Flutningur Stýrimanna- og Vélskólans úr Sjómannaskólahúsinu

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 15:45:58 (846)

1997-11-03 15:45:58# 122. lþ. 17.1 fundur 63#B flutningur Stýrimanna- og Vélskólans úr Sjómannaskólahúsinu# (óundirbúin fsp.), KPál
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[15:45]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. menntmrh. um fréttir af flutningi sjómannamenntunarinnar úr Sjómannaskólanum á Rauðarárholti í Reykjavík.

Það mun hafa verið Ólafur heitinn Thors, þáverandi atvinnumálaráðherra, sem lagði til árið 1941 að byggt yrði veglegt húsnæði sem menntasetur fyrir sjómannastéttina. Málalyktir urðu þær að núverandi sjómannaskóli var reistur á Rauðarárholti í Reykjavík. Sjómönnum var afhent húsnæðið við hátíðlega athöfn árið 1944 af þáverandi ríkisstjóra, Sveini Björnssyni. Mikill stórhugur ríkti þá í málefnum sjómanna og ekkert talið ofgert til þess að gera hlut þeirra sem bestan.

Ekki verður sagt að þeir sem á eftir hafa komið hafi sýnt þessum þætti sjómannastarfsins sama skilning og Ólafur heitinn Thors og húsið hefur verið í mikilli niðurníðslu á síðustu áratugum. Um þverbak hefur þó keyrt miðað við nýjustu fréttir frá hæstv. menntmrh. á Stöð 2 nýverið um tillögur sem eru komnar fram í menntmrn. um að Sjómannaskólinn verði tekinn af sjómönnum. Rökin eru þau að skólinn sé illa nýttur og færi betur við hliðina á Tækniskóla Íslands og kostnaður væri minni með þeirri nýtingu.

Engin af þeim rökum, sem komið hafa fram af hálfu ráðuneytisins, hafa haldið. Þvert á móti mun kosta um 1,5 milljörðum meira að flytja skólann úr núverandi húsnæði en koma skólanum í boðlegt ástand. Ég spyr því hæstv. ráðherra menntamála: Er enn verið að hugsa um flutning á sjómannamenntuninni úr Sjómannaskólanum eða eru einhver ný rök komin í málinu og þær hugmyndir sem uppi hafa verið þegar teknar af borðinu?