Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 15:50:57 (931)

1997-11-04 15:50:57# 122. lþ. 18.7 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[15:50]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef þá lítur skipulagsstjóri ríkisins svo á að deiliskipulag verði að liggja fyrir áður en verk er boðið út. Þar að auki er það nauðsynlegt af hagkvæmnisástæðum og til þess að hægt sé að standa rétt að útboðinu. Það er ástæðulaust að draga það á langinn og raunar óskiljanlegt hvers vegna það eigi að vera sérstakt kappsmál að deiliskipulag skuli ekki afgreitt.

Í annan stað vil ég segja að sú flugbraut sem hér hefur verið talað um hefur verið talin nauðsynleg vegna flugöryggis. Það er einnig talið mjög æskilegt fyrir þá sem fljúga til landsins og frá, ekki aðeins fyrir flugrekendur heldur líka þá sem þurfa að komast leiðar sinnar --- farþegana, bæði Reykvíkinga og fólk utan af landi sem þarf að fara til Reykjavíkur --- að hægt sé að lenda flugvélum á þessari braut. Það er ekki oft á ári sem til þess kemur, mér skilst að það kunni að vera 10--12 dagar, þó kannski ekki allan daginn, en auðvitað er það eitthvað mismunandi frá ári til árs. Ég hygg að nauðsynlegt sé að reyna að ná samkomulagi um að hægt sé að halda þessari braut opinni í framtíðinni, bæði vegna flugöryggis og til þægindaauka fyrir þá sem fljúga og líka vegna þess að það sparar tíma og er ódýrara.