Gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 14:05:21 (906)

1997-11-04 14:05:21# 122. lþ. 18.93 fundur 74#B gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.# (umræður utan dagskrár), MS
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[14:05]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Samkvæmt fjarskiptalögum sem samþykkt voru á Alþingi 1996 er kveðið á um að landið skuli vera eitt gjaldsvæði eigi síðar en 1. júlí 1998. Notkunargjald fyrir talsímaþjónustu skuli vera það sama alls staðar á landinu og þar með verði langlínugjaldtaka lögð af. Um þetta hefur verið áralöng umræða og hefur landsbyggðarfólk um langt árabil barist fyrir jöfnun símakostnaðar í landinu. Í þeirri umræðu hefur verið bent á að vegna mjög mismunandi símgjalda hafi landsbyggðarfólk í raun verið að greiða niður símgjöld þéttbýlisbúa í gegnum tíðina. Um þetta má sannarlega deila. En á nokkrum undanförnum árum hefur þróun gjaldsvæða símans hnigið að því að landið verði eitt gjaldsvæði. Nú er þessum langþráða áfanga náð því frá 1. nóv. sl. er Ísland eitt símagjaldsvæði. Við slíka aðgerð hlýtur öllum að vera ljóst að til að færa saman gjaldtaxta langlínu- og staðarsímtala kallar lækkun langlínugjalda á hækkun staðartaxta til samræmis. Slíkar aðgerðir hljóta alltaf að verða umdeilanlegar sérstaklega að því sem snýr að hækkun símgjaldanna.

Okkur Íslendingum er gjarnt að miða lífsgæði okkar og samfélag við það sem gerist best hjá öðrum þjóðum. Að því er varðar símgjöld er ljóst að ekkert land í okkar heimshluta getur státað af jafnlágum símgjöldum og Ísland. Á sama hátt höfum við verið fremstir í flokki við að byggja upp öflugt og tæknilega gott símkerfi. Í því sambandi er nauðsynlegt að rifja upp að Íslendingar urðu fyrstir til að byggja upp algjörlega stafrænt símkerfi og tóku þannig forustu í tæknilegri uppbyggingu.

Til að viðhalda hinu góða símkerfi og byggja það frekar upp, t.d. með lagningu ljósleiðara um landið, er nauðsynlegt að afkoma Pósts og síma sé þannig að fyrirtækið geti fjármagnað þá uppbyggingu sem mest með eigin fé. Margir sjá ofsjónum yfir miklum hagnaði fyrirtækisins en í því sambandi er nauðsynlegt að hafa þessa uppbyggingu símkerfisins í huga jafnframt því að fyrirtækið geti greitt skatta og arð til eiganda síns sem er hinn sameiginlegi sjóður landsmanna.

Herra forseti. Því ber að fagna að áralangt baráttumál landsbyggðarfólks um að allir landsmenn beri sömu símgjöld hvar sem þeir búa á landinu er í höfn. Jafnframt hljótum við að leggja áherslu á að símgjöld innan lands verði áfram þau lægstu í okkar heimshluta og þannig verði stuðlað að því að íslensk heimili búi við sem minnst útgjöld vegna heimilisþarfa. Á sama hátt er okkur mikilvægt að gjöld fyrir millilandasímtöl hafa lækkað. Það skiptir okkur mjög miklu máli fyrir samskipti við umheiminn og samkeppnisstöðu okkar á alþjóðlegum vettvangi. Einnig má benda á að meira en fjórðungur símtala íslenskra heimila er við önnur lönd. Lækkun gjalda fyrir millilandasímtöl minnkar því útgjöld margra heimila verulega. Í mjög náinni framtíð hlýtur Póstur og sími hf. að bjóða viðskiptavinum sínum sveigjanlegri viðskiptakjör en nú tíðkast, t.d. afsláttarkjör fyrir internetnotendur sem þurfa eðlilega að vera langtímum saman í sambandi við netið um símkerfið. Þetta tel ég mikilvægt að verði fljótlega því miklu máli skiptir t.d. fyrir menntakerfið að geta hagnýtt sér internetið sem mest með sem minnstum tilkostnaði. Loks má benda á að framtíðarhagsmunir landsbyggðarinnar felast m.a. í þeim möguleikum sem internetið býður upp á og því er afar áríðandi að Póstur og sími bjóði sem fyrst upp á sveigjanlegri viðskiptakjör til viðskiptavina sinna en verið hefur.