Gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 14:24:34 (911)

1997-11-04 14:24:34# 122. lþ. 18.93 fundur 74#B gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.# (umræður utan dagskrár), GMS
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[14:24]

Gunnlaugur M. Sigmundsson:

Herra forseti. Með nýgerðri gjaldskrárbreytingu hjá Pósti og síma hefur þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að hlutafélagavæða ríkisstofnanir verið unnið mikið ógagn. Sú verðhækkun sem Póstur og sími hefur sett í gang hefur átt sér stað á mjög neikvæðan hátt, verið illa útskýrð og sennilega illa ígrunduð og ýtt af stað röð af neikvæðum hlutum.

Í fyrsta lagi er hækkunin fráleit og ekki í neinu samræmi við þann raunveruleika sem íslensk fyrirtæki standa frammi fyrir þar sem menn þurfa að lækka kostnað til þess að bæta afkomu sína, ekki að hækka tekjur. Íslenski raunveruleikinn er sá að það er einfaldlega ekki hægt að hækka tekjur, menn verða að lækka kostnað.

Í öðru lagi er rangt farið með staðreyndir þegar reynt er að réttlæta þessa hækkun út frá því að nú sé landið orðið eitt gjaldsvæði. Það hefur ekki verið sýnd nein sönnun, ekki ein einasta sönnun þess að það sé dýrara í dag að tala milli svæða, að nota langlínusamtöl heldur en innan svæða. Og eftir að þessi ljósleiðari kom til --- ég held að menn ættu að muna að Póstur og sími greiddi ekki fyrir hann, heldur fengu gefins þennan ljósleiðara --- þá er talið ódýrara, og ég les það út úr Morgunblaðinu í dag að það sé í rauninni ódýrara, að flytja langlínusamtöl heldur en samtöl innan sama svæðis.

Í þriðja lagi hefur dreifbýli og þéttbýli verið att saman og það er mjög óheppilegt í dag að vera að stuðla að því.

Í fjórða lagi finnst mér sú röksemd hæstv. ráðherra að réttlæta þessa hækkun með því að Póstur og sími standi frammi fyrir samkeppni sé mjög óheppileg, þ.e. að taka þannig til orða. Þegar fyrirtæki standa frammi fyrir samkeppni, hæstv. ráðherra, þá lækka þau, þau lækka til þess að hindra öðrum fyrirtækjum að komast að. Ef menn hækka verðið áður en nýr aðili kemur inn á markaðinn, þá eru menn að gefa merki um að þeir ætli að fara í tvíkeppni, í ,,duopol``, þar sem báðum líður vel við hátt verð. Það er það merki sem mér sýnist að sé verið að senda hér út á markaðinn.

Síðan er mjög alvarleg staða komin upp. Hver stýrir í raun og veru Pósti og síma? Er það stjórn fyrirtækisins? Er það ráðherra? Hvaða ráðherra? Og stjórn fyrirtækisins hlýtur að þurfa að skoða það vel. Vill hún stýra fyrirtækinu sjálf? Ef hún gerir það, þá væntanlega stendur hún við þessa ákvörðun sem hún er búin að taka. Ef hún ætlar ekki að stýra því, þá bíður ráðherra ekkert annað en að kalla saman hluthafafund og breyta um stjórn. Hvor leiðin sem farin verður, þá er málið klúður.

Það sem er jákvætt í málinu er það frumkvæði sem forsrh. tók og ber að þakka fyrir það. Forsrh. sýndi að hann er ekki alltaf hræddur við að hlusta á grasrótina og hann gerði það í þessu tilviki. Hann hlustaði á grasrótina. Hann skynjaði hvernig þjóðin hugsaði í þessu máli og þjóðin ætlast til þess að þessar hækkanir séu teknar til baka og menn mæti samkeppninni með því að lækka kostnaðinn hjá Pósti og síma, ekki að velta þessu út í verðlagið.