Gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 14:18:04 (909)

1997-11-04 14:18:04# 122. lþ. 18.93 fundur 74#B gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[14:18]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Þetta er að verða svolítið sérkennileg umræða vegna þess að það er eins og hv. stjórnarandstæðingar reyni að forðast að ræða um það hvað þetta mál í raun og veru snýst um.

Í fyrsta lagi hefur verið tekin ákvörðun um að jafna símakostnað. Það var ákveðið hér á Alþingi með breytingum á fjarskiptalögunum að það yrði gert í síðasta lagi um mitt næsta ár. Nú er búið að taka ákvörðun um að stíga þetta skref til fulls strax. Um það var að vísu deilt á Alþingi hvernig ætti að standa að þessu og það var athyglisvert að fulltrúar stjórnarandstöðunnar lögðu á það höfuðáherslu að það væri bara fyrirtækið Póstur og sími hf. sem ætti að taka slíka jöfnun að sér, en það var sem betur fer niðurstaða Alþingis að þetta yrði sett með almennum hætti inn í fjarskiptalögin og þannig stendur það. Þetta hefur orðið til þess að nú er loksins búið að stíga hið langþráða skref um jöfnun símakostnaðar sem er búið að vera baráttumál þingmanna hér árum og áratugum saman.

Í öðru lagi er búið að taka ákvörðun um lækkun á erlendum símtölum um 22%, nærri fjórðung. Það liggur fyrir að heimili noti umtalsverðan hluta af þessum símtölum. Ætli það muni ekki um þetta í buddum almennings í landinu?

Í þriðja lagi liggur fyrir að búið er að afnema langlínutaxtana sem voru upp á 18 kr. á mínútu fyrir tíu árum síðan, 18 kr. Þetta hefur sem betur fer farið smám saman lækkandi. Fram í desember sl. var þessi taxti um 6 kr. Þaðan í frá um 4 kr en verður 1,56 kr. frá og með næsta föstudegi væntanlega. Hvað þýða þessar breytingar? Það mætti halda, þegar maður hlustar á talsmenn stjórnarandstöðunnar, að lækkun á þessum sviðum þýði hækkun þegar það liggur fyrir samkvæmt útreikningum að þetta þýðir 400 millj. kr. betri kjör fyrir símnotendur, bæði fyrirtæki og almenning. Það er undarlegt að hlusta síðan á málflutning af þessu taginu, upphrópanir og útúrsnúninga um að verið sé að rýra kjör almennings í landinu þegar það liggur fyrir að verið er að bæta kjör almennings og fyrirtækja í landinu um 400 millj. kr. Er þetta kannski tilefni til stóryrðanna?

Ég verð síðan að vekja athygli á því sem hefur líka komið fram í þessari umræðu, að símgjöldin hér á landi eru þau lægstu sem þekkjast á byggðu bóli í veröldinni. Það liggur fyrir að símgjöldin, hvernig sem á það er litið, eru þau lægstu. Það hefur komið m.a. fram í máli hv. talsmanna stjórnarandstöðunnar þegar verið var að formbreyta Pósti og síma og þá sögðu þeir: ,,Þetta sýnir að það á ekki að breyta Pósti og síma, vegna þess að við höfum svo lág og góð símgjöld.`` Nú er enn verið að lækka þessi símgjöld en samt sem áður rjúka menn til og láta eins og þeir taki ekki eftir því að það er verið að lækka símgjöldin alls um 400 millj. kr. Þetta er undarlegur málflutningur.