Einkaréttur ÁTVR

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 16:07:22 (861)

1997-11-03 16:07:22# 122. lþ. 17.1 fundur 65#B einkaréttur ÁTVR# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[16:07]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig ekki ástæða til þess að hafa mörg orð um þetta til viðbótar því sem þegar hefur verið gert. Sá sérstaki fyrirvari sem hv. þm. vitnaði til reyndist ekki vera mjög haldbær og ég hygg að hann hafi ekki verið notaður í þessum flutningi. Það var sótt í rök sem voru miklu eldri í samþykktum Evrópusambandsins frekar en það væri sótt í þann fyrirvara sem var sérstök bókun Norðurlandaþjóðanna en hafði held ég sáralitla þýðingu í sjálfu sér eins og kannski hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur gert hvað besta grein fyrir hér á hinu háa Alþingi.

Ég bendi á af því að það er sífellt verið að vitna til þess að við eigum að vera nákvæmlega eins og aðrir að annars staðar á Norðurlöndum tíðkast ekki að tóbak sé selt með einkaleyfi ríkisins eins og hér. Og ef hv. þm. ætlaði að halda fram þeirri stefnu að við ættum að vera eins og þeir, þá ætti hann að leggja til þegar á morgun að tóbakið yrði ekki háð einkasölunni. (Forseti hringir.)

Þetta vildi ég að kæmi fram, virðulegi forseti, og ítreka það sem ég hef áður sagt um þetta efni.