Söfnunarkassar

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 18:18:32 (888)

1997-11-03 18:18:32# 122. lþ. 17.15 fundur 156. mál: #A söfnunarkassar# (brottfall laga) frv., 174. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (happdrættisvélar) frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[18:18]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Það er svolítið sérstakt að heyra hv. þm. Ögmund Jónasson annars vegar lýsa yfir stuðningi við þessi fern líknarsamtök og Háskóla Íslands sem hér hafa verið til umræðu og hins vegar að tala um starfsemi þeirra sem glæpastarfsemi og vera flm. að frv. þar sem talað er um starfsemina sem fáránlega. Leggja til í frv. að stoðunum verði kippt undan fjárhagslegri stöðu þessara félaga án þess að minnast á það einu orði í frv. eða greinargerðinni að eitthvað annað þurfi að koma til. Koma svo upp og halda ræður og vera hissa á því að einhver skuli ekki vera sammála um að það eigi að tala um þessi félög sem glæpastarfsemi.

Herra forseti. Það stendur ekki steinn yfir steini í þessum málflutningi. Ég er eiginlega mest hissa á því að það skyldi ekki vera slegið í bjölluna hér áðan þegar verið var að tala um glæpastarfsemi í samhengi við þessi líknarfélög.