Gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 14:48:19 (918)

1997-11-04 14:48:19# 122. lþ. 18.93 fundur 74#B gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.# (umræður utan dagskrár), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[14:48]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Mér finnst þessi umræða hafa leitt í ljós að hæstv. samgrh. er ekki starfi sínu vaxinn. Ræða hans hér áðan sýndi að hann svaraði í engu þeirri gagnrýni sem var borin fram í upphafi af hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur. Ég sé sérstaka ástæðu til þess að vekja athygli á því að fullyrðing forsvarsmanna Pósts og síma, að gjaldskrárbreytingin mundi leiða til tekjutaps, er röng. Sérfræðingar Viðskiptablaðsins, sem er eina sérhæfða viðskiptablaðið hér á landi, hafa gert úttekt á þessari gjaldskrárbreytingu og sú úttekt verður birt í blaðinu á morgun. Þar kemur fram að gjaldskrárbreytingin muni ekki leiða til tekjutaps heldur þvert á móti til tekjuaukningar upp á 150 millj. kr. Þetta byggir á vandaðri úttekt þar sem fram kemur bæði hin góða staða og mikill hagnaður Pósts og síma auk þess sem farið er ofan í forsendur þessarar gjaldskrárbreytingar. Forsenda Pósts og síma, að notkunin verði óbreytt þrátt fyrir hækkun gjalda, er röng, einfaldlega vegna þess að það er mikill vöxtur í símanotkun. Þetta sýnir að Póstur og sími gerði mikil mistök í málinu öllu þegar hann lagði upp með það. Svo kemur fram í viðtali við stjórnarformann Pósts og síma í Morgunblaðinu í morgun að hér sé kynningunni ábótavant. Á að reka kynningarfulltrúann? Á að segja Hrefnu Ingólfsdóttur upp? Er það svar þeirra manna sem stjórna fyrirtækinu? Ætla þeir að koma sér þannig út úr málunum, bæði stjórnin og ráðherra? Einhvern tíma hafa menn hengt bakara fyrir smið og það getur vel verið að menn ætli að gera það aftur í þetta sinn.

Hæstv. samgrh. svaraði engu um það af hverju vilji hans til breytingar á gjaldskránni nái ekki fram að ganga. Af hverju er verið að bíða alla vikuna eftir stjórnarfundi? Af hverju er þá ekki gjaldskránni breytt strax? Þetta sýnir að þeir sem eru við stjórnvölinn í þessu fyrirtæki eru ekki starfi sínu vaxnir. Og ég held að hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson, stjórnarþingmaður, hafi lýst þessum málum ákaflega vel hér áðan, enda er hann einn af þeim þingmönnum sem hefur þekkingu á þessu símaumhverfi sem hér er verið að tala um. Það hefur einnig komið fram að virk samkeppni er vitaskuld mjög nauðsynleg í þessum þáttum en það versta sem við höfum er þessi yfirburðastaða ríkisfyrirtækja, hvort sem sett er hf. fyrir aftan eða ekki, eins og kom fram í vandaðri úttekt í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins um síðustu helgi.

Mér finnst, herra forseti, að ráðherrann hafi í engu svarað gagnrýninni og ég varð fyrir miklum vonbrigðum með svar ráðherra því hann fékk tíma. Hann bað sjálfur um tíma. (Forseti hringir.) Hann þorði ekki í umræðu í gær og þá átti maður von á vönduðum málflutningi og vönduðu svari frá hæstv. ráðherra. Það hefur ekki komið fram í þessari umræðu.