandi þingmaður gefi yfirlýsingu í þessu sambandi. Ég tel það mjög slæmt ef réttur þingmanns verður skertur svo að þessi umræða fari ekki fram eins og nú er bersýnilegt.

Auðvitað er það forseta að ráða í þessu máli og málið liggur þannig að núv. forseti hefur alltaf lagt á það áherslu að leita samkomulags um mál af þessu tagi. Því miður hefur það ekki tekist í þessu efni. Ég tel að það eitt út af fyrir sig sé mjög slæmt að forseti beiti því valdi sem hann hefur í blóra við einn þingflokk. Þess vegna tel ég að málið sé þess eðlis að það þurfi að fara mjög rækilega yfir það. Þegar það svo bætist við í málinu að einn af þeim 63 einstaklingum sem hafa kjörbréf í þessari stofnun hefur lýst því yfir að óhjákvæmilegt sé að efna til umræðna um vantraust á hæstv. samgrh. þá sést bersýnilega að hér er stórmál á ferðinni og eðlilegt að það veki hörð viðbrögð.