Söfnunarkassar

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 17:18:48 (875)

1997-11-03 17:18:48# 122. lþ. 17.15 fundur 156. mál: #A söfnunarkassar# (brottfall laga) frv., 174. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (happdrættisvélar) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[17:18]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að gera að umræðuefni atriði sem fram komu í máli þingmanna, nú síðast í máli hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar, að það sé ekki nóg að taka á þessum þætti spilafíknarinnar. Það þurfi að skoða málið í víðara samhengi. Og hann sagði líka að ef SÁÁ og önnur þau samtök sem njóta arðsins af þessari starfsemi fengju hann ekki, þá fengju hann einhverjir aðrir.

Það sem vakir fyrir okkur er að setja bann við spilavítum á Íslandi. Hér eru að spretta upp spilavíti á Íslandi. Það er ljóst að þessi mál brenna á afar mörgum og mun ég senn koma að því en fyrst segja örfá orð um staðhæfingar hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar eða samlíkingu sem hann gerði á arðinum af tóbaks- og áfengissölu annars vegar og arðinum af spilakössum hins vegar.

Við leyfum ekki sölu á áfengi og tóbaki til þess að afla ríkisvaldinu tekna, það gerum við ekki. Við höfum hins vegar leyft spilakassana til þess að afla háskólanum og þeim stofnunum sem njóta góðs af tekna. Ekki vegna þess að menn teldu að hér væri á ferðinni eitthvert sérstakt þjóðþrifamál að koma upp spilabúlum og spilakössum, heldur vegna þess að þarna sáu menn tekjuöflunarleið fyrir þessi samtök. Hér er því ekki saman að jafna nema við ætlum að fara út á þá braut sem hann spurði, hvort við vildum hreinlega banna sölu á áfengi og tóbaki vegna þess að það væri skaðlegt. Það er sums staðar reyndar rætt um að setja bann við reykingum. Það eru orðnar háværar raddir þar að lútandi í Bandaríkjunum. En þetta er hins vegar ekki á döfinni hér. Slíkt á alla vega mjög langt í land þannig að mér finnst þarna verið að rugla saman tveimur óskyldum málum þar sem það stendur ekki til að banna sölu á áfengi og tóbaki. Við erum hins vegar að ræða um það hér hvort setja eigi bann við spilakössum. Síðan er það náttúrlega annað mál og þar er komið að því að vera með samlíkingar hvað er siðferðilega rétt og rangt í þessum efnum. Það er svo önnur saga. En mér finnst þetta ekki vera rétt samlíking af hálfu hv. þm.

Ég sagði hér áðan að það væri ljóst að hér væri á ferðinni mjög mikilvægt mál sem brennur á mjög mörgu fólki. Það finnum við sem stöndum að þessum frumvörpum og kom vel fram í ítarlegri ræðu hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur sem er 1. flm. að þessum frumvörpum að mikill fjöldi fólks hefur haft samband við flutningsmenn, fólk sem sjálft hefur orðið spilafíkninni að bráð eða einhverjir úr þeirra fjölskyldu. Ég þekki það mjög vel úr mínu starfi innan verkalýðshreyfingarinnar hve illa spilafíknin hefur leikið marga einstaklinga og fjölskyldur, enda ekki að undra því talið er að á milli 60--80% einstaklinga stundi fjárhættuspil af einhverjum toga án þess þó að hún sé sjúkleg eða skaðleg en fjárhættuspil getur hins vegar leitt til spilafíknar. Það kom fram í máli háskólaprófessors frá Bandaríkjunum sem hér var í boði SÁÁ fyrir skömmu, Sheilu B. Bloom, að í Bandaríkjunum væru 5--6% fullorðinna einstaklinga háð fjárhættuspili og eflaust er þessi tala miklu hærri ef einnig er leitað í raðir ungs fólks, en það hefur komið fram í könnunum sem gerðar hafa verið hér á landi að mjög stórt hlutfall þeirra sem stunda spilakassana er unglingar, er fólk innan við 16 ára aldur, þrátt fyrir allar þær reglur sem kunna að vera í gildi.

Með öðrum orðum, þetta mál brennur á mjög mörgu fólki en þetta brennur ekki bara á einstaklingum og fjölskyldum. Þetta brennur líka á stofnunum og því höfum við fengið að kynnast, þingmenn, sem höfum fengið tilskrif frá Rauða krossinum, frá SÁÁ, frá Slysavarnafélagi Íslands og frá Landsbjörgu þar sem varað er við því að svipta þessi samtök þessum tekjumöguleikum. Þess vegna má spyrja hvort samtökin hafi ekki orðið spilafíkninni að bráð. Og ég leyfi mér að fullyrða að þessi samtök, Rauði kross Íslands, SÁÁ, Slysavarnafélag Íslands, Landsbjörg og hugsanlega einnig Háskóli Íslands eru svo illa flækt í þetta net vegna þeirra peningalegu hagsmuna sem þau hafa að gæta að þau eru ófær um að taka málefnalega á þessu máli. Þetta eru þung orð í garð Rauða krossins, í garð SÁÁ, í garð Slysavarnafélags Íslands og í garð Landsbjargar og Háskóla Íslands, en ég tel ástæðu til að ætla að öll þessi samtök og þessar stofnanir séu ófær um að taka málefnalega á þessu máli, svo miklir peningar eru hér í húfi. Mér finnst þetta koma fram í þeim málflutningi sem við fáum inn á okkar borð frá þessum aðilum í ljósi þess að það er vitað að fjöldi einstaklinga hefur misst fótanna í lífinu vegna spilafíknar.

Einhvers staðar segir í reglum og reglugerðum að það eigi að merkja þessa kassa. Og ég vil þá gera það að tillögu minni að í þessum spilavítum, hvar sem þau er að finna, hvort sem það er á Hlemmi eða á veitingastöðum landsins, verði merkt rækilega, t.d. gæti Guðfræðistofnun, guðfræðideildin, fengið Hlemm, eða Siðfræðistofnun háskólans. Ég veit ekki hvar SÁÁ ætti að fá sína kassa. Og ég tek undir það sem fram kom í máli hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur áðan að það setti marga hljóða þegar Rauði krossinn var að stæra sig af því að hafa átt fyrir hinu glæsilega nýja húsi sem sú ágæta stofnun reisti. Og maður spyr sig: Hvaðan voru þessir peningar fengnir? Við vitum öll hver skýringin er. Þeir eru fengnir að verulegu leyti frá spilafíklum. Það er staðreynd.

Nú verður þessum frumvörpum vísað til allshn. eins og hér kom fram áðan og eins og við þekkjum, þá vill það oft gerast að mál sem menn vilja að fái ekki framgang sofna svefninum langa í meðferð þingnefnda. Ég vil skora á hv. allshn. Alþingis að sjá til þess að þetta mál komi aftur til kasta þingsins áður en langt um líður vegna þess að við sem stöndum að þessum frumvörpum munum ekki sætta okkur við að þetta mál verði þagað í hel. Við munum ekki sætta okkur við það. Við munum ekki sætta okkur við að komið verði upp spilavítum í okkar landi. Við munum ekki sætta okkur við eftirlitslausa eða eftirlitslitla glæpastarfsemi í landinu.