Söfnunarkassar

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 17:47:08 (882)

1997-11-03 17:47:08# 122. lþ. 17.15 fundur 156. mál: #A söfnunarkassar# (brottfall laga) frv., 174. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (happdrættisvélar) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[17:47]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fæ ekki skilið hvernig hv. þm. Einar K. Guðfinnsson réð það í mál mitt áðan að ég vildi koma á fót skipulegum spilavítum í landinu. Ég stend að frv. sem eiga að setja bann við slíku þannig að mér er þetta með öllu óskiljanlegt. Það sem vekur hins vegar furðu mína í málflutningi hv. þm. og hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, sem hefur einnig talað í þessu máli er forgangsröðun þessara aðila. Það er engu líkara en þeim finnist vera smámál, jafnvel hégómamál, á ferðinni og saka okkur um ábyrgðarleysi fyrir að vera ekki búin að sjá SÁÁ fyrir fjármunum, Rauða krossi Íslands eða Slysavarnafélaginu fyrir fjármunum áður en tekið er á þessum málum sem eru sannanlega að leggja líf fjölmargra einstaklinga og fjölskyldna í rúst. Það er þannig sem við höfum forgangsraðað þessum málum að við viljum að Alþingi Íslendinga bregðist þegar í stað við og setji í lög bann við starfsemi af þessu tagi. Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þm. að að sjálfsögðu þarf síðan að taka til skoðunar hvernig starfsemi þeirra ágætu stofnana sem hér um ræðir verði tryggð fjárhagslega.