Utandagskrárumræða um gjaldskrárbreytingar Pósts og síma

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 15:30:45 (835)

1997-11-03 15:30:45# 122. lþ. 17.91 fundur 69#B utandagskrárumræða um gjaldskrárbreytingar Pósts og síma# (aths. um störf þingsins), Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[15:30]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Um leið og forseti lýsir því yfir að þessari umræðu um störf þingsins er lokið vill hann segja þetta: Það er alveg ljóst, eins og kom fram í máli hv. þm. Svavars Gestssonar, að það er ótvíræður réttur þingmanna að óska eftir utandagskrárumræðu um einstök mál sem heitt brenna en jafnframt er ljóst að til þess að slík umræða geti farið fram þarf bæði samþykki forseta þingsins og viðkomandi ráðherra og samkomulag milli þeirra. Það samkomulag náðist ekki í dag.

Forseti skilur vel þá athugasemd hæstv. utanrrh. að vont er að raska fyrir fram ákveðinni dagskrá þingsins. Dagskrá þingsins raskast auðvitað alltaf þegar beðið er um utandagskrárumræðu en verra er þegar það er í blóra við starfsáætlun þingsins. Þess vegna tekur forseti fullt tillit til þessarar athugasemdar hæstv. utanrrh. Ekki var frá því gengið milli þingforseta og formanna þingflokka hversu langan tíma þessi umræða kynni að taka. Forseti lagði áðan til að þingfundur hæfist klukkan 13 á morgun í stað 13.30. Það kemur vissulega til greina að finna annan hentugri tíma og það mun forseti ræða við þingflokksformenn síðar í dag. Forseti lítur svo á að umræðan geti farið fram á morgun en mun leita samráðs um tilhögun umræðunnar við þingflokksformenn og hæstv. utanrrh. sem á að flytja skýrslu um utanríkismál á morgun.