Gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 13:49:15 (903)

1997-11-04 13:49:15# 122. lþ. 18.93 fundur 74#B gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.# (umræður utan dagskrár), samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[13:49]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég vil ítreka þakkir mínar síðan í gær og þakka fyrir það tækifæri sem ég fæ hér til þess að ræða um málefni Pósts og síma. Eins og áheyrendur og þingmenn heyrðu fór því víðs fjarri að frummælandi einskorðaði sig við einhver einstök atriði og er vissulega þörf á langri umræðu ef unnt á að vera að koma að öllu því sem hv. þm. sagði.

Ég hafði að vísu búið mig undir það að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir yrði frummælandi en það má segja að það komi ekki að sök, hv. þm. Ásta Ragnheiður talaði mjög mikið um þessi mál þegar þau voru til umræðu og ég tel að hún sé með þessum hætti að vekja athygli á fyrri sjónarmiðum sínum og hvernig við þau hafi verið staðið. Í ræðu sinni segir hún á einum stað um samgrh. og að hann skuli fara einn með eignaraðild ríkissjóðs: ,,Þetta finnst mér alveg ótrúlegt ákvæði og get ekki sætt mig við það. Það eru ekki nein skilyrði í lögunum um hæfni stjórnarmanna.`` Svo mörg voru þau orð, með leyfi hæstv. forseta. Ég tók þessa ábendingu hv. þm. alvarlega og það var af þeim sökum sem ég vísaði því til stjórnmálaflokkanna að þeir skyldu tilnefna menn í stjórn Pósts og síma til þess að hún nyti trausts, almenns trausts, væri byggð á breiðum grundvelli og að gengið væri nokkuð út frá því að þar væri ekki hlaupið til út frá þröngum hagsmunum eða að ekki kæmu fram öll sjónarmið. Það var af þeim ástæðum sem ég bauð formanni Alþfl. að tilnefna aðalmann og varamann fyrir hönd Alþfl. og jafnaðarmannaflokksins --- og þess vegna ef menn vilja, flokks Jóhönnu Sigurðardóttur, Þjóðvaka. En ég heyrði það í gær að þingmenn Þjóðvaka voru ekki alveg ánægðir með að formaður Alþfl. skyldi hafa farið á bak við þá með þetta. Og má raunar segja, og kom fram í ummælum hv. þm. Ástu Ragnheiðar áðan, að í hvert skipti sem hún var að skensa mig eða ríkisstjórnina var hún auðvitað að skamma fulltrúa Alþfl. í stjórn Pósts og síma. Þetta er alkunn regla. Menn skömmuðu á sínum tíma Albaníu þegar þeir voru að skamma Kína.

Það er nú þannig um hlutafélög að stjórn hlutafélaganna ber auðvitað ábyrgð á sínum gerðum og það er einungis á hluthafafundum sem handhafi hluthafa kemur að. Ég vil vekja athygli á því að þess var óskað í gær að þau sjónarmið sem lægju til grundvallar samþykkt stjórnar Pósts og síma kæmu fram í dag. Það er ítarlegt viðtal í Morgunblaðinu við formann stjórnar Pósts og síma hf. þar sem grundvallarsjónarmiðin eru skýrð. Ég var satt að segja undrandi á því að málshefjandi skyldi ekki víkja að þeim grundvallarsjónarmiðum og láta eins og þau hefðu ekki komið fram. Hann hefur kannski ekki lesið greinina. En á föstudaginn mun stjórnin hittast og í kjölfar þess mun verða gefin út yfirlýsing af hennar hálfu.

Ég vil jafnframt taka fram, af því að undan því er kvartað að ég hafi ekki gefið upplýsingar varðandi Póst og síma, að þegar við vorum að breyta stofnuninni í hlutafélag fór ég fram á, og lagði mig fram um það, að hverju sem spurt var um af samgn. yrði svarað af Póst- og símamálastofnun og mér er ekki kunnugt um að synjað hafi verið um neinar upplýsingar. Þó kom þar rækilega til umræðu hvort rétt væri að skipta landinu í eitt gjaldsvæði. Og það er svolítið athyglisvert í því sambandi, hv. frummælandi Ragnheiður Ásta, að einmitt þessi þingmaður og talsmenn Alþfl. í þeim umræðum létu uppi efasemdir um að það stæðist af Alþingi að breyta landinu í eitt gjaldsvæði. Ragnheiður Ásta segir um það, með leyfi hæstv. forseta:

(Forseti (ÓE): Það þarf að ávarpa þingmenn fullu nafni samkvæmt þingsköpum.)

Hér segir hv. þm.: ,,Ég hef efasemdir um að það standist samkeppnislög að skylda þá sem eru í rekstri síma til þess að hafa sömu gjaldskrá eða þá að þjóna öllu landinu.`` Hið sama kemur raunar fram hjá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni þegar hann gerir grein fyrir atkvæði sínu, eftir að þingmenn jafnaðarmanna höfðu setið hjá, þá endar hann með því að segja, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ég tek ekki þátt í slíkum loddaraleik og greiði því ekki atkvæði.`` Hv. þm. Ragnheiður Ásta talaði um Samkeppnisstofnun, hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson vísaði til alþjóðasamninga og Evrópusambandsins og taldi að það stæðist ekki samkvæmt þeim skilmálum sem við höfðum tekið á okkur þar, að hafa landið eitt gjaldsvæði. Það er að vísu mjög athyglisvert að maður sem er þingmaður fyrir Vatnsleysuströnd og Suðurnes skuli endilega vilja að það kosti fjórfalt að hringja frá Keflavík og Vatnsleysuströndinni til Reykjavíkur. En við tókum eftir því áðan að frummælandi, Ragnheiður Ásta Stefánsdóttir, hafði einmitt orð á því ...

(Forseti (ÓE): Þingmaðurinn heitir Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og ber að ávarpa hana fullu nafni.)

Ég þakka fyrir. Mér finnst nú hitt fallegra nafn, með leyfi hæstv. forseta. En við tókum eftir að sá ágæti þingmaður óskaði eftir því að hækkanirnar yrðu teknar til baka, en hann kallaði nú alla gjaldskrárbreytinguna hækkanir.

Við skulum aðeins víkja að öðrum atriðum. Í fyrsta lagi veit ég ekki hvaðan hv. þm. hefur það að skref hafi verið stytt í gjaldskrá símans. Það hefur hvergi komið fram og hefur ekki verið gert. (Gripið fram í.) Stytt. Það er algjör misskilningur og ég veit ekki hvaðan hv. þm. hefur það. Það sem hefur gerst er að um leið og landið er gert að einu gjaldsvæði er auðvitað óhjákvæmilegt að þau skref sem felast í afnotagjaldinu séu jafnmörg um allt land. Og það sem var í tillögum stjórnarinnar var að þau skyldu verða 200, jafnmörg og þau höfðu áður verið í Reykjavík. Þarna er því ekki verið að níðast á Reykvíkingum, þvert ofan í það sem hv. þm. sagði, sem ég veit að hann verður glaður yfir, því hann ber hag Reykvíkinga mjög fyrir brjósti en minna hag þeirra sem annars staðar eru á landinu eins og raunar jafnaðarmannaflokkurinn gerir í heild sinni og hefur þess vegna þetta nafn.

Þegar við veltum því fyrir okkur hvort þyngst hafi á heimilum gagnvart þeirri gjaldskrá sem er að taka gildi, þá er það líka algjörlega rangt. Breytingin mun kosta Póst og síma 380 millj. kr. og verulegur hluti af því kemur einmitt í hlut heimilanna. Sumir eru að reyna að halda því fram að mikill mismunur sé eftir kjördæmum hvernig þessar breytingar leggjast á ef litið er á heildina. Ég vakti athygli á því úr þessum ræðustól fyrir einu og hálfu ári að Reykjavík væri þar svona í miðjum klíðum --- að lægstur símakostnaður á heimili á þeim tíma væri í Norðurlandskjördæmi eystra, og breyting af þessu tagi mundi af þeim sökum bitna þyngst á því kjördæmi sem á sínar eðlilegu skýringar. Ef við horfum á landið allt og Reykjavík núna kemur í ljós að það munar rétt um 10 kr. á mánuði á Reykjavík og á landsbyggðinni. Rúmum 10 kr. --- 11 kr. ef maður er nákvæmur. Og það réttlætir auðvitað ekki neinar þeirra upphrópana sem hv. þm. var með. Hv. þm. var að tala um að á meðan ég var samgrh. hefðu símgjöld hækkað mjög í landinu. Þau hækkuðu ekki um eina einustu krónu frá september 1993 til desember 1996 á meðan verðbólga geisaði í landinu.

Ég vil líka segja þegar spurt er um hagnað Pósts og síma að ég var rækilega spurður að því í þingsölum, bæði í ræðum og líka í andsvörum, hvort ég gæti með einhverjum hætti tryggt það að Póstur og sími hf. yrði í framtíðinni sama mjólkukýrin fyrir ríkissjóð og Póst- og símamálastofnun hefði verið. Þetta var sú krafa sem kom frá stjórnarandstöðunni á þeim tíma.