Söfnunarkassar

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 17:49:16 (883)

1997-11-03 17:49:16# 122. lþ. 17.15 fundur 156. mál: #A söfnunarkassar# (brottfall laga) frv., 174. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (happdrættisvélar) frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[17:49]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mikill misskilningur hjá hv. 17. þm. Reykv. að ég hafi talið þetta smámál eða hégóma. Þvert á móti finnst mér vera mikið mál á ferðinni og ég tók það einmitt fram áðan að þó frv. létu ekki mikið yfir sér við fyrstu sýn þá væri um að ræða stór mál vegna þess að þetta væri nokkuð sem varðaði framtíð og fjárhag mjög mikilvægra samtaka í landinu og þess vegna væri það mál sem við þyrftum að ræða af mikilli alvöru og eindrægni. Ég hef aldrei gefið neitt til kynna um það sem að baki byggi hjá hv. þm. og flm. þessa frv. Þvert á móti hef ég sagt að ég efaðist ekki um hug þeirra í málinu.

En mér finnst mjög alvarlegt, virðulegi forseti, að hv. þm. talar um forgangsröðun. Er það ekki eðlileg forgangsröðun þegar verið er að leggja það til að svipta þýðingarmikil samtök tekjum sínum, skilja þau eftir í algjöru uppnámi, að það liggi eitthvað fyrir um það hvernig framtíðarstarfsemi þeirra eigi síðan að fjármagna. Er það ekki mál sem kemur okkur og þeim við, sem leggja það til að svipta þessi samtök stórum hluta tekna sinna, hvernig eigi síðan að ljúka málinu? Ég held, virðulegi forseti, að það sé ekki eitthvað sem menn geti síðan bara vísað inn í framtíðina --- fyrst skulum við taka 630 milljónir af ráðstöfunarfénu þeirra og þegar við eru búin að því skulum skoða hvernig við eigum að bjarga lífi þeirra. Ég er hræddur um að það geti kannski jafnvel orðið of seint þegar við skoðum hversu stór hluti af ráðstöfunartekjum þessara aðila kemur frá þessum spilakössum hér. Það kemur til að mynda í ljós í yfirliti frá SÁÁ að þetta fjármagn fer í að borga hlut í almennum rekstrarkostnaði samtakanna, borga göngudeildir SÁÁ í Reykjavík og Akureyri algjörlega, fræðslustarf til almennings og hluta af forvarnadeild. Allt þetta væri algjörlega í vindinum ef þessi frv. yrðu samþykkt óbreytt.