Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 18:57:14 (893)

1997-11-03 18:57:14# 122. lþ. 17.17 fundur 209. mál: #A stjórn fiskveiða# (hámark aflahlutdeildar) frv., TIO
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[18:57]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er lagt fram og miðar að því að takmarka kvótaeign einstakra aðila í ákveðnum tegundum en einnig heildarkvótamagn er þannig vaxið að því er ætlað að koma í veg fyrir að aflaheimildir safnist á of fáar hendur. Í þessu tilliti held ég að rétt sé að hugleiða það hvernig staða þessarar atvinnugreinar, þ.e. sjávarútvegsins annars vegar og fiskvinnslunnar hins vegar, og annarra atvinnugreina er hér á landi með tilliti til samþjöppunar í atvinnulífinu og þar af leiðandi til samkeppnisaðstæðna í atvinnulífinu í heild. Það vill nú þannig til að með þessari fámennu þjóð eru fyrirtæki alla vega ekki stór á alþjóðlegan mælikvarða. Það eru fá fyrirtæki á Íslandi sem teljast vera stór, þau fyrirtæki sem eru í stærri kantinum á Íslandi eru lítil á alþjóðlegan mælikvarða og því þarf ekki mikið til á Íslandi að sæmilega stöndug fyrirtæki fái til þess að gera sterka stöðu á markaðnum og verði fyrirferðarmikil á því sviði atvinnulífsins þar sem þau hafa haslað sér völl. Mér finnst rétt að við ræðum um þetta frv. með tilliti til þess hversu mikil hætta er á því í raun og veru að aflaheimildir safnist á hendur fárra aðila og bera síðan þessa atvinnugrein, sjávarútveginn og fiskvinnsluna, saman við aðrar atvinnugreinar og sjá hvernig landslagið er í þeim og hvort sérstakar ástæður eru til þess að leggja fram frv. sem takmarkar umsvif stærri fyrirtækja langt umfram það sem almenn samkeppnislög segja til um.

[19:00]

Nú er það ljóst að frá því að upp var tekin stjórnun með kvótakerfi og sóknarkerfi árið 1984, hefur mátt búast við því að aðilum sem útgerð og fiskvinnslu stunda mundi fækka. Það var beinlínis tilgangurinn með þeim stjórnunaraðgerðum sem gripið hefur verið til á þessu tímabili, sem hafa verið af ýmsu tagi, en tilgangur þeirra var sá í raun og veru að reyna að minnka sóknina í auðlindina sem var nauðsynlegt að gera. Afleiðingin af því gat aldrei orðið önnur en sú að fyrirtækjum í sjávarútvegi og fiskvinnslu mundi fækka. Það var tilgangurinn með ráðstöfununum. Hvort sem menn hölluðust frekar að því að nýtast við sóknarstýringu ellegar aflamark þá var alveg ljóst að útkoman yrði sú að fyrirtækjum mundi fækka. Þeim hefur líka fækkað talsvert. Í ljósi þeirra ráðstafana sem gripið hefur verið til, ekki síst nú á síðari árum, þá hefur fyrirtækjum fækkað í sjávarútvegi að sama skapi og hagræðing hefur aukist og staða greinarinnar batnað. Ef sérstök ástæða er til að líta á þessa þróun sem hættulega, að hún hafi gengið svo langt að það stefni í að fá fyrirtæki sölsi undir sig allan kvótann, þá ætti það að koma fram í ótvíræðum tölum um slíka þróun.

Í frv. er tafla sem sýnir þróunina frá 1991--1997. Það sem athygli vekur er að árið 1991 eru það þrjú fyrirtæki af mjög mörgum fyrirtækjum í útgerð sem eiga yfir 3% af þorskígildum í kvóta. Árið 1997 eiga fimm fyrirtæki yfir 3%. Ef við lítum á 25 stærstu fyrirtækin þá eiga 25 stærstu fyrirtækin árið 1991 35,73% af heildarkvótanum. Árið 1997 eiga 25 stærstu fyrirtækin 47,61%. Þetta er breytingin sem hefur orðið á þessum árum þegar einna mest hagræðing hefur orðið í þessari atvinnugrein. Ef við lítum svo á 55 stærstu útgerðirnar þá er staðan sú að árið 1991 eiga þessar 55 útgerðir 54,37% árið 1991 en árið 1997 eiga 55 stærstu fyrirtækin 61,51%. Hraðari en þetta er nú þróunin ekki þannig að það er vandséð af þeim gögnum sem hafa verið sett fram með þessu frv. að þessi þróun kalli sérstaklega á þær aðgerðir að setja takmarkanir á kvótaeign hjá einstökum útgerðum. En það er einmitt mergurinn málsins í þessu frv., þ.e. að koma í veg fyrir að aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila eða tengdra aðila geti farið umfram tiltekið hámark.

Þannig er sem sagt staðan í þessari atvinnugrein. Ástæða er til þess að menn beri saman þessa atvinnugrein og aðrar atvinnugreinar ef það er hægt á annað borð. Útgerð hefur alla tíð verið stunduð af mjög mörgum á Íslandi og frv. og fylgigögn þess, virðulegi forseti, bera með sér að útgerð er enn stunduð af mjög mörgum og fátt bendir til þess að grundvallarbreyting verði á því.

Ef menn vilja svo meta hvernig ástandið er í öðrum atvinnugreinum þá eru að vísu ekki til ný gögn um það. En árið 1994 kom út skýrsla sem Samkeppnistofnun gaf út um stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi. Þar er hægt að fá tilfinningu fyrir því hvernig þessum málum er háttað í öðrum greinum og bera aðrar greinar saman við fiskvinnsluna og útgerðina.

Við skulum aðeins drepa niður í þessari skýrslu, hæstv. forseti, í fiskvinnslunni og sjá hvernig ástandið er þar. Þar er sýnt fram á með könnun að stærsta fiskvinnslufyrirtækið á landinu er með 7% af veltu fyrir árið 1993, önnur fyrirtæki með minna. Þegar þessi skipting á veltu er borin saman við aðrar atvinnugreinar kemur í ljós að í fáum atvinnugreinum er eins mikil dreifing á stærð fyrirtækja og fyrirferð á markaði og í fiskvinnslunni. Er ólíku t.d. saman að jafna eins og hjá þeim sem eru í útflutningi á fiski, þar sem tvö fyrirtæki nánast ráða markaðnum. Ef við berum þetta svo saman við sumar aðrar atvinnugreinar kemur í ljós í þessari skýrslu að eitt fyrirtæki fer með um 80% af veltu í flugsamgöngum. Ef við tökum nokkra aðra þætti atvinnulífsins þá kemur í ljós að í tímaritaútgáfu er eitt fyrirtæki á landinu með 55% af veltunni. Tvö stærstu fyrirtækin í tímaritaútgáfu fara með 72% af allri veltunni. Í blaðaútgáfu fer eitt fyrirtæki með 53% af veltunni. Í prentiðnaði fara þrjú stærstu fyrirtækin með meira en helming af allri veltu. Þannig getum við farið milli atvinnugreina og fundið jafnvel dæmi um 60% hlutdeild í veltu í iðnaði, í öl- og gosdrykkjaframleiðslu. Að lokum, svo ég tíni til nokkur atriði úr þessari skýrslu, þá langar mig til að skoða matvöruverslunina sem lengi vel hefur verið mjög dreifð í landinu. Í matvöruversluninni er ástandið orðið þannig árið 1994 að ein verslun er með á sínum snærum 23% af þessum viðskiptum og þessi mynd hefur sennilega einfaldast mjög verulega síðan 1994. Þannig að það er alveg ljóst að ef sjávarútvegurinn er borinn saman við aðrar atvinnugreinar, þó svo að á þriggja ára gömlum gögnum sé byggt, þá er miklu meiri samþjöppun í atvinnulífinu í öðrum greinum en sjávarútvegi.

Ég hef í þessu skyni farið fram á það með fyrirspurnum að ég verði upplýstur um hvernig ástandið er nú í dag og hvort ástæða sé til að grípa til sérstakra ráðstafana til að hemja stækkun, vöxt og svigrúm fyrirtækja í öðrum atvinnugreinum á svipaðan hátt og menn eru hér að leggja til, þ.e. að gerðar verði ráðstafanir til að þrengja svigrúm sjávarútvegsfyrirtækja til þess að þróa sig eftir sínum eigin lögmálum og lögmálum markaðarins.

Mér finnst á þessum samanburði að það sé alveg ljóst að á þessu er ekki þörf. Ég hefði fyrir mína parta verið reiðubúinn til að skoða löggjöf á þessu sviði ef merki væru um að þarna væru menn komnir á hættulegt stig í sjávarútveginum. Ég hefði líka verið reiðubúinn til að gangast inn á að það giltu kannski önnur lögmál um sjávarútveginn en um aðrar atvinnugreinar og væri þar af leiðandi reiðubúinn til að velta því fyrir mér hvort grípa þyrfti til sérstakra ráðstafana í sjávarútveginum, varðandi kvótaeignina, ef ég sæi augljósar vísbendingar um að þar væri hætta á ferðinni. En mér sýnist að svo sé tæplega.

Að því er varðar þetta frv. sem mér finnst að þessu leyti vera óþarft, þá verð ég líka að gera athugasemdir við það frá tæknilegu sjónarmiði. Í frv. er gert ráð fyrir því að hámark verði 10% fyrir þorsk og ýsu, en 20% fyrir ufsa, karfa, grálúðu, síld, loðnu og úthafsrækju. En auk þess er í frv. sagt, með leyfi hæstv. forseta:

,,Þá má samanlögð aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila ekki nema meira en 8% af heildarverðmæti aflahlutdeildar allra tegunda sem sæta ákvörðun um leyfðan heildarafla, ...``

Um þessar tvær takmarkanir, þ.e. annars vegar takmarkanir á einstakar tegundir og svo á heildarverðmæti aflahlutdeildar vil ég segja eftirfarandi:

Um fyrri viðmiðunina, þar sem viðmiðunin er aflamark í ákveðnum tegundum, 10% annars vegar og 20% hinns vegar, vil ég segja að slíkar takmarkanir miðað við núverandi aðstæður munu fara að hafa áhrif á rekstur stærstu fyrirtækjanna fljótlega, kannski nú þegar ef þetta frv. verður samþykkt, og beina viðleitni þessara fyrirtækja til þess að lifa af í samkeppninni í ákveðinn farveg. Ef við tökum sem dæmi eitt ágætt fyrirtæki í Reykjavík sem heitir Grandi hf. þá á Grandi hf. þegar skýrslan er gerð, 30. ágúst 1997, 16,97% af karfa. Hann er sem sagt farinn að nálgast það mark sem hér er sett. Sú leið sem Grandi hefur farið og raunar ýmiss önnur fiskvinnslufyrirtæki, hefur verið að sérhæfa sig. Þannig hefur líka leiðin verið hjá Útgerðarfélagi Akureyringa, að þeir hafa sérhæft sig í landvinnslunni. Ef þetta frv. verður að lögum er hægt að sjá fyrir sér að svigrúm þessara fyrirtækja til að halda áfram á braut sérhæfingarinnar mun þrengjast þó nokkuð. Það mun þrengjast að því leyti til að þegar þeir hafa náð hámarkinu sem þeim er sett í sínum tegundum þá hafa þeir ekki svigrúm nema til að leita annarra leiða, þ.e. fara inn á aðrar tegundir og þar af leiðandi mun þetta frv. geta dregið úr sérhæfingarviðleitni fyrirtækjanna sem er í raun og veru ekki æskileg þróun því að sérhæfing þessara fyrirtækja er náttúrlega sprottin upp úr því á hvaða sviði þessi fyrirtæki hafa staðið sig best.

Hitt er þó miklu alvarlegri brotalöm á þeim hugmyndum sem eru settar fram í frv. að gert er ráð fyrir að samanlögð aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, megi ekki nema meira en 8% af heildarverðmæti aflahlutdeildar allra þeirra tegunda sem sæta ákvörðun um leyfðan heildarafla. Mig langar til að vekja athygli þingsins á því að hér er um allt annars konar viðmiðun að ræða en í fyrra tilfellinu þar sem um er að ræða aflaheimildir. Þarna er verið að tala um verðmæti. Á bls. 26 í frv. er fylgiskjal V, þar sem kemur fram hvernig slík verðmæti eru reiknuð út. Þau eru reiknuð út eftir ákveðnum aðferðum sem eru í sjálfu sér ekkert sérstaklega tortryggilegar. Nefndin sem undirbjó þetta frv. kemst að þeirri niðurstöðu að betra hefði verið að fara eftir þessum útreikningsaðferðum en eftir markaðsaðstæðum. Ég reikna með að það sé skynsamleg niðurstaða. Engu að síður er það svo að nýting fiskveiðiauðlindarinnar er háð miklum sveiflum í auðlindinni. Það verða miklar sveiflur í auðlindinni. Við skulum gefa okkur að það gæti orðið aflabrestur í loðnu eitt árið. Hvað gerist þá, segjum t.d. fyrir fyrirtæki eins og Útgerðarfélag Akureyringa sem á ekki loðnu en á talsvert miklar veiðiheimildir í botnfiski? Ef loðnubrestur yrði og loðnan færi að talsverðu leyti út úr reiknilíkaninu þá mundi verðmæti annarra tegunda vaxa í heildardæminu og það gæti leitt til þess að t.d. fyrirtæki eins og Útgerðarfélag Akureyringa sæti uppi með þá staðreynd að þó það hafi verið rétt undir mörkunum, 8--10% mörkunum sem varða heildarverðmætin, þá getur loðnubrestur valdið því að fyrirtækið fer upp fyrir mörkin þegar loðnubresturinn kemur fram í reiknilíkaninu. Fyrirtækið gæti þar af leiðandi neyðst til þess, án þess að það hefði bætt við neinum veiðiheimildum, vegna breytinga sem eru í aflabrögðum í allt annarri tegund, að selja frá sér veiðiheimildir. Og næst þegar loðnuvertíðin gengi betur þá hefur fyrirtækið tosast verulega niður fyrir mörkin sem sett eru og verður þá að sitja uppi með það tjón sem það hefur orðið fyrir vegna þess að það var loðnubrestur.

[19:15]

Ég held því að um sé að ræða mjög skaðsamlega reglu. Ég held að það sé bráðnauðsynlegt að sú nefnd sem fær málið til umfjöllunar taki þetta fyrir alveg sérstaklega. Ef menn vilja á annað borð grípa til löggjafar þessu tagi væri æskilegra að hafa í hverri tegund meira svigrúm en hér er sýnt, en í öllu falli er nauðsynlegt að taka regluna um 8% heildarverðmætahlutdeildina til endurskoðunar og fella út verðmætamat í reglunni. Ég held að það sé óhjákvæmilegt og ég vil beina því til hæstv. sjútvrh. að hlutast til um að þetta verði skoðað sérstaklega með erindi til sjútvn. ef ekki er hægt að koma því í kring með öðrum hætti.

Að lokum lýsi ég því yfir að ég sé engin rök til þess að vera með þessu máli. Mér finnst það ekki nauðsyn en ég tel hins vegar mikil rök standa til þess að vera á móti því og einkum og sér í lagi á móti þessu ákvæði um heildarverðmæti aflahlutdeildar.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara nánar út í þetta mál. Tíma mínum er lokið en ég taldi nauðsynlegt að koma á framfæri þessum fyrstu athugasemdum mínum.