Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 15:23:39 (924)

1997-11-04 15:23:39# 122. lþ. 18.7 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál., RA
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[15:23]

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Hæstv. samgrh. hefur mælt fyrir till. til þál. um flugmálaáætlun fyrir árin 1998--2001. Hér er um að ræða reglulega aðalendurskoðun flugmálaáætlunar, en seinasta tímabil flugmálaáætlunar náði yfir árin 1996--1999 og endurskoðun fer síðan fram á tveggja ára fresti. Reyndar fór það svo að í fyrra fór fram aukaendurskoðun flugmálaáætlunar fyrir það ár.

Á undanförnum árum hefur það mjög verið gagnrýnt að gjöld þau sem lögð eru á flugfarþega og innheimt við sölu flugfarseðla skuli ganga í stórauknum mæli til rekstrar Flugmálastjórnar í stað þess sem upphaflega var ráð fyrir gert, að fé þessu yrði öllu varið til fjárfestinga og til uppbyggingar flugvalla. Þegar regluleg aðalendurskoðun á flugmálaáætlun fór fram fyrir tveimur árum var gert ráð fyrir því að á árinu 1996 yrði um að ræða 190 millj. kr. framlag til rekstrarþarfa Flugmálastjórnar en síðan átti þetta framlag að fara lækkandi og vera 100 millj. þaðan í frá. Menn voru sem sagt huggaðir á því á sínum tíma að það yrði ekki nema þetta eina ár sem svona stór upphæð yrði ætluð til rekstrar en síðan færi það lækkandi sem ætlað yrði til rekstrar. En svo hefur þetta verið að breytast og þetta 190 millj. kr. framlag á hverju ári hefur haldið sér og þó að í flugmálaáætlun fyrir árin 1996--1999 væri gert ráð fyrir því að á árinu 1998 yrði einungis um að ræða 100 millj. kr. til rekstrar, þá sjáum við núna flugmálaáætlun þar sem talan er enn 190 millj. og á að vera á næsta ári 145 millj. og það er ekki fyrr en árið 2000 sem á að lækka þetta í 100 millj. þannig að þessu ýta menn stöðugt á undan sér og greinilegt er að ekki er mikill vilji til þess að leiðrétta það sem misgert hefur verið í þeim efnum.

Ég tel að hér sé verið að koma aftan að þeim sem mest þurfa að nota þessa þjónustu. Það var ekki ætlunin að þessu fé yrði varið til hins almenna rekstrar Flugmálastjórnar heldur átti að hraða framkvæmdum og fjárfestingum um allt land með þessu sérstaka flugvallargjaldi og ég tel það mjög miður farið að svo stórum hluta þessara tekna sé varið til hins almenna rekstrar.

Staðreyndin er sú að verkefnin sem sinna þarf eru gríðarleg á sviði flugmála. Ég ætla ekki að fara að ræða hér um einstakar fyrirhugaðar framkvæmdir á næstu árum enda verður tillagan til meðferðar í hv. samgn. En mér kemur ekkert á óvart þó að verulegum hluta þess fjár sem ætlað er til framkvæmda verði varið til uppbyggingar flugvallarins hér í Reykajvík sem vissulega er aðalflugvöllur landsins. Þetta er aðalinnanlandsflugvöllurinn, einnig varaflugvöllur fyrir millilandaflugið og ástand þessa flugvallar er mjög bágborið eins og margir þekkja. Menn minnast skýrslunnar sem Almenna verkfræðistofan sendi frá sér í marsmánuði 1995 þar sem gerð var úttekt á ástandi flugvallarins og nefndir valkostir um framkvæmdir, bent á mjög slæmt ástand flugbrautanna og auðvitað er þetta verkefni orðið afar brýnt og hefur dregist úr hófi fram. Ég tel að það sé landsmönnum öllum og ekkert síður fólki í fjarlægum byggðum landsins mjög brýnt að fá hér úrbætur og fá hér viðunandi innanlandsflugvöll.

Því er ekki að leyna að einnig á hinum smærri flugvöllum eru fjöldamörg óunnin verkefni og auðvitað gjalda þeir fyrir það að ekki skuli fást meira fé til fjárfestinga í flugmálum.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni en ítreka það sem ég hef hér sagt að eðlilegast væri að öllu fé sem inn kemur af því sem innheimt er af flugfarþegum sé varið til fjárfestinga og til endurbóta á flugvöllum eins og upphaflega var ráð fyrir gert. Og sé það ekki gert finnst mér hitt þá koma alveg eins til greina að lækka þetta gjald og lækka þar með flugfargjöldin vegna þess að auðvitað er þetta gjald mikil byrði á flugfarþegum og auðvitað mundi þjónustan verða verulega miklu ódýrari ef þetta gjald lækkaði. Það að nota þetta gjald að stórum hluta til þess að laga fárhagsstöðu ríkisins er í engu samræmi við þau loforð sem gefin voru þegar gjaldið var á lagt.