Upplýsingasamfélagið og gjaldskrá Pósts og síma

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 15:43:15 (844)

1997-11-03 15:43:15# 122. lþ. 17.1 fundur 62#B upplýsingasamfélagið og gjaldskrá Pósts og síma# (óundirbúin fsp.), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[15:43]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan að þrátt fyrir þá hækkun, sem fram undan er, þá verðum við með lægsta verð á þessari þjónustu í heiminum eða með því lægsta. Og það er auðvitað það sem við keppum að.

Almennt varðandi þetta mál þá hefur komið fram af minni hálfu að ég tel eðlilegt að Samkeppnisstofnun skoði málin. Neytendasamtökin hafa sent mér bréf þess efnis. Það eru fleiri en viðskiptaráðherra sem geta beint slíkum erindum til Samkeppnisstofnunar og ef ég hef heyrt rétt, þá kom það fram í máli hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, sem hérna spyr, að ef viðskrh. sendir ekki málið, eins og Neytendasamtökin óska eftir, þá geti viðkomandi þingmaður gert það. Það getur hver og einn gert það. Þá er um tvenns konar úrræði að ræða sem Samkeppnisstofnun getur beitt, annars vegar á grundvelli 17. gr., (Forseti hringir.) þ.e. beint fyrirmælum til fyrirtækisins, eða á grundvelli 5. og 19. gr. þar sem hægt er að vekja athygli á þeirri röskun sem getur hugsanlega orðið á samkeppni af þessum sökum. En ég legg áherslu á það sem snýr að veraldarvefnum í þessum efnum (Forseti hringir.) að við munum áfram vera í fararbroddi á því sviði.