Utandagskrárumræða um gjaldskrárbreytingar Pósts og síma

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 15:20:38 (831)

1997-11-03 15:20:38# 122. lþ. 17.91 fundur 69#B utandagskrárumræða um gjaldskrárbreytingar Pósts og síma# (aths. um störf þingsins), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[15:20]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Í gærkvöldi hringdi ég samkvæmt beiðni hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur til hennar þar sem skilaboð lágu frá henni um að hún vildi tala við mig. Þá sagði hún mér að hún mundi óska eftir utandagskrárumræðu í dag, stuttri utandagskrárumræðu. Það hittist nú svo á að það hafði þegar verið auglýstur fundur með mér úti á landi þannig að ég var vant við látinn. Ég sagði formanni þingflokks jafnaðarmanna þegar í stað að ég væri mjög ánægður yfir þessari beiðni og ég teldi nauðsynlegt að ræða málefni Pósts og síma og fjarskiptamál ítarlega í þinginu. Þetta mál hefði verið mjög til umræðu í þjóðfélaginu og fjöldi þingmanna óskaði eftir því að taka til máls. Ég varð þess vegna mjög undrandi á því að hv. formaður þingflokks jafnaðarmanna skyldi lýsa sig andvíga því að þessi umræða gæti staðið lengur en 30 mínútur. Ég hygg að þessi afstaða þingflokks jafnaðarmanna komi allra þjóðinni á óvart. Einstakir þingmenn þar hafa farið mikinn. Einn þingmannanna hefur lýst því yfir að ástæða sé til þess að lýsa yfir vantrausti á samgrh. Eftir sem áður virðist þingflokkur jafnaðarmanna ekki vilja ræða þetta mál vendilega og gefa mönnum kost á því hér í þinginu að fara efnislega niður í einstök atriði. (Gripið fram í: Eiga þeir mann í stjórninni?) Ég vil líka geta þess vegna þessa frammíkalls að þingflokkur jafnaðarmanna tilnefnir einn mann í stjórn Pósts og síma sem er sérstakur trúnaðarmaður þess þingflokks, (Gripið fram í: Það er rangt.) það er ekki rangt, sem er í samræmi við þær (Forseti hringir.) skoðanir mínar þegar um ríkisfyrirtæki er að ræða að stærstu þingflokkar eigi aðild að stjórn ríkisfyrirtækisins til þess að um það geti tekist pólitísk samstaða og eining og sátt.

Herra forseti. (Forseti hringir.) Ég segi aftur að því miður var ég búinn að binda mig í dag. Ég tel nauðsynlegt að umræðan verði löng. Ég tel nauðsynlegt að við skýrum vendilega sjónarmið okkar og ég tel líka nauðsynlegt að þingflokkur jafnaðarmanna sem er sundurleitur hópur skýri nákvæmlega hver afstaða hans er og hún sé borin saman við það sem hv. þingmenn þess flokks sögðu þegar frv. um Póst og síma hf. og um fjarskiptalög lágu fyrir hér í þinginu.