Gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 14:34:43 (914)

1997-11-04 14:34:43# 122. lþ. 18.93 fundur 74#B gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.# (umræður utan dagskrár), TIO
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[14:34]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Íslendingar standa mjög framarlega í nýtingu upplýsinga- og fjarskiptatækni. Ef marka má nýjustu upplýsingar þar að lútandi eru Íslendingar í forustusveit Evrópuþjóða hvað varðar tengingu við internetið og standa þar aðeins að baki Finnum. Þannig hafa Íslendingar nýtt sér nettengingar til að komast í þjóðbraut.

Það er ekki og var ekki síður brýnt að nýta þessa tækni til þess að bæta samskiptaaðstöðu þeirra Íslendinga sem búa fjærst höfuðborgarsvæðinu. Það var því orðið fyllilega tímabært að gera landið allt að einu gjaldsvæði. Sú ákvörðun var í fullu samræmi við yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum upplýsingasamfélagsins, en þar segir með leyfi hæstv. forseta:

,,Stjórnvöld auðveldi með hjálp upplýsingatækninnar aðgang að opinberum upplýsingum og þjónustu til að jafna aðstöðu einstaklinga og fyrirtækja óháð búsetu og efnahag.``

Það skiptir meginmáli og er áréttað í stefnu ríkisstjórnarinnar að tryggja að kostnaður almennings og fyrirtækja af gagnaflutningi verði í lágmarki. Í umræðunni hefur það komið í ljós að Íslendingum býðst ódýrasta netþjónusta í Evrópu. Við eigum mikið undir því að upplýsinga- og fjarskiptatækni verði nýtt til hins fyllsta til þess að bæta aðstöðu einstaklinga og fyrirtækja til að gera sig gildandi á sviði viðskipta og mennta. Þannig getum við dregið úr þeim kostnaði sem fylgir því að Ísland er fjarri öðrum löndum. Við getum einnig bætt aðstöðu þeirra landsmanna sem lifa og starfa fjarri þeirri þjónustu sem býðst á höfuðborgarsvæðinu. Í þessu sambandi tel ég nauðsynlegt að skoða hvort það sé ekki í anda samþykktar Alþingis um að landið skuli vera eitt gjaldsvæði að þeir sem selja netþjónustu hvar sem er á landinu greiði sama gjald fyrir það sem hafa verið kallaðir hnútpunktar og þeir sem starfa í Reykjavík.

Þá ber einnig að athuga hvort ekki er nauðsynlegt að Póstur og sími bjóði upp á einhvers konar heildsölu á tengingum við gáttir þar sem þjónustuaðilar sitja við sama borð og Póstur og sími. Með því næðist það markmið að allir, hvar sem þeir búa á landinu og hvar sem þeir starfa, eigi aðgang að netgáttum á jafnréttisgrundvelli, bæði endanlegir neytendur og þjónustuaðilarnir. Upplýsingatæknin og þær framfarir sem orðið hafa í fjarskiptum skapa í raun sérstök sóknarfæri í menntun og atvinnulífi fyrir landsbyggðina en forsendan fyrir því er að þjónustuaðilum sé ekki mismunað eftir fjarlægðum frá höfuðborgarsvæðinu. Ljóst er að slík mismunun á sér ekki neinar raunverulegar forsendur lengur.

Tengsl Íslendinga við umheiminn með upplýsingatækninni og fjarskiptum eru að verða grundvallarþáttur í lífskjörum fólksins í landinu og aðstöðu fyrirtækjanna við að standa sig í alþjóðlegri samkeppni. Það skiptir því miklu máli að það sé mörkuð skýr stefna og hún hefur verið mörkuð, en það skiptir líka miklu máli að tryggt sé að henni sé framfylgt. Þegar stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum upplýsingasamfélagsins var mótuð var ákveðið að forsrn. færi með yfirstjórn þeirra þátta sem lúta að heildarsýn yfir framkvæmd stefnunnar. Þannig er gert ráð fyrir því að forsrh. hlutist til um málefni upplýsingasamfélagsins og gæti þess að stefnunni sé framfylgt. Eins og skýrt hefur komið fram í þessari umræðu hafa forsrh. og samgrh. leitt málið fram þannig að tryggt er að Íslendingar haldi áfram að vera í hópi þeirra þjóða sem eru í fararbroddi á þessu sviði.