Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 15:44:08 (930)

1997-11-04 15:44:08# 122. lþ. 18.7 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál., SvG
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[15:44]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs út af málefnum Reykjavíkurflugvallar. Ég vil segja í fyrsta lagi að mér finnst mjög athyglisvert að hlusta á þau orðaskipti sem fóru fram á milli hv. 10. þm. Reykv., sem jafnframt á sæti í flugráði, og hæstv. samgrh.

Staðreyndin er sú að það væri hægt, hvað sem deiliskipulaginu líður, að hefjast handa um framkvæmdir við endurbætur á flugvellinum strax í dag og það var niðurstaða af fundi sem borgaryfirvöld hafa m.a. átt með Flugmálastjórn fyrir ekki mörgum dögum þannig að það er fyrirsláttur að bera við skorti á deiluskipulagi sem auk þess er verið að ganga frá. Það er hreinn fyrirsláttur og það er rangt sem stendur í greinargerð frv. um þau efni. Það er beinlínis rangt.

[15:45]

Af hverju er ekki hægt að hefjast handa núna? Það er vegna þess að það er ágreiningur á milli Flugmálastjórnar annars vegar og borgaryfirvalda í Reykjavík hins vegar um eina tiltekna flugbraut sem er hluti af þessu verki og það mætti hugsa sér að það yrði farið í aðra þætti þess, burt séð frá þessum ágreiningi. Um hvað er ágreiningurinn og er hann nýr? Svarið er: Hann er gamall þessi ágreiningur og er búinn að vera við borgaryfirvöld um margra ára ef ekki áratuga skeið eins og ég veit að hv. 10. þm. Reykv. þekkir vel sem fyrrverandi borgarfulltrúi.

Hér um að ræða braut sem kölluð er braut 07/25 og er brautin sem er þannig að aðflug að henni liggur yfir Norðurmýrina og Landspítalann. Það hefur alltaf verið skoðun borgaryfirvalda, hvort sem það er núverandi meiri hluti eða fyrrverandi meiri hluti, að það væri óeðlilegt að hafa þessa braut eins sem hún hefur verið. Flugleiðir hafa aftur á móti haldið því fram að þessi braut væri óhjákvæmileg vegna aðstæðna í ákveðnum vindáttum og vegna þess að það er auðvitað þannig að ef hún væri ekki til þá yrði að nota braut annars staðar og þá væntanlega í Keflavík. Snúningspunkturinn í þessu máli er um það hvort samgrn. hefur átt viðræður við utanrrn. um að sú braut sem um er að ræða á Keflavíkurflugvelli sem varabraut tæki við af braut 07/25. Um það snýst málið efnislega. Hér er um að ræða örfáar milljónir króna og engan veginn eins stóra upphæð og menn gætu ímyndað sér. Ég hef heyrt að upphæðin sé talsvert innan við 10 millj. kr. sem það mundi kosta að gera endurbætur á Keflavíkurflugvelli til að þjóna því flugi sem ella mundi í undantekningartilfellum nota þessa braut 07/25 þar sem um er að ræða aðflug yfir Landspítalann og Norðurmýrina. Og hér er ekki um það að ræða að það þýði fyrir hæstv. samgrh. að ætla sér að setja á einhverjar deilur við núverandi meiri hluta í Reykjavík. Hér er um að ræða samstöðu allra flokka í stjórn Reykjavíkurborgar sem hefur verið um mjög margra ára skeið, eins lengi og ég man eftir í sambandi við stjórn Reykjavíkurborgar.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. samgrh. að því sem mér finnst kannski vera aðalatriðið: Er hann tilbúinn að beita sér fyrir þeim viðræðum við utanrrn. að tekin verði í notkun flugbraut á Keflavíkurflugvelli sem kæmi í staðinn fyrir braut 07/25? Um það snýst deilan á milli borgaryfirvalda, það er alveg rétt, og sérstaklega Flugleiða í þessu sambandi. En samgrn. er auðvitað fyrst og fremst samgönguráðuneyti allra landsmanna í máli af þessu tagi og hlýtur að horfa á hlutina þannig. Ég vil því í allri vinsemd spyrja hæstv. samgrh.: Hefur hann hafið viðræður við utanrrn. í þessu efni til þess að losa Reykjavíkurflugvöll við þessa flugtraffík, sem er þyrnir í augum borgaryfirvalda af öryggisástæðum og fleiri ástæðum sem ég hef að nokkru leyti rakið hér en ætla ekki að fara nánar út í því það er óþarfi?

Ég vil síðan spyrja hæstv. samgrh. í öðru lagi: Er það skoðun hans að deiliskipulagið ráði úrslitum í þessu máli? Ef það er bara deiliskipulagið þá held ég að málið liggi þannig að það geti verið til hvenær sem er núna næstu vikur. Ég held reyndar að það skipti engu máli í þessu dæmi en segjum að það sé það sem hindrar. Ef það lægi fyrir, væri ráðherrann þá tilbúinn til þess að tryggja það að fjármunir færu í Reykjavíkurflugvöll á næsta ári? Er hann tilbúinn til að lýsa því yfir að hann vilji, að öllum öðrum skilyrðum uppfylltum, tryggja að fjármunir fáist í Reykjavíkurflugvöll á árinu 1998? Það er auðvitað algerlega óþolandi að setja hlutina upp gagnvart þessari framkvæmd eins og oft hefur verið gert á undanförnum árum. Mér finnst satt að segja að flugmálayfirvöld í landinu þurfi að hafa víðari sýn en mér finnst þau stundum hafa. Ég er í sjálfu sér ekki endilega að telja að það fólk sem fer um Reykjavíkurflugvöll ráði öllu í þessu sambandi, mér finnst bara að menn eigi að hafa sanngjarna heildaryfirsýn yfir málin og mér finnst ekki að það sé hlutverk flugmálayfirvalda að standa í deilum við borgaryfirvöld um svona mál. Hér er um faglegt úrlausnarefni að ræða og flugmálayfirvöld hafa það hlutverk að raða verkefnum upp í forgangsröð eftir faglegri niðurstöðu. Það er síðan ráðherrans að taka hina pólitísku ákvörðun í málinu. Og ég hef engin fagleg rök séð frá Flugmálastjórn fyrir því að standa að málum eins og verið er að tala um hér. Þess vegna kvaddi ég mér hljóðs, herra forseti, og nota um leið tækifærið til að taka eindregið undir þær áskoranir sem fram komu í þessum efnum frá hv. 10. þm. Reykv.