Gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 14:55:44 (920)

1997-11-04 14:55:44# 122. lþ. 18.93 fundur 74#B gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[14:55]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu um málefni fjarskipta og símans og vona að þetta sé bara upphafið á þeirri umræðu sem verður að fara fram um stefnumótun í þessum málaflokki. En ég get því miður ekki þakkað hæstv. ráðherra fyrir svörin við spurningum mínum því hér voru engin svör þrátt fyrir það að samgrh. hafi fengið þann umþóttunartíma sem hann fór fram á þegar umræðunni var frestað um heilan sólarhring. Auðvitað dæmir málflutningur eins og sá sem ráðherrann var með hér í ræðustóli Alþings sig sjálfur. Þetta dæmir sig sjálft og þetta er aðferð sem menn nota þegar þeir eru með vondan málstað að verja, þegar þeir eru rökþrota. Og það er greinilegt að hæstv. samgrh. er á flótta í málinu.

Ég vil samt fagna því að ekki eru allir stjórnarþingmenn heillum horfnir í þessu máli. Ég fagna málflutningi hv. þm. Gunnlaugs Sigmundssonar og einnig því að það örlar á skilningi í þessum málaflokki hjá varaformanni stjórnar Pósts og síma, hv. þm. Magnúsi Stefánssyni. En aðrir taka undir það litla sem ráðherrann hafði að segja sem reyndar var eins og nátttröll í þessari umræðu allri. Það hefur enginn verið á móti því að jafna símakostnað hér á landi en sá misskilningur kom upp í ræðu einhverra. Við vorum öll sammála um það en við vorum ekki tilbúin að skattleggja heimilin og skattleggja þá sem nota nútímaupplýsingatækni við nám og störf til þess að jafna hann. Póstur og sími skilar það miklum hagnaði að það á að vera hægt að jafna símakostnaðinn.

Allur málflutningur stjórnvalda í þessu máli er náttúrlega með eindæmum og það er greinilegt að forsrh. verður að gefa sér klukkutíma í viðbót með samgrh. til þess að koma gjaldskránni niður og draga alla þessa hækkun til baka. Það tók klukkutíma að ná henni niður til hálfs og ég held, herra forseti, að hæstv. forsrh. þurfi að gefa sér klukkutíma í viðbót með samgrh. til þess að leiðrétta þetta mál allt saman.

Hér var óskað eftir upplýsingum á Alþingi og hæstv. ráðherra telur að það sé fullnægjandi að senda skósvein sinn, stjórnarformann Pósts og síma, í Morgunblaðið með afsökunarbeiðni. Það er auðvitað ekki boðlegt og þingið á ekki að taka slíkt til greina. Ef óskað er eftir upplýsingum frá ráðherranum hér þá ber að veita þær hér, hæstv. ráðherra.

Úttektin í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins segir allt sem segja þarf í þessu máli og umræða um þessi mál þarf að fara hér fram. Það þarf að fara fram málefnaleg umræða um samkeppnismálin, um eftirlit, um skilgreiningar, um reglur og lög, um breiðbandsmálin, um launamál innan Pósts og síma og fleira og fleira. Það er ljóst af þeim atburðum sem hér hafa verið undanfarið að öll framtíðarstefna stjórnvalda í þessum málum er í algjöru skötulíki. Við skulum gera okkur grein fyrir því að hér er stórmál á ferðinni sem varðar atvinnumál þjóðarinnar til allrar framtíðar og það er mál sem við þurfum að ræða, stóralvarlegt mál.

Í lokin vil ég nefna eitt: Það var dálítið sérkennilegt í annars furðulegum málflutningi hæstv. samgrh. að hann skyldi alltaf tala um sjálfan sig sem ráðherra í fortíð eða þátíð og ég velti því fyrir mér: Hvað skyldi það boða?

(Gripið fram í: Forseti vill beina því til hv. þm. að gæta hófs í orðavali og samlíkingum.)