Gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 14:21:00 (910)

1997-11-04 14:21:00# 122. lþ. 18.93 fundur 74#B gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[14:21]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Við erum að ræða um stórfellda hækkun á gjaldskrám Pósts og síma. Þetta hefur valdið mikilli reiði í þjóðfélaginu enda ekki að undra þegar í ljós kemur ákvörðun um að hækka innanlandssímtöl, t.d. hér á Reykjavíkursvæðinu, um 124% á tæpu ári. Menn hafa hneykslast yfir minna. En sú atburðarás sem við höfum orðið vitni að í tengslum við Póst og síma hefur þegar verið skráð. Hún var skráð fyrir nokkrum árum þegar umræðan stóð sem hæst um það hvort það ætti að breyta Pósti og síma í hlutafélag og þá umræðu er að finna í ótal blaðagreinum og hana er að finna í málgögnum starfsmanna Pósts og síma, svo sem í Símablaðinu.

Þessi saga var ekki skráð af þeim sem vildu breyta Pósti og síma í hlutafélag heldur hinum sem vöruðu við því og gagnrýndu þessar breytingar. Þeir bentu á reynsluna erlendis frá sem sýndi að í kjölfar breytinga á rekstrarformi fylgdu jafnan hækkanir til notenda póst- og símaþjónustunnar auk þess sem leynimakk yrði alls ráðandi og nú hefur þetta allt saman gengið eftir.

Hér fyrr á tíð og fram á þennan dag hafa Íslendingar búið við ódýrustu innanlandssímþjónustu í heiminum og með tækniframförum og fjárfestingum höfðu verið sköpuð skilyrði fyrir enn frekari lækkun á þessari þjónustu. Sama á reyndar um við millilandasímtöl. Tilkostnaðurinn við að veita þá þjónustu hefur hrunið á undanförnum árum án þess að þetta hafi skilað sér til notenda þjónustunnar.

Sú breyting að gera landið að einu gjaldsvæði er bæði sjálfsögð og hún er jákvæð. Þetta er sjálfsagt réttlætismál en einnig er þetta sjálfsagt í ljósi þess að tæknin hefur gert það að verkum með sjálfvirku símkerfi á landsvísu að tilkostnaðurinn við símtöl á milli landshluta er nú sá sami og innan einstakra landsvæða. Fjárfesting við þessar tækniframfarir var gerð áður en stöfunum hf var bætt aftan við Póst og síma.

Skammstöfunin hf. á að standa fyrir hlutafélag en spyrja má hvort yfirstjórn Pósts og síma og samgrh. sem handhafi eina hlutabréfsins í fyrirtækinu, standi í þeirri trú að háið standi fyrir hroka og effið fyrir fyrirlitningu því framkoman við gjaldskrárbreytinguna núna hefur verið með slíkum endemum að almenningur stendur agndofa gagnvart valdhrokanum. Að þessu leyti hefur breytingin á Pósti og síma í hlutafélag orðið jafnvel enn verri en mestu efasemdarmenn spáðu um. Þetta ætti að verða okkur öllum umhugsunarefni varðandi frekari eftiröpun á erlendum mistökum. Það verður svo fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum hæstv. samgrh. á morgun þegar hann svarar fyrirspurn minni um launakjör yfirmanna Pósts og síma.