Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 15:42:20 (929)

1997-11-04 15:42:20# 122. lþ. 18.7 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[15:42]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg tilbúinn til að hitta hæstv. samgrh. sem einn af flugráðsmönnum og ræða við hann. Ég taldi þó að ekki væri ástæða til með tilliti til þess sem þegar liggur fyrir, þ.e. skýrslu Flugmálastjórnar sem var unnin árið 1995 um ástand flugbrauta, akbrauta og flughlaða þar sem fram kemur að standard Reykjavíkurflugvallar er á mörkum þess sem Alþjóðaflugmálastofnunin gerir kröfu til um öryggisstuðul, þannig að það þarf ekki í sjálfu sér að tala við mig sem flugráðsmann. En ég er alveg tilbúinn til þess að hitta samgrh. þegar hann óskar þess og ég vænti þess að aðrir aðilar í flugráði séu tilbúnir til þess.

Einhvern veginn kemur þetta nú þannig út eins og eitthvert sambandsleysi sé á milli hæstv. samgrh. og flugráðs. Svo er ekki. Þessi skýrsla liggur í hans höndum og hjá hans ágæta starfsfólki í samgrn. Ég held að það sem þurfi að gera hér sé að stilla saman strengina vegna þess sem ég gat hér um áðan, vegna öryggisþáttarins, vegna 400 þúsund farþega sem eiga eftir að leggja leið sína um Reykjavíkurflugvöll á næsta ári. Þetta er ekkert smámál. Ég er tilbúinn, hvort sem er að degi eða nóttu, hæstv. samgrh., að hitta þig í ráðuneytinu með ágætum flugráðsmönnum og ég trúi ekki öðru en sameiginlega getum við leyst þetta mál og fengið einhvers staðar fjármagn til þess að hefja framkvæmdir ekki síðar en á miðju næsta ári.