Utandagskrárumræða um gjaldskrárbreytingar Pósts og síma

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 15:14:15 (828)

1997-11-03 15:14:15# 122. lþ. 17.91 fundur 69#B utandagskrárumræða um gjaldskrárbreytingar Pósts og síma# (aths. um störf þingsins), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[15:14]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er afar mikilvægt að það sé unnið skipulega í þinginu. Það var ákveðið í upphafi þings að morgundagurinn yrði notaður til umræðu um utanríkismál. Það hefur verið sérstök ósk þingmanna að fá meiri upplýsingar um þann málaflokk. Undirbúin hefur verið sérstök ræða eins og venjulega og henni dreift meðal þingmanna. Þess vegna kemur mér afar mikið á óvart að það skuli eiga að nota þennan dag í lengri umræðu utan dagskrár, morgundaginn, og taka hluta af deginum í þetta mál.

Nú er ég ekkert að gera lítið úr því að það þarf að ræða þetta mál. Mér finnst ekki samræmast góðu skipulagi þingsins að ákveða í upphafi þings að þessi dagur skuli sérstaklega tekinn undir utanríkismál en nota hann svo undir utandagskrárumræðu vegna þess að líka hefur verið kvartað yfir því af þingmönnum að ekki sé nægur tími til að ræða þau. Þar af leiðandi verð ég að lýsa óánægju minni með þetta fyrirkomulag sem kemur mér mjög á óvart. Ég skil að forseti er í vanda staddur og auðvitað þarf að ná samkomulegi um þessi mál. En ég tel það ekki vera til eftirbreytni og vera slæmt ef tiltekinn dagur er ákveðinn fyrir umræðu strax í upphafi þings en því svo breytt skyndilega vegna utanaðkomandi atvika, jafnvel þótt þau séu mikilvæg.